Vinaleiðin

Ég var fyrir margt löngu búin að ákveða að skrifa ekki færslu um Vinaleiðina hér á annálinn minn, nema undir rós. En þar sem ég er ekki mikill prinsipmaður, þá ætla ég að nótera nokkra mikilvæga þætti, sem ég tel að þurfi að líta til og byggi á ummælum mínum á Vantrúarvefnum.

Af öllu sem ég hef heyrt virðist mér að undirbúningur Vinaleiðarinnar í Garðbæ hafi verið fremur “naiv” innan kirkjunnar. Við sem tilheyrum eigum það til að gleyma því að þjóðin sem er þjónað er ekki jafn einsleit og hún var fyrir aðeins 20 árum. Ég er reyndar sannfærður um að Vinaleiðarverkefnið sé jákvætt að flestu leiti og markmiðin göfug, en þegar að í ljós kom að ekki allir voru á sama máli, klikkaði eitthvað eða öllu heldur “naiv” undirbúningurinn kom í ljós. Fyrstu viðbrögð kirkjunnar og skólans, voru að pakka í vörn í stað þess að hlusta. Þetta hefur síðan valdið því að í stað þess að fagna viðbrögðum og biðja fólk um að gera athugasemdir, þá hefur málið snúist um nafnlaus og ekki nafnlaus bréf, kröfur um að þjónustunni sé hætt tafarlaust, nú eða að allt sé í besta lagi og engu þurfi að breyta. “Name Calling” á báða bóga hefur einkennt umræðuna og ég tel að sökin felist að miklu leiti hjá kirkjunni og skólayfirvöldum fyrir að hafa ekki unnið forvinnuna betur. Þetta ástand merkir í dag að einstaka foreldrar þora ekki að benda á það sem betur má fara af ótta við að tengsl við skólann bíði hnekki, sem hafa nú þegar skaðað tengsl einstakra foreldra og skóla gífurlega enda traustið farið.
Ég tel að þjónusta Vinaleiðarinnar sé mikilvæg eða í versta falli mjög góð viðbót við skólastarf á Íslandi. Ég er að mörgu leiti stoltur af kirkjunni fyrir að þróa þessa þjónustu og finnst hugmyndin sína framsýni og væntumþykju fyrir þjóðinni sem kirkjan sinnir. Undirbúningi var hins vegar ábótavant og meðal mikilvægra spurninga sem gleymdist að svara, eða alla vega er ekki svarað skýrt eru t.d.

  1. Hvers vegna djákna og presta til að sinna verkefninu?
  2. Er um að ræða sálgæslu eða er þetta stuðningsviðtal?
  3. Hvernig á samskiptum kirkju og Vinaleiðar að vera háttað (öðrum en fjárhagslegum stuðningi og þróun verkefnis)?
  4. Hvernig á aðkomu foreldra að vera háttað?
  5. Hvernig bjóðum við foreldrum upp á að bregðast við þjónustunni? Bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt án þess að það skaði tengsl foreldra og skóla.
  6. Hver eru innri markmið kirkjunnar með aðkomu að Vinaleið? Er Vinaleiðin tilraun fyrir kirkjuna til að komast inn í skólanna með starf sitt eða er Vinaleiðin tilraun til að bjóða upp á starf til að létta undir með kennurum og bjóða stuðning við börn í skólakerfinu með því að opna aðgang að fullorðinni manneskju með forsendur til að gefa sér tíma.

Mín skoðun er sú að aðeins með vandaðri sjálfsgagnrýni geti kirkjan komist heiðarlega í gegnum þá gagnrýni sem hún hefur fengið. Það er mikilvægt að spyrja þessara spurninga, af heiðarleik og einlægni. Þegar það hefur verið gert er síðan hægt að koma fram og kynna verkefnið af stolti í stað þess að hröklast margsaga frá borði fréttamanna.

