Hann kom (og fór)

Hún er hvít, miðaldra lögfræðingur í góðu starfi. Hún slapp úr húsinu sínu, á sundi, vatn upp í handarkrika. Vegna sjúkdóms gat hún ekki keyrt burtu. Á laugardeginum þegar hún áttaði sig á umfangi veðursins, byrjaði að hringja í kunningja til að snapa sér far. Það tókst ekki. Hún hélt til heima hjá sér en áttaði sig á því á þriðjudagsmorgni snemma, deginum eftir storminn sjálfan, að vatnið var byrjað að hækka ískyggilega. Henni til happs var að þyrluflugmaður sá til hennar, náði henni upp og flaug með hana að bát. Báturinn tók hana að ráðstefnumiðstöðinni í New Orleans. Þar var henni sagt að bíða þar til rúturnar kæmu, þær væru væntanlegar. Hún gekk um miðstöðina með nágranna sínum sem hún reyndar þekkti ekki, hafði einfaldlega verið í bátnum með henni. Þar var enginn lögregla, uppsett og mannlaus rauðakross-hjálparstöð, engir hermenn, engir við stjórn, nema óþekktur hópur fólks sem skipaði öllum í raðir að bíða eftir rútunum sem væru væntanlegar hvað á hverju. Þannig leið þriðjudagurinn, 10.000 manns í röðum, hrætt við að fara inn á myrk klósettinn vegna sögusagna um nauðganir. Miðvikudagurinn reyndist svipaður, raðir til að missa ekki af rútum, piss byrjað að fljóta um gólfin þar sem fólkið svaf, hræðslan óx. Vatn byrjaði að leka niður af efri hæðum, það lyktaði eins og einhver hefði pissað á gólfið uppi. Sumir gátu fundið stóla til að sitja á í röðunum. En enginn þorði að yfirgefa þær, enda rúturnar væntanlegar. Enginn matur, ekkert vatn, enginn skýr skilaboð. Inni, rafmagnsleysi og myrkur, úti 35 stiga hiti, gífurlegur raki og skínandi sól.

Á fimmtudeginum dreif að mikinn fjölda hermanna, þeir stilltu sér upp öxl við öxl, andspænis fólkinu sem beið í röðum eftir rútunum, lyftu upp riflunum sínum og beindu að hópnum. Nokkru síðar flaug Georg W. Bush inn að Ráðstefnumiðstöðinni til að heilsa fólkinu, tala í það kjark. Fólkið fagnaði forsetanum, hann hafði sjálfur komið til að bjarga. En nei, Georg W. Bush, flaug burtu, fólkið var enn í röðunum, hermennirnir yfirgáfu svæðið og fólkið var aftur eitt. Hitinn úti ógurlegur, ekkert vatn, enginn skýr skilaboð. Inni, rafmagnsleysi, piss og myrkur.

Á fimmtudagskvöldinu kom þyrla til bjargar, þeir sem voru verst staddir komust um borð og var flogið burt. Nú voru ekki nema 9990 eftir í Ráðstefnumiðstöðinni. Fólkinu var sagt að raða sér upp fleiri þyrlur væru væntanlegar, en þær komu ekki það kvöld. Ástæðan var sögð að fyrsta þyrlan hefði lent í skotárás. Hvort það er satt, veit enginn.

Á föstudagsmorgni fór fólkið í raðirnar sínar enn á ný, 3 sólarhringar án vatns, sofandi í pissupollum, hrætt við nauðganir og myrkrið, en um leið búið að standa í óbærilegum hita úti við allan þennan tíma að bíða eftir björguninni sem ekki kom. En nú kom björgunin, þyrlur fylltu upp sjóndeildarhringinn og konan sem sagði okkur söguna, komst í þá fyrstu. Var flutt með ofþurrk og hjartaóreglu á sjúkrahús í Texas og náði sér að fullu líkamlega. Andleg líðan er breytt um alla framtíð.

2 thoughts on “Hann kom (og fór)”

  1. Þessi saga er lyginni líkust, afar vel skrifuð og nístir beint að hjarta. Ég reikna með því að þú sleppir ekki óbreyttur úr New Orleans, Elli.

  2. Ég sat í sófanum hér á efri hæðinni í Peace Lutheran í Slidell í gærkvöldi og hlustaði á konuna, það var hrikalegt. Hún sagði að hún hefði orðið hræddust þegar hermennirnir beindu byssunum að hópnum, hvað hefði gerst ef einhver eiturlyfjaneitandinn hefði panikað og byrjað að skjóta á herliðið? Annars sat ég og hlustaði á félagsráðgjafa í morgun, sem m.a. hafa unnið með börnum á svæðinu og ég í fúlustu alvöru fór að hugsa um hvernig hægt væri að merkja Tómas Inga, þannig að hann kæmist til skila ef við týndum honum í hamförum. Já, ég er ekki samur eftir þetta.

Comments are closed.