Hér í BNA hafa verið nokkrar umræður um Suður Dakóta. Fylki sem fæstir geta staðsett á landakorti, nema helst þeir sem eru fluttir þaðan. Íbúarnir enda undir 1 milljón og fjölgar víst lítið. Fylkið þar með eitt af 7 minnstu ríkjum sambandsins.
Þrátt fyrir smæðina sitja 70 manns í neðri deild löggjafarsamkundu fylkisins, 51 repúblikani og 19 demókratar. Af þessum 70 eru síðan 18 konur, 7 demókratar og 11 repúblikanar. Í efri deild sitja 35, 25 repúblikanar og 10 demókratar, 3 konur, 2 þeirra í demókrataflokknum. Samþykkt þingsins á þingskjali 1215 hefur vakið athygli á þessu annars lítilvæga fylki sem helst er þekkt fyrir forsetana í fjallinu. Margir hafa þannig spurt hvernig jafn mikilvægum lið í kvenfrelsisbaráttunni sé ögrað úr þessari átt. En þingskjal 1215 fjallar um yfirráð kvenna yfir eigin líkama að sumra mati. Hægt er að líta í niðurstöður kosninga um gildistöku þingskjalsins á margan hátt. Þannig virðist kyn ekki hafa áhrif á það hvernig þingmenn kjósa.
Neðri deild (House)
Karlar í Demókrataflokknum – 3 JÁ 9 NEI
Konur í Demókrataflokknum – 3 JÁ 4 NEI
Karlar í Repúblikanaflokknum – 32 JÁ 6 NEI 1 Ekki viðstaddur
Konur í Repúblikanaflokknum – 9 JÁ 2 NEIEfri deild (Senate)
Karlar í Demókrataflokknum – 4 JÁ 4 NEI
Konur í Demókrataflokknum – 1 JÁ 1 NEI
Karlar í Repúblikanaflokknum – 18 JÁ 6 NEI
Konur í Repúblikanaflokknum – 0 JÁ 1 NEI
Ef rýnt er nánar í niðurstöðurnar má sjá að 2/3 kvenna í neðri deild kjósa með lögunum og 7/10 karla, hlutfallið er því sem næst hið sama. Við sjáum vissulega mun á flokkunum tveimur en samt sem áður styður ríflega þriðjungur af þingmönnum demókrata lagasetninguna. Ríkisstjórinn benti einmitt á í rökstuðningi sínum fyrir undirskrift lagabálksins að um hefði verið að ræða málefni sem gengi þvert á flokkslínur og greinilegt að það nyti mikils fylgis.
En þá að málinu sjálfu. Fóstureyðingarumræðan hér í BNA skiptist að minnsta kosti í tvennt. Í öðrum hópnum er talað um heilagleika lífsins, vísað í Spádómsbók Jeremía og bent á að frelsi einnar manneskju megi aldrei ganga á frelsi annarrar. Þessi hópur er leiddur af mönnum eins og James Dobson sem telja sig vera í nánari tengslum við almættið en gengur og gerist hjá öðrum.
Hin hópurinn leggur áherslu á rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama og veltir upp spurningum um hverju mannkyn sé bættara með öll þau börn sem fæðast óvelkomin í heiminn og líða og þjást þar. Í þessari umræðu eru vangaveltur um hvenær líf er líf oft á tíðum látin liggja á milli hluta. Meðal röksemda sem eru notaðar eru rannsóknir sem sína að nákvæmlega 18 árum eftir Roe vs Wade dóm Hæstaréttar í BNA dró úr glæpatíðni.
Þegar svo kemur að samtali milli þessara hópa er engin leið fær. Annar hópurinn er gagnrýndur fyrir að reyna að troða trúarlegum sannindum inn í löggjöfina og reyna með því að viðhalda kúgun kvenna. Á sama tíma benda andstæðingar fóstureyðinga á að vísun í glæpatíðni sýni að fóstureyðingar séu tilraun til þjóðfélagshreinsana, þetta sé einvörðungu fyrsta skrefið, nú þegar sé talið eðlilegt að eyða Down Syndrome. Hvað sé næst, fitubollur?
Ríkisstjórinn í Suður Dakóta segir í rökstuðningi sínum fyrir undirskrift að hann eigi von á að lagasetningunni verði áfrýjað til Hæstaréttar í BNA.
Óhætt er að segja að þar verði tekist á um vægi trúarlegrar sannfæringar íhaldssamra Bandaríkjamanna í opinberri stjórnsýslu. Spurningin sem Hæstaréttur glímir við er öðru fremur sú hvort mannskilningur “meints” meirihluta Bandaríkjamanna eigi að vega meira í stjórnkerfinu en réttur kvenna til að ráða eigin líkama. Niðurstöðunnar er ekki að vænta á næstunni, en þangað til hafa pistlahöfundar hér vestanhafs nóg að gera.
Þess má hér geta til gamans fyrir fróðleiksfúsa að höfuðborg Suður Dakóta heitir Pierre.
Það segir e.t.v. ýmislegt um stöðu Suður Dakóta að Ríkisháskólinn hefur slagorðið “You can go anywhere from here” og er þannig væntanlega að vísa til þess að með því að fá menntun sé hægt að komast burtu frá ríkinu.
Halldór E. Heldur finnst mér þessi grein þín fordómafull, þú gerir ítrekað lítið úr Suður Dakóta ríki, það sé lítið ríki sem fáir viti hvar sé, fámennt – og gerir gys að einkennisorði háskólans þar. Gott hefði verið að þú segðir hvað þingskjal 1215 innihéldi (þó ég viti að þar sé bann við fóstureyðingum til umfjöllunar, þá kemur það ekki í ljós í grein þinni) og einnig að skýra út um hvað fjallaði dómur Hæstaréttar í máli Roe vs Wade. Með kveðju frá einum sem væri ekki til ef hann hefði komið undir 20 árum seinna en raun var. Eða eins og segir hér að ofan “börn sem fæðast óvelkomin í heiminn og líða og þjást þar” – já takk mér hefur bara líkað þessi lífsþjáning bærilega vel í 53 ár, hefði síður viljað missa af henni. Sveinbjörn Kristinn.
Suður Dakóta er lítið ríki sem fáir vita hvar er og er að glíma við “Brain-drain” vandamál, sem er því miður fyrir íbúa ríkisins speglað í slagorði ríkisháskólans. Vegna stærðar sinnar og sterkrar stöðu repúblikana í ríkinu, hefur það mjög lítið vægi í stjórnmálum hér vestra dags daglega, þannig er það því sem næst afskipt í forsetakosningum. Þetta eru staðreyndir.
Annállinn minn er ekki hugsaður sem fræðslumiðill heldur vettvangur fyrir skoðanir, áhugaverða umræðu og upplýsingar sem ég tek saman. Ég geng út frá því að þeir sem lesi annálinn, ýmist búi yfir sömu þekkingu og ég eða geti nálgast hana á fljótlegan hátt. Þannig er auðvelt að finna mörg þúsund greinar á netinu um innihald Roe vs Wade. Það eru vandamál við röksemdafærslu beggja aðila í fóstureyðingaumræðunni. Hugmyndafræði og raunveruleiki glíma þar í allar áttir. Ég hefði síður viljað missa af þér eða frábærum skjólstæðingum eins fyrrum samstarfsmanns míns í Grensáskirkju. Eins get ég skilið þá sem geta ekki tekist á við óviðráðanlegar aðstæður.