Í tíma hjá Dr. Dahill var umræða um kvöldmáltíðarsakramentið og kenningar einhvers um tengingu við sérstakt máltíðarsamfélag gyðinga. Í kjölfarið spruttu upp hugmyndir um útfærslu á samfélagi þar sem brauðið og vínið móta umgjörð um hefðbundna máltíð, sem hæfist á brotningu brauðsins og endaði á því að allir dreyptu á sameiginlegum bikar. Dr. Dahill virtist ekki jafnspennt yfir þessu og sumir aðrir, án þess að hún hafnaði hugmyndinni.
En kannski væri ástæða til að leggjast í Didache og útfæra þetta nánar. Síðan er bara að plata einhvern af ungu prestunum á Íslandi til að taka þátt í þessu í sumar. 🙂
Hugmyndin er flott og mér finnst ekkert nema gott við það að leika sér með helgisiðina. Þeir eru jú leikrit, sbr. hugmyndir Frank Senn sem ku hafa nýlega verið að uppfræða í Skálholti en hann segir að messan eigi að vera himnaríki á jörð.
Það þarf svolitla leikgleði til þess, sbr. fyrri færslu þína um að leika sér við guð.
Mig grunar að einhverjum þyki varasamt að taka altarissakramentið út úr hefðbundinni guðsþjónustu og svo úr slíkri átt mundi ég helst vænta mótstöðu. Ég er á því að það þurfi að víkka út framkvæmdina á því hvað sé guðsþjónusta. Mér finnst áskorunin felast í því að gera umgjörð slíkrar samfélagsmáltíðar að ritúali við upphaf og endi og samfélag þar á milli. Þetta getur örugglega gengið í minni hópum en ég sé ekki fyrir mér að þetta henti á stærri vettvangi þar sem stærðin setur alltaf einhverja til hliðar og þá er botninn dottinn úr samfélaginu.
Mér finnst engin ástæða til að einblína á að plata presta til að taka þátt í þessu. Frekar að finna áhugasamt fólk almennt, setja niður rammann og svo til að fullnægja öllu réttlæti er þar prestur líka sem gegnir ákveðnu hlutverki eins og sérhverjir aðrir sem þátt taka. Slík samfélagsefling má alls ekki hafa miðlægan prest né djákna heldur á þjónustan að streyma frá söfnuðinum sjálfum.
Ég er sammála þér Ólöf, að þetta er ekki vænlegt í stærri hópum, varðandi prestinn hins vegar, þá er þátttaka hans nauðsynleg til að “viðhalda góðri reglu”, þ.e. sakramentið verður ekki framkvæmt án hans (hljómar katólskt, en byggir ekki á umbreytingu efnisins, heldur samfélagsreglunni að það er hlutverk prestsins). Hann þarf ekki að vera miðlægur á neinn hátt og á ekki að vera það, heldur þarf hann að vera með á forsendum embættisins, sem hann sinnir.
Ég er 46 ára ungur prestur sem hefur bæði verið við athafnir sem líkjast þessu og reynir að gera eitthvað í þessari veru. Vel á minnst, það er óþarfi að fara í Didache, nóg að kíkja á það sem Ole Kvarme hefur að segja um efnið, sérstaklega bókin frá 1985 um gyðinglegar rætur kristinnar trúar. Vel á minnst, presturinn er í hlutverki heimilisföðursins í þessari máltíð, nærvera hans hefur ekkert með kaþólsku, reglur eða embætti að gera en fullt með það að vera góð fyrirmynd þess sem kirkjan, fjölskyldan og lífið getur orðið.
Ég vil aðeins benda á tilvísun Calosar í Kvarme í Wikipedia til að glöggva menn á því í hvaða hefð Kvalme stendur, en skipun hans í embætti Óslóarbiskups var mjög umdeild á sínum tíma. Ég vil benda sérstaklega á síðustu setninguna í tilvitnuninni hér að neðan, enda hlýtur hefð sem talar um messuna sem himnaríki á jörð að vera meira en lítið úr takti við tímann:
In 2005, he was appointed Bishop of Oslo. His appointment as Bishop of Oslo by the government of Kjell Magne Bondevik was criticized by non-Christians and liberal Christians because he is loyal to the decision of the highest body of the Church of Norway not to allow practicing homosexuals as priests.
He is considered a centrist moderate conservative.
Torfi, af hverju má ekki tala um mótstað Guðs og manns, sem messan á að vera, sem himnaríki á Jörð?
Ég vildi nú gjarnan heyra mun spámannlegri túlkun á himnaríki á jörðu, t.d. eitthvað í líkingu við orð Jesaja spámanns um algjöran frið, svo sem Jesaja 11:6: “Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.”
Þá má einnig nefna Jesaja 9:1-9 sem lesinn er sem lexía á jólum (t.d. Jesaja 9:5 (“öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur”).
Himnaríki á jörðu er ekki litúrgískur veruleiki heldur þjóðfélagslegur. Lestu bara orð meistarans um guðsríki sem dæmi um það.
En ég hefði haldið Torfi að hlutverk lítúrgíunnar væri að endurspegla þennan þjóðfélagslega veruleika, sem við stefnum að Himnaríki á jörðu.
Hvernig er það hægt þegar um 1% þjóðarinnar mætir til guðsþjónustu hvern sunnudag?
Er ekki önnur leið greiðari að almenningi en litúrgían?
Þetta hátíðarhjal kirkjunnar er einmitt að gera áhrif hennar að engu í samfélaginu!