Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér handrit að glæpamynd. Þráðurinn væri eitthvað á þessa leið. Smáglæpamaður sem sérhæfir sig í peningaþvætti kemst yfir stórt fyrirtæki sem hann notar til að lifa í vellystingum um skeið. Þegar í ljós koma vafasamir gjörningar í bókhaldinu, brýst lögreglan inn á heimili hans og handtekur fyrir framan ungan son og eiginkonu af hefðarættum. Eftir réttarhöld og ævintýralegt plott, þar sem stjórnmálamenn fara hamförum er smáglæpamaðurinn dæmdur í fangelsi, þar sem hann situr um tíma. Eftir að fangavistinni lýkur halda faðir og sonur úr landi og hefja rekstur í alræmdri glæpaborg í fjarlægu landi og ná á óútskýrðan hátt ráðandi stöðu á markaði þar sem samkeppnisaðilar hverfa einn af öðrum. En það fullnægir þeim ekki. Þeir vilja hefnd, hefnd vegna fangavistarinnar og niðurlægingarinnar fyrir fjölskylduna forðum daga. Það eykur hatrið að einn stjórnmálamannanna sem gekk hvað harðast fram er nú orðin forseti í heimalandinu. Þá kemur að plotti myndarinnar. Þeir feðgar mynda tengsl við valdamenn í heimalandinu, gefa örlátlega til góðgerðamála og með ótrúlegri útsjónarsemi fá heimild í gegnum vinatengsl, til að taka yfir stærsta banka heimalandsins. Þeir nota næstu árin til að kaupa upp róttæka gagnrýna listamenn, gefa þeim jafnvel hús, kaupa sérfræðinga til að skrifa um sig bækur, þar sem fortíðinni er breytt, kaupa fjölmiðla til að aðstoða sig í þessu skini og þegar einhverjum verður á að rifja upp fortíðina eru haldnar bókabrennur. Hefndarþorsti feðgana virðist horfin og flestir trúa að réttlætið felist í því að fá að endurskrifa söguna og endurheimta stöðuna sem þeir nú hafa. En svo er víst ekki. Skyndilega og án viðvörunar kemur í ljós að þeir feðgar hafa notað stöðu sína til að steypa heimalandinu í gjaldþrot. Bankinn sem þeir tóku yfir, skuldar þrefalda þjóðarframleiðslu, Óskabarn Þjóðarinnar, eitt elsta hlutafélag landsins er gufað upp og erlendir menn og konur eiga kröfur á þjóðarbúið vegna horfina peninga. Landið er rjúkandi rúst, vart stendur steinn yfir steini. Ég sé fyrir mér að lokaskotið, sé af föðurnum að stíga upp í svarta einkaþotu sonar síns á Reykjavíkurflugvelli. Síðan er klippt á skot inn í þotuna þar sem þeir feðgar sitja með kampavínsflösku, horfa hvor á annan og faðirinn segir stundarhátt, Muuhahaha…
Upphaflega birt á halldorelias.blog.is sem viðbrögð við frétt á mbl.is.