Vantrú.is skv kenningum um jaðarhópa

Fyrr í vor sat ég mjög áhugaverðan fyrirlestur Dr. R. Scott Appleby um samspil trúar og ofbeldis, en þar fjallaði Dr. Appleby um nokkur lykileinkenni bókstafshreyfinga í sjö ólíkum trúarhreyfingum. Dr. Appleby varaði reyndar við bókstafshugtakinu og taldi það henta illa vegna mismunandi eðlis trúarrita í trúarhópunum og væri nær að tala um jaðar- eða öfgahópa. Þar sem öfgar er gildishlaðið og neikvætt orð á íslenku, mun ég hér notast við jaðarhópa.

Meðan á fyrirlestrinum stóð upplifði ég samsvaranir með lykileinkennum þessarra hópa og flestra trúarhópa á Íslandi, jafnt þjóðkirkjunnar sem og Krossins. Vissulega kom Frelsið – Kristið samfélag fyrst í hugann en síðan reikaði hugurinn til Vantrúarhópsins, þó vissulega sé þar ekki um trúarhóp að ræða í þrengsta skilningi þess orðs.

Í kjölfar ummæla á netinu um ofbeldi og trúleysingja þar sem ég vísaði til þessarar tilfinningar minnar um samsvörun jaðartrúarhópa annars vegar og Vantrúar hins vegar bað Hjalti Rúnar Ómarsson stjórnarmaður í Vantrú að útskýra mál mitt nánar. Hér í þessari færslu mun ég leitast við að skoða Vantrú út frá fimm lykileinkennum jaðartrúarhópa.

Viðbrögð við breytingum
Fyrsta einkenni jaðartrúarhreyfinga er að þeir eru að bregðast við (re-active). Innan trúarbragðanna er það hættan við heimshyggjuna, tilraunir til að gera Guð/guð/guði útlæga úr heiminum. Við fyrstu sín virðist Vantrúarhópurinn ekki falla undir slíka skilgreiningu. Hins vegar má víða sjá í skrifum hópsins þessa nálgun. Við sjáum í skrifum Matthíasar Ásgeirssonar mjög sterk viðbrögð við því sem hann telur aukna sókn kirkjunnar á vettvang opinberar menntunar. Umfjöllun um kristnifræði í skólum og þær meintu hættur sem af henni stafa er skýrt dæmi um hvernig hópurinn telur sig vera að bregðast við árásum kirkjunnar. Vísa þeir í stefnumótun kirkjunnar máli sínu til stuðnings, en þar er einmitt fjallað um aukið samráð kirkju og skóla.

Þeir líta einnig svo á að þeir séu í baráttu við vísvitandi blekkingar presta og guðfræðinga til að viðhalda ónýtu kerfi sem helst sé til þess fundið að vernda og viðhalda völdum kirkjunnar og hafa sem mest fé úr illa upplýstum lýðnum.

Í umfjöllun Dr. Appleby kemur fram að gagnrýnin beinist oft hvað harðast að þeim sem tilheyra sömu trúarbrögðum og eru til í að “gefa eftir”. Hægt er að benda í þessu sambandi á mjög harðvítugar deilur Vantrúarsinna og Steindórs J. Erlingssonar í þessu ljósi, en Steindóri varð það “ᔠað taka þátt í samræðum við kirkjuna, en í kjölfarið fékk hann yfir sig holskeflu árása þar sem sjúkdómur Steindórs var dreginn inn í samtalið á óheppilegan hátt. (samskipti Steindórs og Vantrúarsinna [1], [2] og [3])

Í viðbrögðum sínum má auk þess sjá mjög sterka kröfu um afstöðu, annað hvort ertu með eða á móti. En slík einkenni eru einmitt mjög áberandi í trúfélögum.

Valkvæðni (e. Selective)
Annað einkenni hreyfinganna í rannsókninni er valkvæðni. Þannig eru framfarir mikilvægar og nauðsynlegt að horfa til sögunnar, en um leið er einblínt á þær framfarir og þá fortíð sem styrkir málstað hópsins. Fjölmörg dæmi má sjá um þetta á Vantrú.is. Þannig er litið á skrif Lúthers sem einhverja aðalforsendu gyðingahaturs í Þýskalandi, en þætti Nietzsche og Ofurmennishugsunar hans er því sem næst hafnað. Á sama tíma og trúarbrögð eru talin forsenda flestra ofbeldisverka mannkynssögunnar er ekkert fjallað um guðlaus ríki eins og Austur-Þýskaland, Sovétríkin eða Frakkland í kjölfar frönsku byltingarinnar. Gagnrýni á guðleysi kommúnismans er svarað með því að það hafi ekki verið sama guðleysi og Vantrúarsinnar aðhyllist (http://www.vantru.is/2004/08/16/14.30/) og einblínt á friðarboðskap frjálslyndra trúlausra kennimenn á 20. öld. (sjá t.d. http://www.vantru.is/2006/05/05/07.45/)