42 thoughts on “Vinaleiðin”

  1. Já, ég er sammála því að það hafi verið klúðurslega að þessu staðið og vil taka undir gagnrýni á það að nota eingöngu vígt fólk í þetta starf. Það eitt sýnir að trúboð lá að baki hugmyndinni. Þannig hafi í raun verið verr af stað farið en heima setið. Ef hins vegar guðfræðingar, með sálgæslu sem sérsvið, hefðu verið fengnir í þetta þá hefði faglegi þátturinn verið sterkari. Einnig sá ég einhvers staðar orðið “kristin sálgæsla” notuð um þessa starfsemi sem mér finnst mjög óheppilegt og styrkir grunsemdir manna um að hér sé um trúboð að ræða. Man reyndar ekki til þess að hafa heyrt orðið “kristin” notað í þessu samhengi fyrr. Þannig er framtakið ekki gott í sjálfu sér. Það hefur orðið til þess að fólk fyllist tortryggni í garð kirkjunnar. Hún leggur ekki fram stuðning sinn heldur notar sér vandamál fólks til að veiða það í net sín. Þannig hagar hún sé eins og sértrúarsöfnuður. Kannski er það einmitt vandamál kirkjunnar í dag. Hún er að verða sértrúarsöfnuður í stað breiðrar þjóðkir

  2. Ég er ekki sammála þér, Torfi, að það að nota vígt fólk til verksins gefi endilega í skin trúboð. Ég hallast að því að vígslan hafi átt að gefa starfinu vægi, gera guðfræðinga gildandi. Einmitt vegna ímyndaðrar stöðu kirkjunnar sem breiðrar þjóðkirkju, sem ekki er lengur til og var hugsanlega aldrei til. Í greinargerð fyrir ÆSKR, um mikilvægi þess að ég sjálfur fengi vígslu á sínum tíma, lagði ég einmitt áherslu á vígsluna í ljósi þess að hún gefi vægi, hún hækkaði status starfa minna. Þessi greinargerðin mín er líklega versta innlegg mitt til praktískrar guðfræði (ever). Enda gróf hún undan almennum prestsdómi. Ég tel því að leið vígslunnar sé ekki tilraun til að gera kirkjuna að sértrúarsöfnuði, heldur sé þvert á móti afturhvarf til 1910, þegar skorið var á þátttöku safnaðarins í skírnarathöfninni og hún sett alfarið í hendur embættismanns kirkjunnar sem var lítt aðgreindur frá öðrum embættismönnum samfélagsins.

  3. Þessi skrif þín Elli eru nú full af mótsögnum. Fyrst talar þú með velþóknun um að vígslan hefur aukið vægi starfsins á einhvern magískan hátt. Það er reyndar kaþólska! Síðan hneykslast þú á þessari sömu hugsun með því að gagnrýna eigin greinagerð, sem byggir á því sama, fyrir að grafa undan almennum prestdómi! Auðvitað er kirkjan enn breið þjóðkirkja og hefur alltaf verið (yfir 90% fermast). Ég las um daginn að enn væru prestar að kenna kristinfræði í skólum landsins (10-20% kennslu í greininni á þeirra vegum). Þetta sýnir auðvitað breiðkirkju. Þeim er treyst fyrir því að fræða en ekki boða – og enginn mótmælir. Svo kemur vígt fólk inn í skólana og misnotar aðstöðu sína í svo kallaðri Vinaleið með hreinni og klárri boðun. Það er ekki vinnubrögð breiðkirkju heldur sértrúarsafnaðar. Svo er auðvitað spurning hvort KFUM og K sé ekki sértrúarsöfnuður innan breiðkirkjunnar.

  4. Þú miskilur mig Torfi, ég lýsi grundsemdum mínum um það sem þú kallar “magíska hugmynd” hafi legið að baki vígslunni. Í mínum huga er hins vegar ekki um magíska hugmynd að ræða, heldur einfaldlega um að ræða (mis)skilning á stöðu presta í samfélaginu. Ég tala ekki um þessa hugmynd með velþóknun á neinn hátt. (BREYTT) Ég samþykki að embættisþjónustan hefur náð til stórs hluta þjóðarinnar, en að skilgreina kirkjuna sem þá þjónustu er að mínu viti hæpin skilgreining á kirkju. Enda er kirkjan ekki embættismennirnir einir að mínu viti. En ég er auðvitað alinn upp í KFUM og KFUK og hef væntanlega mínar ranghugmyndir um kirkju þaðan.

