Hvenær er minn tími kominn?
Þegar ég les um brúðkaupið í Kana er tvennt sem togast á í huga mér. Mikilvægi þess að þekkja tíma sinn og stöðu, vita hvenær á að bregðast við og hvenær ekki.
Í leiðtogafræðunum sem ég hef stúderað undanfarin ár er talað um “over- and underfunctioning.” Þar er annar hópurinn (over-functioning) skipaður þeim sem hafa tilhneigingu til að bregðast við og redda því sem gæti klikkað og hinn hópurinn (under-functioning) er skipaður þeim sem hafa tilhneigingu til að láta hlutina reddast, oftast á þann hátt að “over-functioning” einstaklingur stígur inn og leysir vandamálið.
Það er erfitt að sjá að vínskorturinn hafi verið vandamál Jesús eða Maríu, en það er samt ekki útilokað að María hafi haft eitthvert hlutverk, þetta gæti hafa verið brúðkaup einhvers barna hennar. Það er samt fátt eða öllu heldur ekkert sem bendir til Jesús í því sambandi, eins og einhverjir “framsæknir” fræðimenn hafa talið.
Það er skrítið að sjá “gelgjulegt” svar Jesú. Hann virðist ekki líta á þetta sem sitt vandamál, þó hann láti tilleiðast að redda því. En eitt er samt augljóst. Víndrykkja er ekki vandamál í kreðsunum sem Jesús hangir í, meira að segja er ofdrykkja ekki tiltökumál ef um gott partý er að ræða.
—
Ef Jesús kom ekki til að boða skaðsemi víndrykkju eins og sumir kristnir virðast ranglega halda að hafi verið eitt af hans helstu verkefnum, hvað þá?
Seinni hluti 2. kaflans er ekki að fela það. Jesús ræðst fyrst og fremst að sjálfhverfum trúarstofnunum sem telja sig eiga sannleikann og hafa sett á hann einhvers konar verðmiða. Hvort sem verðið felst í að kaupa fórnardúfur hjá sérvöldum víxlururm í Musterinu, eða í því að taka upp ákveðin lífsstíl, hlusta á ákveðna tónlist eða sneiða hjá ákveðnum drykkjum.
—
Stefnan er ljós, Jesús er ekki á svæðinu til að þóknast yfirvöldum, hvorki veraldlegum né trúarlegum skv. Jóhannesi. Hann er ekki á svæðinu til að setja einstaklingum íþyngjandi reglur, heldur að benda á kerfislægt ofbeldi og kúgun yfirvalda, sér í lagi í nafni trúar og hann kallar okkur hvert og eitt til að berjast gegn illsku kerfisins.
Jahá, það er ekkert athugavert við ofbeldisverk Jesú í þessum kafla af því að gyðingdómur var svo ljót trúarbrögð.
En þetta er amk áhugaverðara heldur en Rutarbók 😛
Það er greinilega mikilvægt að það komi fram að ég tel gyðingdóm á engan hátt ljót trúarbrögð, ef einhver skyldi ætla það af skrifum Hjalta.
Halldór, það sem ég á við er að þú virðist telja ofbeldi Jesú gegn trúariðkun gyðinga vera réttlætanlega vegna þess hversu ljót (eða röng, eða “sjálfhverf” eða hvað sem þú vilt kalla þetta þér fannst hún vera.
Í fyrsta lagi þá er í kaflanum ekkert ofbeldi gegn trúariðkun gyðinga. Jesús var gyðingur sjálfur og skv. kaflanum virðist hann einmitt hafa borið mikla virðingu fyrir trúariðkun síns fólks og ekki síst hlutverki musterisins.
Þú ert væntanlega að spyrja mig hvort ég sjái ekkert að því að Jesús hafi rekið víxlarana út úr musterinu og hafi hrint borðum þeirra. Svarið við þeirri spurningu er nei. Ég held að við sem teljum okkur kristin gætum og ættum að gera meira að því að benda á loddara sem misnota nafn Guðs sér til framdráttar og kasta þeim á dyr.
Halldór, það er ofbeldi gegn hluta af trúariðkun gyðinga (og líklega fólkinu sjálfu). Ef einhver mótmælandi brýst inn í kaþólska kirkju og brýtur skriftarklefann og myndir af dýrlingum, þá myndi ég túlka það sem ofbeldi sem beinist að trúariðkun kaþólikka. En þú myndir líklega ekki samþykkja það þar sem bæði kaþólikkar og mótmælendur eru kristnir.
Við skulum ekki gleyma því að hann rak líka fólk úr musterinu með svipu.
“Kasta þeim á dyr”? Öllu heldur: Ráðast á líkama þeirra og eignir með ofbeldi.
