Á miðvikudaginn þarf ég að skila ritgerð um leiðtoga á nýrri öld. Í stað þess að lesa mér til sat ég með konunni í kvöld og naut þess að horfa á bíó. Að loknu áhorfi er ég margs vísari um leiðtoga nýrrar aldar. Hlutverk leiðtogans er að nota reynslu sína til að hjálpa fólki að njóta. Hvort vínið er frá 1860 eða 1845 er ekki það mikilvægasta, heldur “getan” til að opna farveg fyrir okkur píetistana til að njóta og þiggja náðina sem okkur stendur til boða. Einhverjir þarfnast lítils stuðnings, geta greint það sem skiptir máli, geta sagt “den er gode” án þess að þurfa að fá leyfi til að þakka. En við erum flest píetistar inn við beinið, hræðumst ekkert meira en breytingar og því þörfnumst við leiðtoga.
Hlutverk okkar ef við viljum leiða, er að hjálpa fólki að lifa lífsins til fulls, með skjaldbökusúpu og kampavíni, í fullvissu til náðarinnar. Leiðtogar á nýrri öld eru þannig farvegur fyrir fegurðina, en ekki dogmatískir dómarar í stjórnunarstöðu eða sérfræðingar í sálgæsluþjónustu og messutækni.
(Nú er bara að skrifa þetta á ensku, lengja þetta upp í 5 síður með vísunum í fræðiritin sem ég hef verið að lesa og vona það besta.)