Til að rökstyðja gagnsleysi kirkjunnar er einblínt á hörmungar í sögu hennar, s.s. Krossferðir, rannsóknarréttinn og bann páfa við fóstureyðingum, en jákvæðum þáttum s.s. réttindabaráttu svartra í BNA eða baráttuna gegn þrælahaldi í sama landi eru ekki gerð skil eða fjallað um þá á hæðin hátt.

[Málsgrein eytt þar sem Matthías Ásgeirsson heldur því fram að ég snúi út úr orðum hans, sem er alls ekki ætlun mín.]

Fleiri þætti mætti nefna sem dæmi um valkvæða nálgun hópsins, s.s. höfnun þeirra fræðigreina sem henta ekki málflutningi þeirra (http://www.vantru.is/2004/02/11/16.15/).

Algildur sannleikur (Absolutismi)
Í fyrstu taldi ég að þetta væri sá þáttur sem erfiðast væri að tengja hugmyndum Vantrúarsinna. En í fyrstu færslunni sem ég las á vantru.is eftir að ég hóf að skrifa þessa úttekt stóð.

Komm onn, gott fólk. Skynsemi okkar segir okkur að sumir hlutir séu einfaldlega rangir, annað hvort upplognir eða byggðir á fáfræði og misskilningi á því hvernig heimurinn virkar. Þessi sama skynsemi á að geta sagt okkur að sumir sannleikar séu sannir og aðrir ekki. Við þurfum bara að skoða staðreyndir málsins, þær sannanir og þau rök sem fyrir liggja. Og það púslast svo saman í eitthvað sem hægt er að kalla raunveruleika. Og hann er aðeins einn. http://www.vantru.is/2006/04/20/08.00/

Önnur einkenni hins algilda sannleika er að allan trúartexta beri að bókstaflega, nálganir, metafórur eða líkingamál eru ögranir við kenningar. Þetta einkenni vantrúarsinna má sjá í fjöldanum öllum af færslum og ummælum jafnt á þeirra eigin síðu og á annálum. Þannig má nefna að túlkandi guðfræði er að öllu jöfnu hafnað sem grænsápuguðfræði.

Þá ber að skilja ofbeldishugtakið sem líkamlega árás, en það að uppnefna, niðurlægja eða hóta barsmíðum er ekki skilið sem ofbeldi.

Dualismi
Segja má að tvíhyggja sé kannski minnst áberandi þátturinn í starfi Vantrúar. Þó sjáum við sterka tilhneigingu til að greina heiminn í tvennt hvað varðar þá upplýstu og þá sem enn ganga villur vegar. Þá sem enn trúa og hina sem eru lausir undan viðjum trúarbragða. Aðgreiningu manneskjunnar í sál og líkama er hins vegar algjörlega hafnað. Leslie Griffin hefur bent á að dualisminn í öfgahópum birtist oft í sterkum hugmyndum um feðraveldið. Við fyrstu sín gætu slíkar hugmyndir virst til staðar hjá Vantrúarmönnum sér í lagi þegar litið er til samsetningar hópsins sem stendur að baki vantru.is. Þegar hins vegar betur er að gáð virðist jafnréttið standa þar sterkari fótum en víða annars staðar.

Baráttan

Helsta markmið félagsins er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu.

Vantrúarsinnar eru í stríði við fáfræði og sinnuleysi. Þeirra barátta er m.a. við hina illu kirkju sem reynir í krafti sterkrar fjárhagsstöðu og með vísun til menningararfs að hneppa saklaust fólk í fjötra hjátrúar og hindurvitna. Þeir líta á sig sem útverði skynseminnar sbr. orð Birgis Baldurssonar:

Gegn þessum samtökum öllum teflum við fram skynseminni og gagnrýninni hugsun í þeirri von að ná eyrum einhverra hugsanaþræla.

