Við í kirkjunni erum viðkvæm fyrir gagnrýni, ég held það fari ekki fram hjá neinum. Enda erum við öll viðkvæm fyrir því þegar okkur er bent á það sem miður fer. Gagnrýni getur ýmist verið til uppbyggingar eða niðurrifs og ég held að flest okkar vilji fremur það fyrra en hið síðara, þó bæði geti meitt.
Í Detroit í janúar hlustaði ég m.a. á Jim Perkinson, guðfræðing við Ecumenical Theological Seminary í Detroit þar sem hann fjallaði á mjög ákveðinn hátt um sjálfhverfu okkar sem erum hvítir, gagnkynhneigðir, giftir og karlar og sjálfhverfu kirkjunnar sem við stjórnum, eigum og ráðum. Einhver sársaukafyllsta athugasemdin hans, ekki bara fyrir mig heldur ekki síður fyrir aðra guðfræðinema og jafnvel prestanna sem sátu fyrirlesturinn var umfjöllun hans um eyri ekkjunnar.
Hann benti á hvernig við (hvítir, gagnkynhneigðir giftir karlar) höfum um aldaraðir höfum notað orð Jesús til að upphefja fórn þess sem ekkert á, og notað þannig Jesús til að réttlæta það að fátækir gefi til trúarstofnunarinnar í neyð sinni. Þannig hafi orð Jesús verið notuð sem kúgunartæki á fátæka og hvatning til að fórna sjálfum sér fjárhagslega að fullu fyrir Guðsríkið.
Ég persónulega hef notað þennan texta á þennan hátt, hann er settur fram á þennan hátt í lestrum kirkjuársins í íslensku þjóðkirkjunni, ég hef vísað til hans í fræðsluefni sem ég hef skrifað og ef ég man rétt hér á veraldarvefnum einnig. Dæmi um þessa túlkun má sjá t.d. í prédikun Sigurbjörns Einarssonar frá því í október 2005, í vísun Arnar Bárðar til sögunnar í prédikun hér, prédikun Sveinbjarnar Bjarnasonar eða grein Karls V. Matthíassonar í BB.
Jim Perkinson benti hins vegar á að samhengi textans byði langt í frá upp á þessa túlkun sem við höldum á lofti í sjálfhverfu okkar. Jesús kemur nefnilega ekki af himnum ofan og bendir á ekkjuna án samhengis.
Þegar Jesús var að kenna þeim sagði hann: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir mergsjúga heimili ekkna en flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.“ Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“
Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum segir einn lærisveina hans við hann: „Meistari, sjáðu, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ Jesús svaraði honum: „Sérðu þessar miklu byggingar? Hér verður ekki steinn yfir steini, allt lagt í rúst.“ (Mark 12.38-13.2)
Þannig eru orð Jesús um fórn ekkjunnar ekki sérstaklega tilraun til að lofsyngja fátæklinga sem fórna öllu fyrir musterisbygginguna heldur miklu mun fremur árás á valdastéttir sem byggja upp hallir og helgidóma, með því að mergsjúga ekkjur og hrósa sér síðan af góðmennsku sinni. Með því að einblína á ekkjuna sem fórnaði öllu og lofsyngja hana erum við að vantúlka textann í tilraun til að horfa fram hjá óþægindunum sem felast í sannleikanum. Það er e.t.v. við hæfi að tvær af prédikunum sem ég vísa í hér að ofan skuli hafa verið haldnar í tveimur af dýrustu kirkjubyggingum Íslands, miklum og glæsilegum byggingum.
Viðbrögð okkar sem hlustuðum á fyrirlestur Jim voru ekki síður merkileg. Þeim verður líklega best lýst sem skömm og sorg. Við höfðum öll lesið guðspjallið margoft en vegna kaflasetningar í þýðingum eða einfaldlega fræðslunnar í sunnudagaskólanum sáum við ekki það sem stóð. Við vorum innstillt á Jesús sem hrósar fátæklingum fyrir að fórna öllu, en ekki Jesús sem fordæmir okkur sem misnotum stöðugt aðstöðu okkar.
Þegar ég skrifaði þetta hér, varð mér hugsað til samsvörunar á milli viðbragða Níels Dungal við ekkjunni á Ítalíu sem hann lýsir í bókinni Blekking og þekking og orða Jesús. Viðbrögðin voru e.t.v. ekki ólík eftir allt. Við höfum hins vegar aldrei hlustað á hvað það var sem Jesús sagði í raun og veru.
(Sylvía Magnúsdóttir hefur áður bent á þessa túlkun á mbl-bloginu í nóvember 2007)
4 thoughts on “Eyrir ekkjunnar”
Comments are closed.