Um vígsluskilning

Eitt af hugtökunum sem hefur vafist fyrir fólki í umræðunni um stöðu samkynhneigðra í kirkjunni er vígsluhugtakið. Vígslan er í einhverjum skilningi talin heilög og ekki sé heimilt að víkja frá hefðbundnum skilningi hugtaksins. En er það svo að kirkjan standi vörð um þröngan skilning þessa hugtaks?
Fyrst langar mig að ítreka að vígsla er ekki skilin sem sakramenti í kirkjunni okkar. Hér er um að ræða fyrirbænar- og blessunarathöfn þar sem staða og hlutverk ákveðina einstaklinga er umvafið og viðurkennt af kirkjunni.
Hefðin tengir þessa athöfn við embættisveitingar kirkjunnar, sem í klassískum skilningi eru, prestur, djákni og biskup eða við hjónabandið. Hér er leitað í smiðju sakramentisskilnings katólsku kirkjunnar og lengi vel hefur kirkjan bundið vígslu sína við það sem er talið sakramenti hjá katólskum. Á þeim forsendum er því stundum haldið fram að vígsla samkynhneigðra geti ekki átt sér stað þar sem vígslan er bundin við hjón.

Það er hins vegar EKKI svo að Þjóðkirkjan hafi alltaf haldið sig við þennan skilning. Það er ekki lengra síðan en tvö ár að Hr. Karl Sigurbjörnsson vígði hjón til að verða kristniboða, ekki prest, djákna eða biskup eins og hefðin segir, heldur kristniboða. Þessi kristniboðavígsla er í sjálfu sér ekki ný. Einstaklingar sem ekki uppfylltu menntunarkröfur til að fá prestsvígslu í heimalandinu á 18. og 19. öld fengu stundum vígslu til að þjóna á kristniboðsakrinum, þar sem þörfin var talin mikil. Hin þrískipta þjónusta var þannig ekki talin heilög, vígslan var ekki bundin hefðinni.

Hér mætti reyndar ræða um hvort og hvernig kristniboðsvígslan virkar þegar hjónin koma aftur til Íslands. Er um að ræða líkt og á fyrri öldum vígslu til að þjónusta sakramenti fyrir þá “sem ekki erum við”, eða gefur vígslan þeim heimild til að annast sömu athafnir á Íslandi og þau geta annast í Afríku. Um þetta mál gæti ég skrifað langan texta en hyggst halda mér á mottunni.

Af ofangreindu má sjá að það ætti ekki að vefjast fyrir Þjóðkirkjunni að nota vígsluhugtakið fyrir samvist samkynhneigðra. Hugtakið er notað af kirkjunni í víðari skilningi nú þegar en hefðin virðist leyfa.

4 thoughts on “Um vígsluskilning”

  1. Þetta er nefnilega dálítið kjánaleg klemma.

    Kristniboðar hafa “landfræðilega” vígslu sem gerir þeim kleift að skíra og sjá um altarissakramentið í Afríku en ekki hér heima. Þeir mega skíra börn í Afríku en ekki á Íslandi.

    Ég veit samt ekki hvort þeir mega skíra svört börn á Íslandi! En þeir hafa í einhverjum tilfellum skírt hvít börn á Afríku!

    Vandamálið Elli minn, er einfaldlega það að þú skilur ekki guðfræðilega umbreytingu sem á sér stað í farþegaflugi frá Evrópu og til Kenýa og Eþíópíu.
    Flugfélögin vilja alls ekki tala um þetta og enginn stóru guðfræðinganna hefur enn gefið út rit um afríkuflugs-umbreytinguna, hún er hins vegar til staðar. Þetta er samkvæmt mínum heimildum umbreyting sem núllstillist alltaf þegar þú flýgur tilbaka.

  2. Það er nú nóg að flakka aðeins innan gömlu vestur Evrópu til þess að finna alls konar skilning á vígslunni. Eitt af því sem mér finnst sniðugt í því samhengi er að hér í Lúthersku kirkjunni leggjum við mikla áherslu á að einungis prestvígðir geti tekið fólk til altaris, djáknavígðir aðstoða í mesta lagi. Í mótmælendakirkjunni í Wuerttemberg þar sem ég hef líka unnið þyrfti ég einungis að fara á helgarnámskeið til þess að öðlast þessi réttindi – að vísu að því gefnu að prófastur teldi það vera nauðsyn vegna eðlis þess starfs sem ég sinni. Slíkt á við um æskulýðsfulltrúa sem og við lektora sem taka að sér leikmanna-predikunarhlutverk eins og við þekkjum hér heima í Laugarneskirkju. EN vissulega önnur kirkjudeild hér á ferðinni, samt náskyld og í Lútherska heimssambandinu eins og við.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.