Lokaorð
Ljóst er að mörg einkenni jaðartrúarhreyfinga eiga við um starfsemi og stefnu vantrú.is. Hins vegar felst skýrasti munurinn í höfnun þeirra á hefðbundinni platónskri tvíhyggju, þó því sé reyndar ekki svarað hér hvort annars konar tvíhyggja sé undirbyggð í boðun þeirra. Hér er mikilvægt að nefna að einstakar skoðanir á vantrú.is sem eru nefndar hér að ofan eiga ekki endilega við alla einstaklinganna sem tilheyra hreyfingunni.

Óhætt er að segja að ofangreind einkenni vantrú.is geri það að “cult” samkvæmt almennum skilgreiningum félagsfræðinnar. Hins vegar er ólíklegt að hópurinn falli undir að vera jaðarhópur sem er líklegur til ofbeldis skv. rannsókn dr. R. Scott Appleby og dr. Martin E. Marty og spurning hvort skýr platónsk tvíhyggja sé ekki nauðsynleg til að hægt sé að greina á milli þess sem má beita ofbeldi og þess sem má ekki meiða.

(Skrifað sem æfing í notkun á rannsóknum til að glíma við raunveruleg verkefni.)

36 thoughts on “Vantrú.is skv kenningum um jaðarhópa”

  1. Þar sem ummælin sem hingað til hafa ratað við þessa færslu fjalla ekki um efni hennar, þá hef ég ákveðið að færa umræðuna um gæði færslunnar og árshátíð Vantrúar hingað.

  2. Athyglisverð lokaorð (og reyndar færsla), Elli. Er ekki nóg að hópur aðhyllist sterka “við – þeir” tvíhyggju til þess að hópur verði jaðarhópur? Og talandi um platónska tvíhyggju, var hún ekki á tímabili hluti af kristnum rétttrúnaði, án þess þó að kristnin varð að jaðarhópi? Ein spurning, hvernig geta niðurlægingar, uppnefningar og hótanir ekki verið ofbeldi? Andlegt ofbeldi (mobbing) einkennist af slíku og er eitt af einkennum þess að fólk er hrætt við að yfirgefa jaðarhópa.

  3. Platónsk tvíhyggja er mjög sterkur þáttur í kristindóminum hér í BNA og ljóst að fjölmargir kristnir hópar hérna falla undir þessa greiningu þeirra félaga. Á sama hátt má sjá sterk einkenni svona hópa hjá ýmsum innan þjóðkirkjunnar, sem mætti þó telja “main-stream”.

  4. Vegna fullyrðingar um að ég hafi snúið út úr orðum á vefsíðunni orvitinn.com, hef ég eytt þeirri málsgrein úr ofangreindri færslu, enda hefur hún ekki áhrif á innihald færslunnar svo neinu nemi.

  5. Dálítið ruglingsleg notkun þín á orðinu “jaðarhópur” sem “cult”, og átta mig ekki á því hvaðan skilgreining orðsins “ofbeldi” kemur né í hvaða tilgangi það er skilgreint eins og það er. hér væri gott að fá samanburð við önnur félög til þess að dýpka skilning á einstaka liðum. Ég hugsa að þarna sé upphaf prýðilegrar úttektar á því hvernig fólk flykkist saman um hugmyndir, hvort heldur sem það gengur jaðarhópi á hönd eða ekki. Ég held þar að auki, að til þess að greina hvort félagið Vantrú sé jaðarhópur eða ekki þurfi að skoða meira en vefurinn og umræðuhorn hans. Það stafar af því að viðmót félaganna “maður á mann” er líkast til annað en það sem látið er á “prent”. M.ö.o. þyrfti rannsakandi að gerast meðlimur, sækja fundi um stund (e-r ár) til þess að vinna vandaða rannsókn.

  6. Það er rétt að hugtakanotkunin er ekki of markviss. Þegar ég tala um jaðarhóp í textanum er ég að vísa til fundamental-hugtaksins en ekki cult. “Niðurstaðan” er hins vegar sú að óvíst sé hvort rétt sé að nota fundamental (jaðarhóps) hugtakið um Vantrú, en þó sé ljóst að það sé cult. En cult hugtakið hafði ekki komið fyrir áður í greininni og er ekki skilgreint þar.

  7. Varðandi ofbeldishugtakið þá er sú klausa á vitlausum stað í textanum. Það átti að hafna í valkvæðna hluta textans sem dæmi um hvernig hópurinn skilgreinir hugtök eftir hentugleika. Þessi skilningur minn á því hvernig þeir túlka ofbeldishugtakið sprettur úr samræðu um herskáa trúleysingja. En þar höfnuðu þeir alfarið notkun ofbeldis og virtust skilja hugtakið einvörðungu í tengslum við líkamlegt ofbeldi.

