99 stig

Fyrir tæpum 20 árum kallaði skólastjórinn í gagnfræðaskólanum mínum, mig inn á skrifstofuna sína. Þannig var að niðurstöður samræmdu prófanna voru nýkomnar í hús. Af einhverjum ástæðum sá hann ástæðu til að ræða við mig sérstaklega um niðurstöðu stærðfræðiprófsins.

Hann sýndi mér blað með upplýsingum um prófaniðurstöðuna, þar sem einstakir liðir prófsins voru greindir niður. Ég var með fullt fyrir öll dæmi nema eitt, í lok prófsins var 3 stiga dæmi. Dæmið fól í sér að taka upplýsingar sem fólu í sér tvær óþekktar stærðir, útbúa TVÆR jöfnur með tveimur óþekktum, leysa þær saman og finna svarið. Ég hafði hins vegar, stytt mér leið, fundið í huganum tengslin á milli óþekktu stærðanna og útbúið jöfnu með EINNI óþekktri stærð. Svarið við dæminu var rétt, aðferðin var vitlaust. Ég fékk tvö stig í staðinn fyrir þrjú. Ég man þetta enn.

Tveimur árum áður, var ég í sögutíma á bókasafninu í sama gagnfræðaskóla, kennarinn hét Bergljót frekar en Berglind, hún hafði nýlokið við að afhenda okkur til baka próflausnir úr skyndiprófi. Og var að fara yfir svörin með okkur. Ég hafði fengið 10, allt rétt, þannig að ég sýndi sjálfsagt ekki of mikinn áhuga á yfirferðinni. Skyndilega stóð hún við borðið mitt (það voru trapisuborð á bókasafninu) og fór að skamma mig, hún sagði mér meðal annars að henni þætti ekkert varið í svona nemendur sem halda að þeir viti allt, það sé ekkert afrek að lesa daginn fyrir próf og fá 10 og skammaðist yfir áhugaleysi mínu á námsefninu. Ég væri sko ekkert númer í hennar augum. Ég man þetta enn. Ég man líka þegar mér barst til eyrna athugasemd þýsku kennarans, um að hún skyldi nú ekkert í því af hverju ég tæki þátt í tilraunahópi á vegum Braga Jósepssonar fyrir afburðagreind börn. Það væri ekki eins og ég væri merkilegur nemandi. Davíð eðlisfræðikennari talaði síðar í tíma um að það þyrfti að byrja á að brjóta sjálfsöryggi nemenda niður til að kenna þeim. Ég lærði aldrei neitt hjá honum og er enn þeirrar skoðunar að eðlisfræði sé rugl og einungis léleg nálgun að veruleikanum.

Einn af grunnþáttum námsins míns hér í Trinity Lutheran Seminary er sjálfskoðun. Það er sama hvert litið er í náminu. Við rifjum upp minnistæða kennara, greinum fjölskyldumunstur, skrifum ritgerðir um guðfræðilega sýn okkar á veruleikann. Ástæða þessarar áherslu er sá heildræni skilningur að VIÐ í mjög víðri merkingu þess orðs mótum allt sem við gerum og heyrum. VIÐ séum afurð þess umhverfis sem við komum úr, fjölskyldumunstur, reynsla á öllum sviðum lífsins móti hver við erum, hvað við gerum og hvað við getum gert. Á stundum er auðvelt að hugsa að áherslan á félagslega umhverfið og reynsluna sé of sterk, en þá má ekki gleyma því að einstaklingshyggjan er líklega sterkari hér í BNA en annars staðar, þannig að rödd félagsmótunarinnar verður að hljóma hátt, til að hún nái að heyrast.

Enn það er ekki nóg að rifja upp sögurnar, skrá guðfræðinna, eða segja hvað ég játa. Við þurfum líka að glíma við spurninguna, hvers vegna? Sú staðreynd að ég man enn orð Bergljótar eða Berglindar, þó ég muni ekki hvað hún hét, er það orsök eða afleiðing þess að ég aðhylltist guðfræði O’Hallesby og Bjarna Eyjólfssonar fram á fullorðinsár og er ekki enn laus undan hugsunum þeirra, eða er ástæðan önnur? Við getum auðvitað líka spurt okkur, hvers vegna Berg-eitthvað, kaus að hella sér yfir mig í tíma. Var ég ögrun við hana sem kennara, gerði ég lítið úr viðleitni hennar til að vekja áhuga nemendanna á námsefninu? Var ég e.t.v. birtingarmynd einhvers í fortíð hennar, skyldi hún yfirleitt muna eftir að ég sé til? Og ef hún veit ekki af tilvist minni, af hverju er hún svona föst í minni minningu.

