Í kvöld fór ég á fyrirlestur í Pontificial College Josephinum. Dr. R. Scott Appleby frá Notre Dame University velti upp ýmsum ýmsum hliðum á bókstafs-/öfga-/jaðartrúarhreyfingum og helstu einkennum þeirra. Fyrirlesturinn var samvinnuverkefni helstu guðfræðiskólanna hér í mið-Ohio.
Meginnálgun Dr. Appleby var sótt í rannsókn á fundamentalískum trúarhreyfingum úr sjö trúarhefðum sem var unnin í kringum 1990. Dr. Appleby benti í upphafi á vandann við að nota bókstafstrúarhugtakið (fundamentalism), en vestrænar skilgreiningar á bókstafstrúarmönnum og viðhorfi þeirra til helgirita, væru þess eðlis að því sem næst allir islamar féllu undir skilgreininguna. Hins vegar sætu þeir uppi með hugtakið vegna skorts á öðru betra. Að því sögðu benti Dr. Appleby á fimm grunneinkenni þeirra hreyfinga sem þeir kölluðu fundamentalískar og væru líklega til að beita ofbeldi, hvort sem þeir ættu uppruna sinn í kristinni hefð, islam, hindú, búddisma eða annars staðar.
1. Re-active. Hreyfingarnar eru að bregðast við e-u. Hér eru áberandi viðbrögð við “þeirri staðreynd” að trúarbrögð hafi minna vægi, heimshyggjan sé að ná yfirhöndinni. Innan hreyfinganna er sannfæring fyrir einhvers konar samsæri (oft andlegu) um að draga guð/hið andlega út úr heiminum. Gagnrýnin beinist oft hvað harðast að þeim sem tilheyra sömu trúarbrögðum og eru til í að “gefa eftir”. Þannig gagnrýndi Jerry Falwell, Billy Graham mjög harkalega fyrir samskipti við “ótrúaða”. Hreyfingin er oft leidd af öðrum en menntuðum guðfræðingum, enda hafi akademían svikið guð. Nýlegt dæmi um slíkt er Osama Bin Laden en hann er ekki trúarlega menntaður heldur verkfræðingur.
2. Selective. Annað einkenni hreyfinganna er valkvæðni. Þannig eru framfarir mikilvægar, en ekki hvernig framfarir sem er. Innan þessara hreyfinga eru oft áberandi einstaklingar sem eru vel menntaðir á “praktískum sviðum”, s.s. verkfræði, jafnvel læknisfræði, en hafa um leið skömm á gagnrýnni umræðu akademíunnar. Hreyfingarnar eru oft einnig mjög valkvæðar á aðalatriði í kenningum sínum eða sögu trúarhópa. Þannig eru hópar gyðinga sem leitast við að skilja gyðingdóminn í ljósi orðana um að þeir eigi að búa í fyrirheitna landinu.
3. Absolutismi. Hreyfingarnar gera kröfu um að búa yfir sannleikanum og öllum sannleikanum. Enn á ný felst ögrun í allri gagnrýnni hugsun. Þannig ber að skilja allan texta bókstaflega, nálganir, metafórur eða líkingamál eru ögranir við kenningar hópsins. Því að annar sannleikur en þeirra eigin hafi eitthvert raunverulegt vægi er hafnað.
4. Tvíhyggja. (Leslie Griffin leggur ofuráherslu á að í tvíhyggju þessara hópa sé áherslan oft á feðraveldið.)
5. Barátta. Hóparnir eiga allir sameiginlegt að sjá sig í baráttu við e-ð. Þeir eru tilneyddir til að berjast gegn hinu illa. Í mörgum tilfellum er það tengt þeirri heimssýn að við lifum á hinum síðustu tímum.
Dr. Appleby bendir á að flestir þessara hópa sæki áhangendur inn í hefðbundnar trúarhreyfingar, nálgist fólk sem þegar hefur einhverja þekkingu á helgiritum, lítið sé um nýliðun, nema helst úr þeim hópum sem eru vegvilltir og týndir. Þegar krafan um algjöran sannleika, tvíhyggja, sú “staðreynd” að stöðugt er reynt að lítillækka trúna og hinir hinstu tímar eru nærri kallar það á öfgafullar aðgerðir. Flestir trúarleiðtogar líta svo á að friður sé lokatakmarkið, en með því að vísa til þessara fimm grunnþátta er því haldið fram að nú sé einfaldlega nauðsynlegt að berjast á móti hinu illa, hvort sem það er með að fljúga á byggingar eða byggja hús í landnemabyggðum á herteknu svæðunum í Palestínu.
Samræður við þessa hópa á breiðum grunni eru ekki til neins. Samræður hafa á sér stimpil frjálslyndis og fjölhyggju og því hluti af hinu illa kerfi sem barist er gegn. Hins vegar er hægt að ræða saman um þætti sem hafa ekki trúarlegt inntak og er það helst leiðin til að nálgast slíka hópa. Dr. Appleby bendir í því samhengi á mikilvægi rannsókna á megininntaki trúarhópa og hvernig hægt er að greina aðal- og aukaatriði.
Heimurinn er auðvitað ekki svona einfaldur, hreyfingarnar eru margar og sumir punktarnir hér að ofan eiga við t.d. um Lúthersku kirkjuna á Íslandi. Þannig benti Torfi á hér í ummælum að tvíhyggja hefur alltaf fylgt kristinni kirkju í einhverju formi.
Það er hins vegar margt af þessu að læra. Þannig er mikilvægt fyrir hreyfingu eins og KSS (Kristileg skólasamtök) að hafa í huga að jaðarhreyfingar leita oft í uppsprettu þar sem fólk hefur einhverja fyrirfram trúarlega þekkingu. Þar ættu atburðir tengdir Frelsinu – kristnu samfélagi að vera forsvarsfólki skólahreyfingarinnar ofarlega í huga.
Eins má spyrja sig hvort náin tengsl kirkju og ríkis kalli ekki á myndun öfgahópa. Þannig sé þjóðkirkjan ekki vörn gegn öfgahópum eins og sumir halda, heldur nauðsynlegur “óvinur” hópa eins og Frelsisins, sem myndu ekki ná að vaxa og dafna nema með stöðugum tilvísunum um þá sem reyna að gera lítið úr vilja guðs/a.
Rannsóknir þær sem Dr. Appleby tók þátt í að ritstýra eru áhugaverðar og hafa á sama tíma snertiflöt við alþjóðastjórnmál og kirkjudeildafræði á Íslandi. Einhvern tímann væri gaman að skoða þetta allt nánar, en líklega verður það seint.
One thought on “Samspil trúarbragða og ofbeldis”
Comments are closed.