  8. Matthías Ásgeirsson hefur bent á að ofangreindur texti sé illa unnin og rangt farið með staðreyndir. Ætla má að á næstu dögum verði birt leiðrétting á því sem rangt er farið með á Vantrú.is eða á Örvitinn.com. Þegar sú leiðrétting kemur verður að sjálfsögðu vísað til hennar hér við þessa færslu.

  9. Ég held að þetta sé fínt upphaf að birtingarhæfri grein, Elli og vil bara hvetja þig að hugsa áfram um hana.

  10. Elli, kannastu við rannsókn sem kirkjan lét gera á trúarviðhorfum þjóðarinnar, þar sem fram kemur að konur trúa frekar á hindurvitni en karlar? Svo sýnist mér þú vera alveg að tapa þér í þessari áráttu þinni að heimfæra allt sem við segjum upp á þennan jaðarhópsstaðal þinn. Í raun eru þessar aðferðir þínar ákaflega guðfræðilegar, þú gefur þér niðurstöðuna fyrirfram og reynir svo að láta allt sem við segjum ríma við hana. Mundu: Guðfræðin er gervivísindi, ekki síst vegna þessara undarlegu vinnuaðferða.

  11. Það er reyndar mikilsverður hluti hinnar vísindalegu aðferðar í öllum fræðigreinum að koma með tilgátu og prófa hana, hafna því sem stenst ekki en vinna áfram með þær tilgátur sem standast prófið. En ég viðurkenni fúslega að ég lagði upp með þá tilgátu að vantrú.is félli undir greiningarlykilinn sem ég vann með. Hins vegar tel ég í færslunni að svo sé ekki. Vantrúarmenn aðhyllist ekki tvíhyggju. Hvort sú niðurstaða sé rétt eða röng þarf ég líklega að endurskoða.

  12. Ég er í athugasemd minni hér að ofan að vísa í þessi tvö dæmi sem þú tiltekur þar fyrir ofan, „eðli kvenna“ og algildan sannleika. Það sem þú vísar í eru glæný skrif mín og nokkuð augljóst að þú hefur lesið þau með þeim gleraugum að fella að fyrirframgefinni niðurstöðu þinni. En það hvort Vantrú geti flokkast undir jaðarhóp eða költ verður tekið fyrir í grein á vefnum okkar. Farið ekki langt, hún er rétt handan við hornið. 🙂

  13. Ég er nýbúin að birta færslu þar sem ég nota ákveðin greiningarlykil til að skoða vantrú.is. Ég fæ mjög harkalega gagnrýni á mig þar sem órökstutt er fullyrt að ég greini texta ykkar rangt. Í kjölfarið birtast tvenns konar textar frá Birgi sem augljóslega geta fallið undir þær skilgreiningar sem greina jaðarhópa. Þurfa þó ekki að gera það nema í samhengi við annað sem frá hópnum hefur komið. En ég hlakka til að sjá rökstudd viðbrögð ykkar og mun ekki hika við að biðjast afsökunar á því sem ég fer rangt með í ofangreindri grein, þegar og ef það verður leitt í ljós. Það vekur hins vegar athygli mína að bæði þú, Birgir, og Matti hafið notað tækifærið hér á annálum til að beina athyglinni frá inntaki greinarinnar og að aðferðafræði hennar annars vegar og því að hún sé illa skrifuð. Ég hélt að þið höfnuðuð slíkri aðferðafræði og kölluðuð hana “red herring”.

  14. Inntak greinarinnar verður tekið fyrir í grein. Ég ákvað að gera athugasemd við komment frá þér undir greininni þar sem mín eigin skrif eru notuð til að styðja mál þitt, einmitt vegna þess að það kemur innihaldi greinarinnar ekki við. Ég kaus að gera það frekar en að fella þá gagnrýni inn í greinina sjálfa sem birt verður á Vantrú innan skamms, enda myndi það dreifa fókusi þeirrar greinar frá innihaldi greiningar þinnar.

