Hvenær töluðum við um Guð?

Ein af erfiðustu spurningunum sem ég hef mátt glíma við síðustu daga, er spurningin um Guð. Það er líklega auðveldast að orða hana eitthvað á þessa leið: Þegar við tökum ákvarðanir í sameiningu, hvenær tölum við um Guð?

Ég sjálfur má glíma við að þegar Biblíunni er haldið á lofti í samræðum, þá geri ég fremur en hitt ráð fyrir að einhver verði fljótlega slegin í hausinn. Þetta veldur því að í stað þess að orða trúarsannfæringu mína og tala um meintan vilja Guðs, leitast ég við að forma innlegg mín í búning fræðimennskunar og vísa í Herzberg eða Jenkins, þar sem reynsla mín af því að tala fyrir hönd Guðs og hlusta á aðra tala fyrir hönd Guðs er einfaldlega ekki góð.

Þetta getur leitt til þess að ákvarðanir eru teknar út frá forsendum sem liggja í loftinu, eru misskildar, mistúlkaðar en alltaf ósagðar. Þannig geta kennimenn eins og Kaplan og Norton haft meiri áhrif á stefnu kirkjunnar sem ég tilheyri en Guð og sú trú/guðfræði/mannskilningur sem ég þykist hafa, einfaldlega vegna þess að ég er hræddur við að tala um hvernig ég upplifi Guð.

Þannig forðast ég að tala um Guð þegar ég segi frá því hvernig ég endaði í þessu námi, og þegar einhver tengir köllunarfrásöguna á trúarlegan hátt, vara ég jafnan við og segi að ég vilji síður tala um Guð í þessu samhengi ef allt skyldi fara á versta veg. Hið sama á við um djáknanámið mitt á sínum tíma, sem vissulega varð ekki jafn frábær reynsla og ég hélt.

Þessi hræðsla við að tala, veldur því síðan að trúin verður annars flokks veruleiki, sem hættulegt er að orða, sem veldur því að ég treysti enn meir á kenningasmiði viðskiptalífsins.

Ég velti t.d. fyrir mér hvenær ég var síðast spurður af kollegum mínum í einlægni, hvað ég teldi að væri vilji Guðs. Ég minnist þess sjálfur ekki að hafa ekki spurt undirmenn mína slíkra spurninga á löngum ferli sem leiðtogi innan kirkjunnar. Það er helst í tæknilegu fræðsluefni fyrir unglinga að við glímum við þessa spurningu sem er þó svo grundvallandi í glímu okkar við efann, Guð, framtíðina og sjálf okkur.

2 thoughts on “Hvenær töluðum við um Guð?”

  1. Ég hef verið að velta því fyrir mér í nokkurn tíma sem þú skrifar hérna og varð eiginlega svolítið sár að maður með menntun í djáknafræðum vilji ekki tala um Guð við annað fólk. Ég spyr bara hvað er að þegar svoleiðis er komið fyrir fræðimönnum þessarar greinar. Það er ágætt að nota kenningar annarra fræðimanna sem vörður á því ferðalagi sem við erum á, en þær koma aldrei í stað sannfæringa okkar um Guð og ég vona að með því að tjá sig um Guð, sem verður aldrei greyptur í stein, verði til þess að einhver þeirra sem þú ræðir við (og jafnvel þú) þroskar með sér þá guðsmynd sem er sönn fyrir þau (þig). Að setja Guð eða talið um Guð í einhverja kassa eins og SWOT (styrkur, veikleiki, ógn og man ekki meir) gerir bara lítið úr umræðuefninu ef það á að vera meira en bara leiðarkerfi.

  2. Blessuð María,
    það er enda full ástæða til að vera sár yfir þessari færslu minni. Í tilraun til að vera up-to-date og segja ekki neitt sem særir eða er rangt höfum við mörg fært Guð til hliðar. Vandinn er ekki að mig skorti Guðsmynd, hana hef ég mótað með góðu fólki í umhverfi þar sem sótthreinsað Guðtal er leyft, á bænastundum og Biblíuleshópum, þar sem við skoðum saman texta og tölum um hvernig þeir hafa merkingu í lífi okkar á yfirborðskenndan hátt, vegna þess að við viljum ekki móðga og meiða, og allra síst tölum við á neikvæðan hátt um upplifun okkar af Guði.

    Það er ekki slíkt Guðtal sem ég er að tala um í færslunni hér að ofan. Ég tek endalaust þátt í slíkum samræðum. Hvað þýðir Jh 3.16 fyrir þig eða hvernig skilur þú Mk 16.9-20 (í ljósi þess að það er seinni tíma viðbót). Slíkar spurningar eru góðar til að móta Guðsmynd en hvernig tölum við um Guð að verki í okkar lífi. Það er sá vandi sem ég er að orða fyrir ofan.

    Umræða um hvort, hvernig og hvenær Guð hefur umbreytt þér nýlega.
    Hvers vegna er ég hér í Columbus?
    Hvað ætlar Guð að gera við reynslu mína frá Detroit/New Orleans?
    Er ég til í að leyfa honum að nota reynslu mína?
    Hvað vill Guð að ég geri þegar ég kem heim?
    Eru hans vegir, mínir vegir?

    Við orðum spurninguna nefnilega alltaf. Hvernig hefur þú breyst, hvers vegna ert þú í Columbus, hvað ætlar þú að gera við reynsluna, hvað ætlar þú að gera, hvert stefnir þú? Þetta eru ekki endilega sömu spurningarnar.

Comments are closed.