  5. Ég verð að lýsa ánægju minni með þegjandi samþykki guðfræðinga á annálum. Mig grunaði að þeir væru, líkt og Halldór, á móti þessari svonefndu Vinaleið. Það er gott að fá það staðfest hér. Væru þeir fylgjandi hefðu þeir að sjálfsögðu andmælt Halldóri. Varla er hægt að saka hann um ofnæmi fyrir kristni, en svo barnalega taktík hafa sumir prestar notað í þessu máli. Það er lykilatriði í þessu Vinarleðindamáli að þegar Jóna Hrönn og aðrir prestar tala um einungis sé verið að hugsa um börnin, segja þau ósatt. Hilmar, fyrrverandi skólastjóri Hofstaðaskóla í Garðabæ, fór fram að í stað prests yrði fenginn námsráðgjafi. Því var algjörlega hafnað. M.ö.o. peningarnir voru til staðar (í formi styrks frá einkafyrirtæki) en þá átti einungis að nota til að koma vígðri manneskju inn í skólana. Ég fagna þessum nýja stuðningi annálaguðfræðinga. Batnandi er mönnum best að lifa.

  6. Ég verð að gera þá athugasemd hér að ég er EKKI á móti Vinaleiðinni, en tel að ýmislegt hefði mátt fara betur. Það hvort einhver birti ummæli við vangaveltur mínar á vef mínum, eða ekki er á engan hátt mælikvarði á skoðanir fólks. Ég hef rætt þessar athugasemdir í síma og með tölvupóstum við fjölda einstaklinga sem vilja ekki taka þátt í opinberri umræðu um málið, sér í lagi ekki á bloggsvæðum. Það er sérkennileg sú ályktun að ummælaleysi þeirra hér sé afstaða í málinu. Svo ég vitni í góðan mann, damned if you do, damned if you don’t.

  7. Víst ertu á móti Vinaleiðinni. Þú ert fylgjandi einhverju sem þér finnst að Vinaleiðin ætti að vera. En þú ert á móti þeirri Vinaleið sem er raunveruleiki á Íslandi í dag. Af hverju getur þú ekki bara sagt það hreint út?

  8. Matti, ég tel að ríki og kirkja eigi að vera aðskilinn. Þannig tel ég að kirkjan á Íslandi sé ekki eins og hún eigi að vera. Er ég á móti kirkjunni? Ég tel að skólakerfið á Íslandi sé að sumu leiti gallað. Er ég á móti skólakerfinu? Nei, Matti ég tel skólakerfið nauðsynlegt, ég er hluti kirkjunnar sem ég gagnrýni. Heimurinn er ekki svarthvítur.

  9. Þetta eru útúrsnúningar Halldór. Ég er ekki að rugla saman fyrirbærum, heldur tala um ákveðna starfssemi sem er í gangi í dag og fer fram með tilteknum hætti. Þú getur sagt að þú viljir gera hinar og þessar breytingar á Vinaleið, en þá ertu ekki að tala um þá Vinaleið sem er í gangi á Íslandi í dag. Svo veistu vel að ég er að vísa til þeirra guðfræðinga sem rita á vefinn og hafa hingað til ekki verið hræddir við að tjá sig. En í þessu Vinaleiðarmáli eru þeir skyndilega farnir að fela skoðanir sínar. Ég sé bara tvær mögulegar skýringar á því. Þeir styðja Vinaleið og skammast sín fyrir það eða að þeir eru á móti henni og þora ekki að tjá það. Heimurinn er ekki svarthvítur, en til eru ótal fullyrðingar sem eru annað hvort sannar eða ósannar.

