Þau voru búin að vera par í 3-4 ár, keyptu sér hús í byrjun árs 2005. Gerðu það upp, settu barborð í stofuna á móti arninum, endurgerðu timbrið í kringum hurðir, settu nýja útidyrahurð, nýtt teppi í stofuna. Einbýlishúsið þeirra í hverfinu þar sem hann ólst upp var geggjað. Reyndar ekki sundlaug í garðinum eins og hjá nágrannanum, en samt. Þrjú svefnherbergi, einfaldur bílskúr, flott sjónvarp.
Hún var í spilavíti á laugardagskvöldi, 6 mánuðum eftir kaupin og sá þar veðurfréttir. Hún hringdi í kærastann og sagði honum að byrja að pakka, hún væri á leiðinni heim. Þegar hún kom heim lagði hún Hondunni sinni í bílskúrnum. Þau kláruðu að pakka og fóru að sofa. Daginn eftir las hann dagblaðið í sófanum í stofunni, áður en þau keyrðu á pallbílnum hans í burtu. Planið var að koma til baka á þriðjudag eða miðvikudag.
Á mánudeginum náði vatnið 6 metra hæð, húsið þeirra nýja var líklega um 2 metra undir vatninu. Tveimur vikum seinna gátu þau kíkt á húsið, rafmagnslausi ísskápurinn var ekki spennandi, þegar hann kíkti inn í hann, skúffurnar á kommóðunni voru óopnanlegar. Síðan þá hafa þau ekki farið inn í húsið. Sambandið lifði flóðið ekki af, það sem þau áttu sameiginlegt var ónýtt. Hann hefur síðan haft fjögur heimilisföng og býr í dag í hjólhýsi á lóð þar sem foreldrar hans vona að þau geti byrjað upp á nýtt. Hann hélt vinnunni og tryggingin borgaði upp húsnæðislánið.
Í dag kom hópur til að hreinsa húsið þeirra. Það stendur enn og hann vonast eftir að fá kannski eitthvað fyrir það þegar hreinsun lýkur. Ef enginn hreinsun á sér stað verður húsið tekið yfir af yfirvöldum og jafnað við jörðu, reikningurinn sendur til eiganda.
PlayStation 2, DVD-diskar, rúm, barglös, bækur, sófar, koddar og eldhúsinnrétting með óopnuðum ísskáp fór allt á ruslahrúguna. Á gólfinu í einu herberginu, mitt á milli einangrunarinnar í loftinu, músaskíts, brota úr gifsvegg, húsgagna og bóka rak einn úr hreinsunarhópnum, einfaldur guðfræðinemi frá Íslandi augun í ljósmynd í ramma. Hann tók myndina upp, einu myndina í húsinu sem ekki virtist máð og skemmd. Á myndinni var mynd af parinu sem hafði búið í húsinu, tekin nokkrum árum áður í sædýrasafninu í New Orleans. Efst á myndinni stóð “Look what is underwater”.
Saklausi guðfræðineminn horfði á myndina, lagði frá sér skófluna sem hann hafði haldið á og gekk út. Shit!
Þetta er mögnuð frásögn.