Það má segja að það sé meira en lítið hallærislegt að skrifa bloggfærslu um Framsóknarflokkinn, en þar sem málið er mér skylt finnst mér ég þurfa að leggja orð í belg. Allt frá barnæsku hefur mér þótt Framsóknarflokkurinn standa fyrir skemmtilegan raunveruleika í íslenskri pólítík, tengsl hans við landsbyggðina þar sem einn hjálpar öðrum við að koma kindum í hús, kallast skemmtilega á við lög- og hagfræðimenntuðu frjálshyggjumennina í Sjálfstæðisflokknum og sjálfhverfa akademíska liðið sem hefur rænt baráttunni fyrir jöfnum rétti allra og hringsnýst um gáfur sjálfs sín og ást sína á umhverfinu og landinu sem það hefur aldrei séð.
Þannig kallast bóndasonurinn á Suðurlandi á við sjálfselskan sagnfræðinginn, ameríkumenntaða hagfræðinginn og unga gáfukonu úr sundunum, vestan megin Elliðaár.
En hjartahreini bændaflokkurinn hefur fengið á sig margar ljótar skellurnar, flestar koma þær frá ungum mönnum á framabraut sem sjá tækifæri til að útvíkka samhjálpina við réttirnar (eða e.t.v. þrengja) sjálfum sér og sínum til hagsbóta en öðrum til óþurftar. Þetta eru menn sem eiga litla samleið með bændaflokknum sem hrópar á samhjálp og samvinnu en samt virðast þeir hafa fundið sér farveg fyrir valdafíkn og séð þar möguleika á sjálftöku á eignum annarra.
Af einhverjum ástæðum er lítið um varnir innan flokksins sjálfs. Hugsanlega er grasrótin veik, líklega er sjálfsmynd flokksfélaga úr lagi færð og á einhvern óskiljanlegan hátt virðist sem flokksfélagar líti upp til menntunar þessara ungu manna, þó í sumum tilfellum felist hún í því einu að hafa skráð sig í kúrsa í HÍ, án þess að neinum prófum hafi verið lokið.
Á næstu sólarhringum mun Framsóknarflokkurinn ákveða kúrs næstu ára. Ef ungu mennirnar ná fullum völdum eins og margt virðist benda til, er það upphaf endalokana. Svipuð aðgerð eins og innrás BNA í Írak. BNA blæðir, Írak blæðir en vinir og félagar þeirra sem ákvörðunina tóku safna miklu fé á reikninga. Framsóknarflokknum mun blæða út, íslenska ríkið mun leggja út milljónir í gæluverkefni strákaklúbbsins og vina þeirra og e.t.v. reyna að selja góðum gæðingum virkjun eða tvær.
Ef á hinn veginn sjálfhverfusinnarnir verða stöðvaðir, mun Framsóknarflokkurinn hverfa í Reykjavík, alla vega fyrst í stað. Reykjanesið mun láta á sjá, en flokkurinn mun vaxa sem aldrei fyrr á landsbyggðinni. Samhjálpin og samvinnan, tilraunir til að hleypa lífi í illa stödd bæjarfélög og landnýting til bóta fyrir byggðina en ekki malbiksbörnin mun höfða til þeirra sem í 90 ár hafa litið til flokksins til góðra verka.
Ef ungu mennirnir ná völdum að fullu í flokknum þá vona ég eiginlega að það gerist strax á morgun, því það er við hæfi að flokkurinn stígi sitt stærsta skref til glötunnar þann 6-6-6.
Þetta er óviðjafnanlegur pistill Elli! Ég segi eins og Bjarni Harðarson við Össur í gær: Ertu jafn sannspár og þú ert greindur? 🙂