  10. Fyrir það fyrsta þá er ljóst að ekki er hægt að gera athugasemdir við framkvæmdina án þess að vera stimplaður með eða á móti og gerðar upp skoðanir. Það mislíkar flestum. Af þeim sökum forðast margir að koma að umræðunni hér. Tilraunir þínar Matti til að setja mig í bás eru gott dæmi um það. Og Matti, ég hef athugasemdir við framkvæmdina, en ég tel fráleitt loka á verkefnið tafarlaust og byrja upp á nýtt, eða leggja þjónustuna af. Þjónustan er að mínu viti mikilvæg og góð þó ýmislegt hafi farið miður.

  11. Og hvernig myndir þú vilja standa að trúboði Þjóðkirkjunnar í opinberum skólum?

  12. Trúboð á ekki heima í opinberum skólum. Hins vegar merkir það ekki að félagsleg þjónusta við börn, kostuð af kirkjunni eða kynning á starfsemi kirkjunnar eigi ekki heima þar.

  13. Trúboð á ekki heima í opinberum skólum.

    En þá hlýturðu að vera á móti Vinaleið. Hún er kristileg sálgæsla þjóðkirkjuprests. Hvað í ósköpunum viltu þá að kirkjan geri í skólunum? Borgi fyrir starf sálfræðings? Er það Vinaleeið? Kynni starfsemi sína? Er það Vinaleið?

  14. Hjalti, að mínu viti er sálgæsla ekki trúboð og reyndar vil ég ganga svo langt að segja að þegar sálgæsla verður trúboð, þá er ekki lengur um sálgæslu að ræða. Vinaleiðin getur vel gengið sem sálgæsla, ég hugsa að hugmyndin um kristilega sálgæslu sé mótsögn í sjálfu sér, það er líkast til rétt. Ég sé ekki að það sé aðalatriði hver annast sálgæsluna, svo fremi sem hann sé hæfur og kunni til verka. Það getur átt við um djákna, félagsráðgjafa, presta, guðfræðinga, sálfræðinga og fleiri. Hættan við vígða þjóna er að þeir eru á sérstakan hátt táknmyndir fyrir kristna kirkju og gætu gefið þá mynd að sálgæslan sé á einhvern hátt “inclusive” en standi ekki öllum til boða, eins og komið hefur á daginn. Með aðkomu vígðra starfsmanna verði þjónustan trúarlega gildishlaðin. En á sálgæsla undir heitinu Vinaleið heima í grunnskólum, já, það er mitt mat.

  15. Nú fer það eftir því hvað þú átt við með “sálgæslu” hvort það sé trúboð eða ekki. En fyrst það er ekki aðalatriðið að vígður maður sjái um hana, ertu þá ekki sammála því að ef skólinn á að vera hlutlaus í trúmálum, þá ætti hann ekki að láta fulltrúa eins trúfélagas sjá um hana? En ef þú værir sáttur við að t.d. sálfræðingur sæi um “sálgæslu”, hvers vegna í ósköpunum að kalla það Vinaleið? En miðað við lýsingu sumra manna, t.d. þjóðkirkjuprestanna Sigfinns Þorleifssonar (sem hefur víst kennt sálgæslu í mörg ár) og Þorvalds Karls Helgasonar, þá er ljóst að sálgæsla sé kristin (amk að það sé til kristin gerð af henni), og að það sé hæglega hægt að flokka hana sem trúboð.

  16. …ég hugsa að hugmyndin um kristilega sálgæslu sé mótsögn í sjálfu sér, það er líkast til rétt.

    Ég prófaði að leita að “kristileg sálgæsla” og rakst á þetta:

    Kristileg sálgæsla er ekki tæknileg aðferðafræði, heldur miklu fremur viðtal tveggja eða fleiri einstaklinga í samhengi við kirkjuna (í nærveru Guðs, með orðalagi mínu). Þegar við kynnum sálgæsluna sem einhvers konar tækni sem er í einhverjum skilningi óháð Kristi erum við að mínu mati ekki að fullu heiðarleg.

    Hefurðu skipt um skoðun eða er þetta kannski samrýmanlegt?

