Stefnumótun kirkjunnar

Mér varð hugsað til þess rétt í þessu að í stefnumótun íslensku þjóðkirkjunnar til ársins 2010 er hvergi gert ráð fyrir því að á Íslandi búi fleiri en þeir sem eru fæddir og uppaldir á eyjunni. Þannig er áherslan í menningarkaflanum á íslenskan menningararf eingöngu, í fræðslukaflanum og kærleiksþjónustukaflanum er ekkert um íbúa landsins sem fæddir eru erlendis, en reyndar er mjög undarleg setning í boðunarhlutanum þar sem segir: “Við viljum eiga frumkvæði að því að nýta tækifæri varðandi fjölmenningarsamfélagið”. Þannig virðist íslenska þjóðkirkjan skilgreina sjálfa sig sem íslenska á mjög afgerandi hátt og setur þjóðerni ofar öðrum þáttum kirkjulífsins.

Ef við erum gagnrýnin á kirkjuna, mætti segja að stefnumótunin sé því óbein yfirlýsing um að kirkjan sé ekki lengur í þjónustu við alla sem búa á landinu. Fullyrðing sem hefur reyndar heyrst víðar. Ef þessi fullyrðing er réttmæt og kirkjan sjái einstaklinga sem eru fæddir utan landssteina ekki sem viðfang sitt og ef prédikanir í kirkjunni í auknum mæli tala um ákveðna hópa í samfélaginu sem siðlausa skv. skilgreiningu, verðum við að spyrja okkur hvort kirkjan geti og eigi að leita skjóls í stjórnarskránni.

Íslenska þjóðkirkjan er í dag stofnun hinnar ríkjandi stéttar samfélagsins og við verðum að spyrja gagnrýnið hvort og hvernig það á samhljóm í deilum gyðingkristinna og grísk kristinna á Postulafundinum 48 og í gagnrýni Jesús á ríkjandi trúarstofnanir síns tíma. Spurningin sem hljómaði í tíma í MTSO í gær var: Ef Jesús kæmi í messu í söfnuðinum þínum, væri hann ánægður með það sem fram færi?