Orðanotkun

Um þessar mundir er mikið rætt á vefnum um Vinaleiðina. Mér finnst mikilvægt að koma að smá innleggi um orðanotkun. Hér er notast við hugtök eins og viðtöl, spjall, samtöl, sálgæslu, meðferð, meðferðarviðtöl og sálgæsluviðtöl. Ég geri ekki kröfu um að áhugafólk um samskipti hafi muninn á öllu þessu á hreinu. Ekki hef ég það. Hitt er ljóst að það er mjög óæskilegt að sérfræðingar smætti hugtök eins og sálgæsla til þess að styrkja röksemdafærslu sína.


Sálgæsla í kristnum skilningi án virkrar nærveru Guðs (í huga þess sem veitir þjónustuna) verður aldrei annað en viðtal eða spjall. Nærvera Guðs hefur að sjálfsögðu áhrif á andrúm samtalsins. Þessi áhrif eru þeim mun sterkari ef sálgætirinn hefur verið kallaður af kirkjunni til samtalsins og köllunin er viðurkennd með fyrirbæn og handayfirlagningu áður en lagt er af stað. Með því að smætta Guð og nærveru hans til að ná yfirhöndinni í rökræðum er að mínu mati verið að gera lítið úr Guði ásamt því að lítilsvirða köllun og vígslu sálgætanna.

6 thoughts on “Orðanotkun”

  1. Ég held að þú gerir lítið úr gildi viðtals, Elli, og of mikið úr “nærveru Guðs” í því. Sálgæslan er ekkert hókuspókus, þótt vissulega er hún hluti af köllun prestsins. Sálgæsluviðtal er ekkert annað en framhald af því samfélagi, sem á sér stað í kirkjunni, þar sem fólk kemur saman, talar saman, biður saman, ber umhyggju fyrir öðrum. Sálgæsla er ekki meðferðarúrræði per se, heldur það sem fólk gerir þegar það er óöruggt, líður illa, er spurjandi. Sálgætir hlustar, ræðir og biður, annað hvort með viðkomandi eða fyrir viðkomandi, meðan viðkomandi er viðstaddur eða seinna. Ég held að þeir sem gera þá kröfu um að sálfræðingar og félagsráðgjafar sinni sálgæslu í stað presta, geri sér ekki grein fyrir því að með því opna þeir fyrir möguleikann á því að sjúkdómsvæða lífið, sorgina og daglegar áhyggjur, á 5 – 10þúsund krónur á 50 mínútur. Sálgæsluviðtalið er hinsvegar ókeypis veitt og án skuldbindinga.

  2. Ég held að við séum ekki ósammála Carlos. Ég er ekki að lítilsvirða viðtalið, heldur að leggja áherslu á að kristin sálgæsla verður ekki slitinn úr samhengi við kirkjuna í heild. Það er sú staðreynd sem ég er að leggja áherslu á með vísun til nærveru Guðs. Kristileg sálgæsla er ekki tæknileg aðferðafræði, heldur miklu fremur viðtal tveggja eða fleiri einstaklinga í samhengi við kirkjuna (í nærveru Guðs, með orðalagi mínu). Þegar við kynnum sálgæsluna sem einhvers konar tækni sem er í einhverjum skilningi óháð Kristi erum við að mínu mati ekki að fullu heiðarleg. Ég tek undir með þér að hættan á sjúkdómsvæðingu er talsverð, en það er líka til staðar mikil hætta þegar kirkjan vígir sérfræðinga í sorg til að taka yfir vináttuna og glímuna við lífið. Þar er e.t.v. ekki um sjúkdómavæðingu að ræða, öllu fremur sérfræðingavæðingu sem er lítt skárri.

  3. Í skólum starfa skólaliðar sem umgangast börnin mikið. Höldum frekar námskeið fyrir það starfsfólk aukum þeirra ábyrgð. Þetta er ósköp einfalt.

  4. “Sálgæsluviðtalið er hinsvegar ókeypis” Ertu að reyna að vera fyndinn Carlos?

  5. Góð athugasemd Matti, ég er reyndar ekki viss um að þið Vantrúarmenn mynduð láta það óáreitt ef kirkjan myndi kosta námskeið fyrir skólaliða um viðtalstækni við börn og umgjörð stoðkerfisins í þjóðfélaginu. En auðvitað væri það ódýrara og þjónusta yrði mun víðtækari en bara “Vinaleið” á stöku stað. Það mundi auk þess rýma mun betur við hugmyndir lútherskrar kirkju um almennan prestsdóm. Hér er þó rétt að taka fram að ég treysti Hansa og Jóhönnu fullkomlega til þess að vinna faglegt og flott starf í Garðabæ. Þessum vangaveltum er á engan hátt beint gegn þeim sem fagfólki.

  6. Hugsanlega myndum við ekki láta það óáreitt, en ég get fullyrt að mótbárur okkar væru minni. Það væri ekki eðlilegt að kirkjan sæi um slíka kennslu, en ég get í sjálfu sér lítið sett út á það þó hún kæmi að henni. Varðandi kostun má geta þess að vinaleið í Garðabæ virðist að stórum hluta eða öllu leyti kostuð af einkaaðila. Taktu líka eftir að það eru mun hófsamari hópar en Vantrú sem hæst hafa í þessu máli þó við sjáum um að kommenta á þessa síðu og trú.is

Comments are closed.