  17. Eins og hér má sjá snýst þetta í raun um að koma kristi í skólana. Af hverju getið þið ekki bara játað það? Þið hafið réttlætta kristniboð í leikskólum með því að það sé skírnarkennsla eða eitthvað álíka fáránlegt, nú nota menn sömu rök til að réttlæta vinaleið. Eins og ég hef bent á er það ekki valmöguleik í raun þó boðið sé upp á að taka börnin úr skólsstarfi. Ég er með hugmynd og þætti gott að fá þitt álit Halldór. Ég er að spá að fara að stunda messuskemmdir. Ég ætla að mæta í guðþjónustur á höfuðborgarsvæðinu og vera með læti. Ekkert ofbeldi, heldur bara spyrja prestinn út í prédikun, í miðri prédikun og svo framvegis. Taka hressilega undir söngnum, án þess að kunna texta eða lag – og haga bara eins og asni. Þetta mun valda óþægindum og vera til vanda, en mér er drullusama, því það virðist nefnilega vera svo að Þjóðkirkjuliðinu er drullusama hvað hinum finnst. Þau hafa “réttinn”.

  18. … ertu þá ekki sammála því að ég hafi rétt á því að spilla guðþjónustum og sunnudagaskólasamkomum? Ég gæti svo gert Þjóðkirkjunni tilboð, ég hætti að spilla guðþjónustum ef Þjóðkirkjan hættir trúboði í leikskólum og barnaskólum. Það finnst mér sanngjarnt. En þér?

  19. Þetta er réttmæt ábending Hjalti að að ég fer óvarlega þegar ég samtvinna hugtökin kristilegt og sálgæsla. Vandinn hér er munurinn á framkvæmd annars vegar og “mótivation” þjónustuaðilans hins vegar. Í mínum huga er ekki hægt að sinna sálgæslu án “trúarlegrar mótivationar” en um leið er sálgæsla sem heldur á lofti þeirri “mótivation” gagnvart “skjólstæðingi” ekki lengur sálgæsla. Spurningin sem ég varpa því upp hvort að verkefnið sé framkvæmanlegt, sér í lagi þegar við bætum viðskeytinu kristilegt framan við og gerum “mótivationina” að inntaki þjónustunnar. Varðandi hugtakið Vinaleið, þá nær það ágætlega utan um “conseptið” sem verið er að bjóða upp. Aukið hlutfall sálfræðings eða félagsráðgjafa eitt og sér tekur ekki sjálfkrafa yfir þessa þjónustu, enda er þar ekki endilega um sömu þjónustu að ræða.

  20. Mér, Matti, er ekki sama um hvað þér finnst. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé sammála þér um allt, eða taki í blindni upp allt sem þú heldur fram. Ég tala ekki fyrir aðra. Þá er eins ljóst að starf kirkjunnar hefur ekki það að markmiði sínu að spilla og eyðileggja, heldur að gera betra, hvort sem leiðin er rétt eða ekki. Það er grundvallarmismunurinn á hugmynd þinni og hugmynd kirkjunnar.

  21. “þessir trúlausu foreldrar geta bara tekið börnin sín úr hópnum og látið þau leika sér úti í horni meðan hin börnin læra að biðja bænir með prestinum – það er okkar réttur að.” Það er hugsanlega ekki opinbert markmið að spilla og eyðileggja Halldór. En það er raunveruleikinn. Eins og ég sagði, meðan ég hef ekkert að bjóða kirkjunni er lítil von til þessa að kirkjan bakki. Kannski batnar samningsaðstaða mín til muna þegar ég get boðið henni frið í guðþjónustum og sunnudagaskólum. Það er ekki eins og ég væri að ónáða marga. Grínlaust Halldór, þetta er það eina sem eftir stendur.

    eða taki í blindni upp allt sem þú heldur fram

    Ég hef engu haldið fram sem þú þarft að hafa fyrir að taka í blindni. Ég hef lýst staðreyndum málsins eins og þau blasa við. Hefurðu tekið eftir því að í hvert skipti sem kirkjan segir satt um Vinaleið versnar málstaður hennar.