  15. Sæll Halldór E. Ég rak augun í meinlega villu í grein þinni hér að ofan. Setningin: “…þætti Nietzsche og Ofurmennishugsunar hans er því sem næst hafnað” gefur til kynna að ofurmenniskenning NIetzsches eigi eitthvað skylt við Nasisma. Það er af og frá að ofurmennsikennigar N eigi hið minnsta skilt við nasisma. Ég fullyrði að EKKERT í ofurmennispælingu Nietzsches geti átt við nasisma. Til þess er Nietzsch allt of mikill einstaklingshyggjumaður. hann hafði djúpa og einlæga skömm á hjarðmennsku, hvort sem er trúarbragðanna eða stjórnmálahreyfinga. Nú vill svo til að ég er að lesa Handan góðs og ills og er nýbúinn að lesa ofurmenniskenninguna. Hún gengur út á að ofurmennið er maður sem getur litið til baka á líf sitt og sagt og meint það, ég myndi gera allt aftur nákvæmlega eins og ég gerði. þarna er átt við siðferðielegt ofurmenni, ekki arískan drápara. Það sætir furðu að þú skulir láta svona fráleit viðhorf frá þér. v

  16. Þakka þér athugasemd þína Teitur. Vissulega var Nietsche ekki sjálfur gyðingahatari og sá fyrir sér ofurmennið sem góðan. Þannig hefði verið réttara að segja þætti ofurmennishugmyndar Nietsche. Það er ljóst að Hitler leitaði sér fyrirmyndar í ofurmennishugmyndinni, sem Nietsche kynnti til sögunnar og taldi sig hafin yfir skilgreiningar góðs og ills með vísan til hennar. Sú staðreynd að hann túlkaði hugmyndina á annan hátt en Nietsche sá fyrir er hins vegar annað mál.

  17. Í Mein Kampf notast Hitler við Ofurmennishugtak Nietzsche. Í raun má líta svo á að umfjöllun um gyðingana í Mein Kampf sé í raun andsvar Hitlers við þönkum Nietzsche í Handan góðs og ills um stöðu gyðinga. Nietzsche bendir enda á að þýska þjóðin sé mettuð af gyðingum og veltir upp hvort að rétta leiðin sé að stöðva gyðinga frá því að flytjast til landsins. Hann bendir líka á að vegna móralskra yfirburða gyðinga muni þeir ná völdum fyrir rest. Þannig verður notkun Hitlers á þrælahugtakinu í Mein Kampf og hræðsla hans við gyðingana mun skýrari þegar við lesum það í samhengi við rit Nietzsche Handan góðs og ills. Hitler misnotaði vissulega orð og hugmyndir úr heimi Nietzsche en það er fráleitt að hafna þessum tengslum og einblína í sífellu á 16. aldar skrif uppgjafarmunks til að útskýra gyðingaofsóknir.

  18. LEIÐRÉTTING: Réttara er að segja að Nietzsche haldi því fram að gyðingar geti náð völdum í Evrópu ef þeir sjálfir kysu, fremur en að þeir muni ná völdum. Rétt er að taka skýrt fram að Nietzsche hafnar hugmyndinni um að stöðva gyðinga frá því að flytja inn í landið, þó hann bendi á hana.

  19. Renndi í gegnum Mein Kampf með textaleit og fann ekki eina vísun í Nietzsche. Mig minnir nefnilega að Hitler hafi verið illa við Nietzsche. En að sjálfssögðu var þessum punkti þínum svarað í greininni. Það þarf að mistúlka Nietzsche til að sjá út gyðingahatur þar en Lúther segir bókstaflega að það eigi að ofsækja gyðinga. Það er augljóslega stórkostlegur munur. Ábyrgð þess rangtúlkaða er engin en ábyrgð hins rétttúlkaða er mikil.

  20. Textar Nietzsche rangtúlkaðir eða ekki, áttu þónokkurn þátt í mótun hugarheims nasismans. Þessum tengslum eru ekki gerð skil, en einblínt á Lúther. Það er valkvæðni.

  21. Jæja, þú virðist hafa lesið eitthvað vitlaust því að í grein 251 (blaðsíðutöl eru mismunandi en greinanúmerinn halda sér) í Handan góðs og ills talar Nietzsche um þá sem vilja stöðva innflutning gyðinga. Hann talar líka um gyðingahatara sem segja að landið sé fyllast af gyðingum. Eina ástæðan fyrir því að hann “bendir” yfirhöfuð á þessar hugmyndir er til þess að tala gegn þeim. Hann tala líka lofssamlega um Ítala, Englendinga og Frakka fyrir að hleypa fleiri gyðingum í lönd sín en Þjóðverjar gera. Ég spyr enn um dæmi um þar sem kenningar Nietzsche hafi haft áhrif á gyðingaofsóknir Nasista, þú nefnir Mein Kampf en þar virðist hvergi vera minnst á Nietzsche. Annars þá hlýt ég að spyrja hvort að Bítlarnir séu ekki ábyrgir fyrir fjöldamorðum Charles Manson. Það er allavega ljóst að lagið Helter Skelter hafði áhrif á nöttarann. Ég endurtek annars muninn á Nietzsche og Lúther: Lúther hvatti til harkalegra gyðingaofsókna, Nietzsche talaði harkalega gegn gyðingahöturum.

