Hér á vefnum hefur að venju verið rætt nokkuð um trú og trúarbrögð. En slík umræða á sér ekki bara stað í vefheimum. Þegar ég hugðist svæfa dóttur mína í gær, sýndi hún mér undir koddann sinn, þar var ekkert.
Hún leit á mig og sagði að þetta hefði verið svona í tvo daga, lyfti upp lítilli tönn og sagði mér að ef ekkert gerðist í nótt myndi hún hætta að trúa á The Tooth Fairy hér í BNA. Ég svo sem skyldi hana vel, trú er ekki mikils virði ef hún stenst ekki væntingar. Ég ræddi við hana um hvort ég ætti að reyna að tilkynna heimilisfangaskipti til Tooth Fairy skrifstofunnar en hún gaf ekki mikið út á það, en ítrekaði að ef ekki yrði peningur í stað tannar á morgun ætlaði hún að hætta að trúa á hin margumrædda Tooth Fairy.
Ég vaknaði síðan í morgun við orðin one dollar, I have one dollar.
Meira að segja tannálfurinn er máttugri en guð kristinna manna. Ég man ekki hve oft ég óskaði og bað til guðs um ýmislegt sem krakki, en aldrei gerðist neitt. Guð sem sé stóðst ekki væntingar og því ástæðulaust að berja höfðinu við steininn – slíkt getur einungis af sér höfuðkvalir.
Dóttir mín var nú svo sem ekki mikið að biðla til tannálfsins :-). Hann hafði fengið sína tvo sólarhringa. En ég er vissulega Hendur Guðs á jörðu, líkt og dóttir mín og ég lærðum í sunnudagaskólanum í Köben veturinn 2000-2001.
Ég þurfti ekki að segja dóttur minni neitt, bara blikka hana brosandi þegar hún spurði mig út í tannálfinn (nóttina áður en tönnin fór undir koddann). Hún fattaði hver það er sem skiptir á tönn á smápening.
Halldór, þarna viðheldur þú hugmyndum barnsins þrátt fyrir að vita að þær eru ranghugmyndir. Af hverju? Mér þykir þetta fremur ógeðfellt. Er þetta viðtekin aðferð hjá prestum og djáknum líka? Vitið þið kannski sjálf betur?
Já, það er ljótt að trúa ævintýrum sér í lagi fyrir þann sem er 7 ára. Það er skelfilegt fyrir börn að leika hlutverkaleiki og láta sig dreyma. 🙂
Það er samt svo skrítið að þrátt fyrir að aldrei hafi verið sagt við mínar dætur að hin og þessi ævintýri séu sönn heldur þvert á móti iðulega talað um að hitt og þetta sé bara skáldskapur og ekki til í raunveruleikanum og þannig komið í veg fyrir að þær trúi hverju sem er, fara þær í hlutverkaleiki daginn út og inn, leika prinsessur, mömmur, apa og ég veit ekki hvað. Þannig að ég hef ekki séð að það hafi nokkur áhrif á getu barna til að láta sig dreyma. Aftur á móti er tónn þessara ummæla að verða full neikvæður. Þetta má ekki verða eins og einelti!
Það er ekki það sem ég sagði. Dóttir Matta og hann eru að leika hlutverkaleik, hjá þeim báðum er tannálfurinn til í þykjustunni. Mér sýnist að hjá ykkur feðginum gangi þetta út á að trúa þessu í alvörunni. Það er mikill munur þar á. Kemurðu ekki auga á það? Er kristið fólk kannski bara í hlutverkaleik þar sem guðinn er í þykjustunni og svo blikkar það hvert annað eins og Matti dóttur sína? Ef þessu er þannig farið, þá fer ég að skilja af hverju trúmenn skilja ekkert í þessari uppivöðslu herskárra trúleysingja. Kannski erum við að missa þarna af einhverju, höldum að þið séuð að trúa þessu í fúlustu alvöru. Þegar börnum eru sögð ævintýri er fullkominn óþarfi (ef ekki bara skaðlegt) að telja þeim trú um að þetta séu sannar sögur. Ævintýrin eru alveg jafn heillandi þótt barnið átti sig á að þetta eru… tja, ævintýri.