  22. …til að fegra málstaðinn mæta fulltrúar kirkjunnar í sjónvarpið og ljúga upp í opið geðið á þjóðinni (ég get bakkað þetta upp með beinhörðum sönnunum). Meira segja er svo langt gengið að á heimasíðu Þjóðkirkjunnar er vefsíðum sem fjalla um Vinaleið breytt eftirá, án þess að þess sé getið. Við erum að tala um falsanir. Þetta get ég líka sannað. Gagnrýnendur Vinaleiðar hafa engu logið, ekkert falsað. Þegar málstaðurinn er góður vinnur sannleikurinn með manni.

  23. Er sálgæsla sem sagt ekki kristileg, þrátt fyrir að það sé óheiðarlegt (“ekki að fullu heiðarleg[t]”) að halda því fram að hún sé í “einhverjum skilningi óháð Kristi”? Og þegar kennarar við sálgæslufræði í guðfræðideild HÍ tala um “kristna sálgæslu”, þá er það bara vitleysa (þar sem “kristin sálgæsla” er “mótsögn í sjálfu sér”)?

    Í mínum huga er ekki hægt að sinna sálgæslu án “trúarlegrar mótivationar”…

    Þannig að sálfræðingur (sem hefur líklega ekki “trúarlega mótivation” (hvatningu?) getur ekki sinnt sálgæslu?

  24. Sæll Hjalti, þú gerir vel í að benda á galla í þönkum mínum (og auðvitað er rétta orðið hvati eða hvatning). Ég get ekki svarað fyrir aðra, en ég reyndi að útskýra fyrir þér að hvati þjónustunnar á ekki að koma fram í birtingarmynd hennar. Í mínum huga er sálgæsla trúarleg þjónusta, byggð á því í kristinni hefð að við eigum að vera náunga okkar Kristur. En á sama tíma ber okkur að virða tilfinningar, skoðanir og vilja skjólstæðingsins að fullu og í sálgæslunni er ekkert rúm fyrir trúarskoðanir og vilja þess sem veitir þjónustuna. Með því að tala um kristilega sálgæslu í kynningu eru trúarskoðanir þess sem veitir þjónustuna settar í öndvegi og ógildir það hugsanlega þjónustuna að einhverju leiti að mínu viti. Einnig er hætt við slíku þegar einblínt er á trúfélagsaðild þess sem á að veita þjónustuna eða gerð krafa um vígslu frá ákveðnu trúfélagi. Hins vegar þarf vígslan eða trúfélagsaðildin sem slík ekki endilega að eyðileggja þjónustuna, það er krafan sem að mínu mati er vandamálið. Varðandi hugtakið sálgæsla, þá tekur það í huga mínum tillit til og virðir trúarhugmyndir “skjólstæðingsins”. Án viljans til að fagna glímunni við Guð, ef hún kemur upp, myndi ég frekar notast við hugtakið stuðningsviðtal. En það hefur ekkert með menntun að gera. Sálfræðingur getur boðið upp á sálgæslu og guðfræðingur upp á stuðningsviðtöl. (Lagfært lítillega 03.51 23/01)

  25. Mig langar að vita meir um þessa trúarlegu hvatningu. Ef þú vilt takmarka kristilega þátt sálgæslunnar við það að hann sé bara ástæða þess að einstaklingurinn stundi sálgæslu (“trúarleg hvatning”), þá getur trúlaus sálfræðingur ekki veitt þessa þjónustu. Viltu þá auglýsa sálgæslustöðu í opinberum skólum þar sem kristin trú er skilyrði þess að þú fáir starfið? Finnst þér ekkert athugavert við það? Heldurðu að það sé löglegt? Og fyrst einu nauðsynlegu (ef ég skil þig rétt) tengsl sálgæslunnar við kristna trú er sú að sálgæsluaðilinn gerir það vegna trúar sinnar, hvers vegna getur hann þá ekki bara hjálpað börnunum sem félagsráðgjafi eða sálfræðingur, eða bara venjuleg manneskja? Getur hann ekki bara hugsað með sér “Ég er náunga mínum Kristur.”, í staðinn fyrir að vera blanda Jesú í sjálft starfið?