En ég viðurkenni að mér finnst þessi saga svo fjarstæðukennd að það er erfitt að ræða um hana á þessum nótum. Því eins og sagan er í guðspjöllunum gerðist hún örugglega ekki.
Við leggjum seint söluborð og helgigripi að jöfnu og hitt er að ég fæ ekki séð að Jesú hafi notað svipu til annars en að reka út búfénað skv frásögunni í Jóhannesarguðspjalli.
En lestur þessa texta eins og annarra er alltaf háður nálgun lesandans.
Allt í lagi, mótmælandi veltir um koll og ræðst gegn söluborði þar sem verið er að selja myndir og styttur af dýrlingum.
Þú færð ekki séð það. Ég veit ekki hvers vegna við ættum ekki að túlka þessi ummæli þannig að hann hafi ekki notað svipuna á fólkið: “Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin.”
En fólkið hefur líklega bara yfirgefið básana sína vegna þess að Jesús bað það um að gera það.
Við leggjum seint söluborð og helgigripi að jöfnu. Það er ekki að sjá á viðbrögðum neins eins og sagan er skrifuð að hegðun Jesús hafi verið talið guðlast. Það er ekki fyrr en hann heldur því fram að musterið sé í raun bara hús að ásakanir um guðlast koma fram. Ég verð að viðurkenna að þegar ég les frásöguna þá fæ ég ekki séð að Jesú hafi notað svipu til annars en hugsanlega til að reka út búfénaðinn. Sá skilningur er þó hugsanlega “wishful-thinking.”
En lestur þessa texta eins og annarra er alltaf háður nálgun lesandans.
[Ég lagaði fyrri ummæli áður en ég sá nýjustu athugasemd Hjalta, en hef ákveðið að láta fyrri ummælin og lagfæringuna mína standa.]
Ég geri ráð fyrir að Hjalti sé að reyna að fá mig til að taka afstöðu með eða á móti því að Jesús hafi beitt fólk ofbeldi. Fyrir fimm árum hefði mér þótt það mjög óþægileg tilhugsun að ofbeldi eða vald væri notað til að ná fram réttlæti. Ég myndi líklega hafa talið það mótsagnakennda hugmynd.
Síðan þá hef ég kynnst systematisku ofbeldi valdastétta gagnvart almenningi og sér í lagi minnihlutahópum þar sem þjóðfélagskerfi byggja á að kúgun og blekkingum sé viðhaldið til að tryggja status quo.
Það er trú mín að gagnrýni Jesú hafi einmitt verið beint að slíku þjóðfélagskerfi, þar sem sölumennskan í musterinu var hlekkur í keðju valdhafa til að hafa fé af almúganum á sama hátt og t.d. aflátsbréf kirkjunnar á miðöldum.
Þessi sölumennska var á engan hátt trúarleg þjónusta, heldur byggði líkast til á þeirri hugmynd að ef keypt voru fórnardýr af musterissölumönnum þá fékkst meiri og betri aðgangur að helgidómnum. Hafi Jesús beitt ofbeldi (sem ég les ekki nauðsynlega úr textanum) til að rjúfa þennan hlekk og benda á spillinguna sem í þessu fólst þá hef ég meiri og betri skilning í dag en ég hafði fyrir fimm árum.
Mig er hálf-farið að langa til þess að ryðjast inn í Kirkjuhúsið og brjóta allt og bramla, bara til þess að sjá hver viðbrögð þín væru! 😉
Ég hef nú alltaf heyrt að þetta hafi einfaldlega verið svona svo að fólk þyrfti ekki að koma með sín eigin fórnardýr (þó svo að þau hefðu getað það).
Víxlararnir voru til þess að fólk gæti borgað til musterisins með “hreinum” peningum. Veit ekki hvað þér finnst rangt við það.
Ég sé ekki meiri blekkingu eða kúgun hérna en almennt í trúarbrögðum.
Varðandi ofbeldið, þá veit ég ekki hvernig þú kemst frá því að trúa að um ofbeldi hafi verið að ræða, ef þetta lýsir einhvers konar raunverulegum atburðum (svo er það frekar ótengt þessu, en Jesús virðist ekki vera á móti beitingu ofbeldis miðað við ummæli tengd helvíti sem eru eignuð honum).
Um leið og Kirkjuhúsið byrjar að selja aðgang að náð Guðs og aðgöngumiða inn í reglulegt helgihald kirkjunnar þá skal ég alvarlega íhuga að koma með þér. 🙂
Ég held að ég sé sammála þér Hjalti um að blekkingin og kúgunin í musterinu hafi almennt ekki endilega verið meiri en við sjáum oft í trúarbrögðum.
Ég á örugglega eftir að fjalla meira um ofbeldi síðar.