Kaos

Ritskýring B.S. Childs á Exodus frásögunni talar um nýja sköpun Ísraels þjóðarinnar og tengir á áhugaverðan hátt P heimildina í Genesis 1 við frásögnina af því sem við köllum að öllu jöfnu för Ísraelsmanna yfir Rauða hafið. Hann horfir til þess að sköpunin í Genesis 1 hefst á því að Guð svífur yfir vötnunum og sköpunin felst á að koma skikki á vötnin sem standa í textanum fyrir óreiðu (kaos). Á sama hátt sýnir opnun “Rauða hafsins” að Guð ræður óreiðunni, jafnvel kaos vatnsins er honum undirgefið.

Hugur minn leitaði hér, alltaf gaman að missa sig í ritgerðarskrifum, upp á Kárahnjúka. Eru Kárahnjúkar nokkuð annað en áframhaldandi sköpunarverk Guðs, ætlað að koma höndum yfir kaosið, óreiðuna og ná stjórn á vötnunum líkt og Guð gerir í sköpun sinni. Erum við með Kárahnjúkavirkjun að hlýða hugmyndum Guðs og fylgja þeim vilja hans að taka á óreiðunni. Eða er Kárahnjúkavirkjun e.t.v. okkar Babylons-turn (Babel – Babylon). Tilraun til að misnota okkur verk Guðs líkt og Faraó og menn hans og á endanum verðum við flóðinu að bráð.