  26. Halldór, hvaða bullandi afstæðishyggja er þetta. Ég er að tala um raunveruleikann. Ekki mína túlkun á honum. Mikið óskaplega verður allt loðið og óljóst þegar það hentar þér.

  27. Hjalti, ein af spurningunum sem ég hef um Vinaleiðina er hvort um sé að ræða stuðningsviðtöl eða sálgæslu. Það snertir einmitt vangaveltuna um hvort trúarleg hvatning sé forsenda. Annars lít ég svo á að trúlaus einstaklingur geti haft “trúarlega hvatningu”, sú umræða er hins vegar gagnslaus hér, sú hvatning byggir að sjálfsögðu ekki á orðunum “að vera náunganum Kristur”. Matti, það “hentar” mér ALLTAF að muna að skoðanir og túlkanir eru sjaldnast altækar. Þannig tek ég ekki undir öll orð þín í færslunni að ofan. Raunveruleikinn í mínum huga er EKKI sá að kirkjan hafi stundað falsanir og allir sem berjast gegn Vinaleiðinni hafi alltaf verið heiðarlegir í umræðunni. Er minn raunveruleiki þá rangur? Þessi orðanotkun er ÞÍN og þess vegna ÞÍN túlkun, sér í lagi þegar notast er við gildishlaðin hugtök eins og FALSANIR.

  28. Hjalti, ein af spurningunum sem ég hef um Vinaleiðina er hvort um sé að ræða stuðningsviðtöl eða sálgæslu. Það snertir einmitt vangaveltuna um hvort trúarleg hvatning sé forsenda.

    Ég skil einmitt ekki alveg þá spurningu þína. Er það ekki augljóst að kirkjan lítur á þetta sem sálgæslu? Hvaðan fékkstu þá hugmynd um að þetta væri ekki sálgæsla? Í siðareglum Vinaleiðar (ef þetta hefur ekki breyst frá því ég skrifa þetta) er talað um Vinaleið sem sálgæslu, í moggagrein nafna þíns, í allri kynningu og umfjöllun Þórdísar djákna.

    Annars lít ég svo á að trúlaus einstaklingur geti haft “trúarlega hvatningu”, sú umræða er hins vegar gagnslaus hér, sú hvatning byggir að sjálfsögðu ekki á orðunum “að vera náunganum Kristur”.

    Ég held að það sé ekki gagnlaust. Hvað áttu þá við með “trúarlegri hvatningu” ef

  29. Raunveruleikinn í mínum huga er EKKI sá að kirkjan hafi stundað falsanir

    Þetta er ekki mín túlkun Halldór. Á heimasíðu Þjóðkirkjunnar voru settar upp reglur Vinarleiðar í október síðastliðin. Þessum reglum var svo breytt umtalsvert eftirá á heimasíðunni án þess að nokkur merki væru um það, dagsetning færslunnar var enn sú sama. Fölsun. Prestur Þjóðkirkjunnar mætti í sjónvarpssal og fullyrti að Vinaleiðaprestar færu ekki í kennslustofur barnanna. Sama dag fór presturinn í skólastofur barnanna í Hofstaðaskóla. Sami prestur og vappar um matstofu barnanna og röltir um leiksvæðið í frímínútum. Lygi. Hér þarf ekkert að túlka Halldór, þetta blasir við. Nú mátt þú benda á óheiðarlegan málflutning þeirra sem eru á móti Vinaleið. Ekki túlkanir, heldur staðreyndir takk.

  30. Matti, ég hef engan áhuga á að fara að kasta sandi. En skoðaðu færsluna sem vísað er í hér í upphafi af Vantrúarvefnum og byrjaðu á fyrirsögninni. Þú getur skoðað túlkanir sumra í ykkar hópi á norska dómnum eða hvernig vísað er í texta um framhaldsskóla og hann afbakaður til að nota gegn Vinaleiðinni. Ég hef hins vegar lítinn áhuga á að ræða hvort aðilinn hér er meiri asni. Sú umræða er gagnslaus og snýst um túlkanir og EKKERT annað. Hjalti, ég hef heldur ekki áhuga á að ræða um trúarhugtakið eins og ég skil það við Vantrúarmenn, og geri grein fyrir af hverju í á færslu á trú.is. Ég veit að Halldór Reynisson og Þórdís hafa notað sálgæsluhugtakið um Vinaleiðina. Ég hins vegar varpa upp spurningunni hvort það sé nauðsynlegt að nota það hugtak um þjónustuna.

