Ein af hættulegustu villum kirkjunnar er að einoka trúarlífið. Þegar kirkjan færist frá því að vera samfélag trúaðra og verður þess í stað stofnun með fjölda trúartækna í vinnu, þá er þessi hætta e.t.v. hvað mest. Hættan felst m.a. í því að trúartæknarnir taka yfir svið trúarinnar í þjóðfélaginu og almenningur verður neytendur. Þar sem trúin hefur marga snertifleti í daglega lífinu, þarf sífellt fleiri trúartækna til að dekka mannlega tilveru, svo ekki reyni á trú neytendanna.
Þessi þróun gerir lítið úr hugmyndum um almennan prestsdóm, en gerir trúna að viðfangi sérfræðinga. Þessi hætta er ekki síst til staðar þegar ofgnótt er af guðfræðingum, sem margir telja að kirkjunni sé skylt að útvega þeim starf. Ýmsar kenningar um safnaðaruppbyggingu hafa hins vegar bent á að söfnuðir nái mestum árangri (eru með öflugast starf og flesta virka þátttakendur) þegar starfsfólkið er tiltölulega fátt og á það sameiginlegt að telja verkefni sitt felast í að kalla fólk til starfa, fremur en að starfa sjálft. Þannig sé það ekki hlutverk prestsins/djáknans að annast félagsstarf eða húsvitja, heldur sé verkefnið öllu fremur að kalla til starfa einstaklinga sem vitja um náunga sinn og eru tilbúnir til að taka virkan þátt í starfi safnaðar.
Þetta kallar hins vegar á gagngera endurskoðun á sérfræðihugmyndum innan kirkjunnar og endurvakningu hugmyndarinnar um almennan prestsdóm. Þannig má vera að markmið einstakra verkefna sem kirkjan hefur á sinni könnu, sé betur komið í höndum leikmanna en presta, t.d. vegna lægri þröskulda í samskiptum leikmanna á milli, en milli leikmanns og prests. Þetta á við um samskipti við börn og unglinga, en þó alls ekki einvörðungu þar. Ef aðkoma að kirkjunni er alltaf aðkoma að vígðum einstaklingi sem hefur (í huga almennings) einhvers konar óskilgreint vald frá Guði í krafti embættis, þá verður kirkjan seint það samfélag sem henni er ætlað að vera.
(Hér að ofan eru þankar sem ég vænti að einhver nenni að tætta í sig.)
Þarna held ég að þú sért að hitta naglann beint á höfuðið Elli. Því læt ég aðra um að tæta þetta í sig 🙂
Uss, nú er vafalítið eldheit umræða í gangi bak við tjöldin 🙂