Ég fór með nokkrum skólafélögum á Jesus Camp í kvöld. Carlos lét ekki sjá sig enda lítt að treysta á hann (hugsanlega spoiler en þetta er heimildamynd svo…).
Myndin fjallar um þrjá unga krakka sem eru virk í Evangelical – kirkjum í BNA með foreldrum sínum. Einnig er fjallað um sumarbúðastjóra kristilegra sumarbúða. Þá er útvarpsmaður notaður sem mótvægi og óbein gagnrýni á það sem fram fer. Alla vega tvö barnanna eru í heimaskóla.
Myndin er umfram allt heiðarleg. Auðvitað eru klippingar notaðar til að ná fram ákveðnum áhrifum, en þær virðast rýma við það sem sumarbúðastjóranum finnst eðlilegt og gefa eðlilega framvindu í frásögunni. Börnin þrjú sem eru miðpunktur sögunnar eru mjög blátt áfram, virðast skynsöm og frambærileg á allan hátt. Samtöl við þau og þeirra á milli eru eðlileg og skemmtileg. Það sama má segja um sumarbúðastjórann, köllun hennar virðist einlæg, hún er kappsfull og virðist vakandi fyrir því hvernig hún getur náð til barnanna á grípandi hátt. Velferð barnanna virðist hennar meginmarkmið. Útvarpsmaðurinn er hins vegar óþarfur fyrir framvindu myndarinnar. Hann er því miður eina manneskjan í myndinni sem virðist ekki hafa ástríðu fyrir skoðunum sínum. Hann kom mér fyrir sjónir sem tuðari, sem finnst eitthvað að og bendir á vandamálin í samtölum við já-fólk sem hringir í þáttinn.
Með öðrum orðum vönduð og heiðarleg heimildamynd um ákveðna tegund sumarbúða í Bandaríkjunum þar sem börnin virðast heilbrigð og hamingjusöm, sumarbúðastjórinn hefur hag barnanna fyrir brjósti og fulltrúi gagnrýnenda er leiðinlegur.
En þetta er reyndar ekki allt sem hægt er að segja. Myndin lýsir nefnilega veruleika sem vekur upp óhug vegna efnisins. Þannig er óhugnanlega að vita til þess að fjölmörg börn í BNA ganga ekki í skóla, heldur læra námsefni hjá foreldrum sínum sem er ekki einasta takmarkað heldur á köflum einfaldlega rangt. Það er auk þess gert í nafni trúfrelsis. Annað sem vakti hjá mér óhug er trú fólksins á nauðsyn þess að BNA víki frá villu síns vegar og verði Guðveldi. Það að til sé sérstakur fáni Guðveldisins, var reyndar eitthvað sem ég hafði heyrt, en ekki séð fyrr en í kvöld.
Þriðji þátturinn sem mig langar að nefna er hvernig spilað er á tilfinningar barnanna til að koma fræðslu/áróðri til skila. Aftur og aftur fékk ég sting í magann þegar börnin voru sett í aðstæður þar sem þau brotnuðu saman og voru látin þylja upp áróðurinn sem þeim var kennt. Eins var spilað harkalega á sektarkennd þeirra og þau hvött á mjög óhugnanlegan hátt að gera upp fortíð sína. Þessi leið til framsetningar á sannleika er auðvelt að kalla heilaþvott. Um leið er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að þessi áhersla á tilfinningalega upplifun er mjög sterk og þykir eðlileg í því trúarumhverfi sem börnin eru úr. Þannig að velta má fyrir sér hvort að upplifun barnanna sé jafn djúp og sterk og hún virkaði á mig.
Það sem var hins vegar erfiðast var að sjá hvað börnunum var kennt. Um leið er ljóst að þar spila skoðanir mínar auðvitað sterkast inn í. Hugmyndir um Guðveldi og mikilvægi baráttunnar fyrir því, sköpunartrú, fóstureyðingar, bann við Harry Potter og fleira í þeim dúr í nafni Krists ollu pirringi í huga mínum.
Þegar allt kemur til alls er það þó einlægnin, heiðarleikinn og það hversu börnin voru frambærileg sem situr eftir. Jafnframt verð ég að taka undir með sumarbúðastjóranum þegar hún bendir á að uppeldi í hlutleysi er ekki mögulegt. Gildismat barna mótast hvort sem það er gert meðvitað eður ei. Eða svo ég vitni í ágætan samnemanda minn: “My child is Brown fan”. Ég er ekki hrifinn af aðferðunum eða skoðununum, svo sannarlega ekki. En …
sic transit gloria mundi