  31. “Færslan” sem þú vísar til er bara vísun á bréf frá móður barns í Hofstaðaskóla. Fyrirsögnin er tekin beint frá Siðmennt, sem fékk bréfið og birtar það á síðu sinni. Ekki hef ég kallað nokkurn mann asna í þessari umræðu og skil ekki hví þú notar það orð í hér.

  32. Það var klaufalegt að nota orðið asni hér. En umræða sem snýst um hver sagði hvað fyrst og hvers vegna, endar alltaf í nafnaköllum og leiðindum. Það var það sem ég var að vísa til með þessu orði.

  33. Sannarlega þörf umræða. Hins vegar langar mig til að geta þess að ég er kristinn, skráður í þjóðkirkjuna og tek þátt í kristilegu starfi með börnum og unglingum í frítíma mínum. Þess utan er ég kennari í grunnskóla og fullyrði að starf mitt þar og framkoma er mótað af kristnum lífsskilningi mínum. Þar á meðal sú afstaða að allir séu jafnir, hafi frjálsan vilja, og eigi rétt á sinni skoðun sem ég skal virða svo fremi sem hún brýtur ekki á rétti annarra til að halda fram ólíkri skoðun. En með mér hafa í gegnum tíðina starfað einstaklingar sem hafa verið yfirlýstir trúleysingjar og hafa þeir hvað mest úttalað sig um þá skoðun sína við nemendur og gert grín að þeirri hugmynd að Guð sé til. Ég boða ekki trú á Krist með orðum í mínu starfi en ég geri það vonandi með framkomu minni. Og þá er það spurningin…. Hverjir halda sterkar á lofti skoðunum sínum í starfi kennarans, trúaðir eða trúlausir???

  34. Allt í lagi, þú vilt þá skilgreina trú svona: “trú [er] það sem einstaklinginn varðar öllu öðru fremur“. Og ef einstaklingur hjálpar öðrum vegna þess sem varðar hann öðru fremur, er það þá sálgæsla?

    Ég veit að Halldór Reynisson og Þórdís hafa notað sálgæsluhugtakið um Vinaleiðina. Ég hins vegar varpa upp spurningunni hvort það sé nauðsynlegt að nota það hugtak um þjónustuna.

    Ertu að spyrja að því hvort þetta sé kannski ekki sálgæsla, þrátt fyrir að þau (og allir sem koma að þessu) segi að þetta sé sálgæsla? Ég held að þú þurfir að útskýra aðeins betur hvað þú átt við með sálgæslu og stuðningsviðtali. Hver er munurinn? Ef eini munurinn er “trúarlega hvatningin”, hvers vegna ætti að búa til sérstakt starf sem er skilgreint eingöngu út frá ástæðu þess sem sér um starfið? Getur kristna fólkið ekki sinnt starfi félagsráðgjafa eða barnasálfræðings út af þessari “trúarlegu hvatningu”?

  35. Hverjir halda sterkar á lofti skoðunum sínum í starfi kennarans, trúaðir eða trúlausir???

    Góð spurning, en því miður getum við ekki alhæft út frá reynslu þinni.

  36. Mín pæling er bara sú að þessi þjónusta sem vinaleið er getur verið skilgreind með þeim hætti að sá sem sinnir henni sé betur meðvitaður um ábyrgð sína gagnvart einstaklingum sem hann þjónustar og tekið meira tillit til ólíkra lífsskoðana heldur en margur kennarinn gerir með orðum sínum og framkomu. Ég er á þeirri skoðun að hugmyndin um vinaleið sé góð sem slík og án efa þörf á þessari þjónustu en set samt spurningamerki við það hvort ein kirkja eigi að standa á bakvið verkefnið.

Comments are closed.