  22. Ég viðurkenni að vera má að ég hafi eitthvað misskilið Nietzsche, e.t.v. eru kenningar hans um ofurmennið (hugtak sem Hitler notar í Mein Kampf) algjörlega ótengdar hugtakinu sem Hitler kýs að nota. E.t.v. eru kynþáttahugmyndir Nietzsche alls óskildar kynþáttahugmyndum Hitlers. Þá biðst ég afsökunar á að hafa gefið annað í skin.

  23. Hvaða Nietzsche-dýrkun er þetta í gangi eiginlega? Hugmynd Nietzsche um að yfirmennið (sem reyndar er fengin frá Lúter) gengur út á það að Der Ubermensch skapi sjálfur sinn móral, er óháður smáborgara- og þrælamóral Vesturlanda og kristni. Hann er sér sjálfur Guð enda eru hugmyndir Nietzsche fyrst og fremst heiðnar. Þetta leiddi síðan til afstæðishyggju og móralleysis nazista með öllum þeim ósköpum sem því fylgdi. Einstaklingshyggja Nietzsches skiftir ekki máli hér, ekki frekar en einstaklingshyggja existentíalistanna, sem Nietzsche er einn helsti áhrifavaldurinn á, og sem fylgdu flestir nastistum að málum (Heidegger o.fl.). Vinsældir Nietzsche í dag skýrast einmitt af áhrifum póstmodernismans sem er hreinræktuð afstæðishyggja. Ég leyfi mér að fullyrða að stríðshugsun nútímans (USA) felist í þessu sama, sá sterki skapar móralinn sjálfur og leyfir sér því hvað sem er.

  24. Halldór, ég bendi þér á að lesa inngang Athúrs Björgins Bollasonar að “Handan góðs og ills” (HIB 1994). Þar segir m.a.: “Það hugtak [ofurmennið] á ekkert skylt við lítilmótlega og menningarsnauða forsprakka Þriðja ríkisins. Nietzsche, sem þreyttist seint á að lýsa andúð sinni á kynþáttafordómum og Gyðingarhatri, hefði átt lítið aflögu fyrir slíka afturkreistinga. Þó reyndu böðlar nasismans forðum daga að eigna sér þennan skarpa og róttæka hugsuð. Því fer hins vegar víðs fjarri að hugsun Nietzsches og menningarrýni hafi átt nokkuð skylt við þá vitfirringu sem kostaði milljónir saklausra manna og kvenna lífið” (bls. 53-54)

  25. Lúter talaði um Gottes wunderleute (annað hugtak er vir heroicus), Nietzsche talaði um Uebermensch, sem eru nátengd hugtök. Þetta undrafólk var frjálst gagnvart lögum og rétti samfélagsins og persónugervingur Guðs á jörðu. Þörf sé á slíkum fyrirbærum því almenningur beri ekki skynbragð á hinn náttúrulega rétt. Kalla má þetta einhvers konar aðstæðnasiðferði en ég kalla það siðræna afstæðishyggju. Verknaður fer eftir aðstæðum en ekki eftir einhverjum föstum mælikvarða. Maðurinn gerir það sem aðstæður krefjast hverju sinni. Dæmi: Bush gerir innrás í Írak, þrátt fyrir að það séu brot á öllum alþjóðlegum lögum og reglum, og réttlætir það með því að aðstæður krefjist þess, þ.e. baráttan gegn “terrorisma”. Enda hefur Lúter oft verið kallaður faðir nasismans, rétt eins og Nietzsche. Hér er það geðþóttinn sem ræður sem er “heiðni” í sinni verstu mynd.

  26. Vil bæta við þessa umræðu að mig minnir að systir Nietzches gerðist liðgeng nasistum, og sem “literary executor” hafi hún snúið mikið af skrifum hans á þann veg að þau renndu stoðum undir hugmyndafræði nasista.

Comments are closed.