Á sama hátt spyr ég mig hvaða tilgangi það þjónaði að láta mig vita um “stigið sem skorti”. Á einkunnablaðinu nokkrum vikum seinna stóð 10. En ég veit að ég fékk 9,9 og ég á alltaf eftir að vita það. Var skólastjórinn stoltur af mér, eða var ég of hrokafullur og hann vildi slökkva í mér, ég fæ líklega aldrei að vita það. Kannski fannst honum þetta fyndið og hélt að ég myndi deila brandaranum. Ég gerði það á vissan hátt, ég man þetta enn og blogga um þetta hér. Alla vega hér í BNA er 99 auðvitað mun söluvænlegra og alþýðlegra en 100, þannig að kannski var hann að minna mig á að ég væri allra, en ekki hluti elítunnar, hver veit.

Þessi áhersla á sjálfskoðun í náminu, kallar líka fram spurningar um markmið og tilvist. Þannig hef ég haft tilhneigingu til að túlka þá staðreynd að Jason Hsu nefndi við Jennýju möguleikann á námi í OSU, sem guðlega handleiðslu, þar sem það opnaði möguleikann á námi mínu í Trinity. Túlkun sem byggir að sjálfsögðu á sveigjanleika okkar hjóna og því að við þykjumst tilbúin til að takast á við mistök í túlkunum okkar á aðstæðum.

“Label”-inn guðleg handleiðsla á námsákvörðunina kallar fram einhvers konar fullvissu um að það sem við erum að gera sé rétt, eða kannski öllu fremur gott fyrir okkur sem einstaklinga. Þannig er námið í einhverjum skilningi blessun, gjöf Guðs til mín. Á þennan hátt þarf ég ekki að óttast hvað tekur við, eftir tvö ár, tíu ár eða tuttugu. Við lifum nú í guðlegri handleiðslu og gerum það sem við teljum okkur ætlað, hvað síðar verður, verður síðar. Spurning um guðlega handleiðslu kallar auðvitað jafnframt fram spurningar sem á stundum eru erfiðar. Þegar ég til dæmis er að kenna, hvort sem er í Vatnaskógi, eða nú í Christ Lutheran, hvarflar hugur minn til þess hvað hefði gerst ef umsóknin mín í KHÍ hefði skilað sér þangað 1993, ég veit að meðmælabréfin gerðu það. Var það líka guðleg handleiðsla, eða er handleiðslu hugmyndin einvörðungu “naiv” leið til að “cope-a” þá staðreynd að umsóknin gufaði upp. Ég er nefnilega frábær kennari, ég veit það (en af einhverjum ástæðum er samt erfitt að skrifa það hér, þökk sé m.a. annars Ole og Bjarna). Í einhverjum skilningi eru svona pælingar gagnslausar, kalla fram sorg og “frustrationir”, en um leið eru þeir nauðsynlegur hluti af námi guðfræðinga frá sjónarhorni Lúthersku kirkjunnar í BNA, enda ekki vænlegt að hafa starfsfólk á sviði samskipta með mikið af óleystum tilvistarspurningum.

Í tæp 20 ár hefur það mótað líf mitt að vera næstum því, en samt ekki alveg. Það var staðfest á skrifstofu skólastjórans í gagnfræðaskólanum mínum, líklega í apríl-maí 1988. Þessi glíma heldur áfram, ég myndi segja ef ég væri að skrifa fræðsluefni, að svarið við sjálfsmyndarvandanum sé að ég sé einmitt alveg – alveg. Alveg ég sjálfur og alveg dýrmæt sköpun Guðs. Ef ég væri nemandi hjá sjálfum mér, að hlusta á kennsluefnið myndi ég líklega ekki heyra orðin, en hugsa um “fríking” jöfnurnar tvær, með tveimur óþekktum sem ég nennti ekki að útbúa á Samræmda prófinu í apríl 1988.

One thought on “99 stig”

Comments are closed.