Birgir, ég held að hér sé bókstafstrúarmaðurinn í þér að taka öll völd. Ég segi litla sögu um hvernig dóttir mín stillir mér upp við vegg á skemmtilegan hátt. Hún passar sig á að tala um “The Tooth Fairy” en ekki tannálfinn, til að fórna ekki möguleikum á verðlaunum þegar við höldum til Íslands. Hún býður mér að grípa inn í atburðarásina og bjarga heiðri þessarar merkisfígúru. Ég hefði í samræmi við rétthugsunarstefnu þína getað sest niður með henni og rætt um það að “The Tooth Fairy” væri ekki til, mamma hennar hefði hingað til sett peningana undir koddann hennar, tekið upp $1 og málið dautt, hugsanlega í eitt skipti fyrir öll. Ég kaus hins vegar að velta fyrir mér með henni af hverju “The Tooth Fairy” væri ekki að standa sig og biðja hana um að gefa aumingjans álfinum séns. Vá, hvað góð saga kallar á mikið vesen.
Bókstafstrúarmaðurinn í mér? Hvað áttu við? Það sem ég er að velta fyrir mér er siðferði og athafnir. Ég er mjög upptekinn af siðferði og hef tilhneigingu til að skoða allar athafnir manna út frá því. Og þegar ég sé ranghugmyndum viðhaldið þá tek ég einfaldlega til máls, jafnvel þótt sagan sé sakleysisleg og krúttleg. Ég er að reyna að fá þig til að velta fyrir þér siðlegheitum athafna þinna, ekki síst í stærra samhengi, sbr: „Er þetta viðtekin aðferð hjá prestum og djáknum líka?“. Annað var það nú ekki. Þetta er ekki sett fram í neinni óvinsemd, en ég skal alveg játa á mig aðgangshörku.
Ég átta mig á því að réttlætiskennd þín er sterk og nei, ég tel mig ekki hafa verið að viðhalda ranghugmyndum hjá dóttur minni, heldur einfaldlega að taka þátt í skemmtilegum leik. Varðandi spurninguna í stærra samhengi. Nei, ég tel mig ekki leitast við að viðhalda ranghugmyndum hjá fólki. Þegar kemur að trúarlegri fræðslu/umræðu/boðun tel ég mig koma heiðarlega fram og standa fyrir það sem ég trúi að sé réttur skilningur á heiminum. Ef þú vilt ganga lengra og spyrja hvort mér verði á mistök í framsetningu. Þá gerist það, en ég leitast við í allri umræðu/fræðslu/boðun að vera heiðarlegur og koma fram við þá sem ég er í samskiptum við af virðingu. Hvort ég notist við líkingar, sögur og skáldaðar persónur til að útskýra veraldarskilning minn, þá geri ég það. Hvort ég útskýri alltaf hvort ég sé að notast við líkingar, ævintýri eða raunveruleg dæmi. Nei, þá geri ég það ekki.
Elli, haltu áfram að leika þér. Maður verður gamall þegar maður hættir að leika sér. Það er merkilegt hvað fullorðnir eiga erfitt með að leika sér saman. Erfiðast er að finna sannan leikfélaga sem leyfir leikgleðinni að lifa og ríkja.
Ólöf, við erum hér að leika okkur að hugmyndum. Þótt ég sé aðgangsharður þá er þetta ekki sett fram í neinu fúllyndi eða þurrpumpuskap. Mér finnst einfaldlega sú pæling áhugaverð hvort þeir sem segja börnum sínum ævintýri sem sannleikur væri séu kannski að haga sér á sama hátt þegar kemur að trúnni sem þeir innræta náunganum. Kannski leggur presturinn engan trúnað á það sem hann er að segja, en telur af einhverjum ástæðum hollt og nauðsynlegt fyrir þann sem hann messar yfir að ganga með þessar ranghugmyndir. Af hverju veit ég ekki, en ég get alveg ímyndað mér að þetta sé sífellt að gerast. En reyndar eru guðfræðingar alltaf að verða heiðarlegri í afstöðu sinni, boða stærri og stærri part úr Biblíunni sem myndmál með mórölsk skilaboð. Spurning hvenær þeir munu ganga alla leið og afgreiða upprisuna, guð og guðsson sem líkingamáli líka. Þess verður varla langt að bíða.
Ég er ekki viss um að þessi þróun sem þú lýsir í Biblíutúlkunum sé línuleg. Það gengur í bylgjum í gegnum söguna hvaða skilning guðfræðingar hafa á Biblíunni og hvers kyns túlkanir eru vinsælastar. Það er nú auðvelt að finna presta eins og Thorkild Grosbøll í Taarbæk þannig að tíminn er kominn Birgir.
Iss…ég hefði nú léttilega getað bjargað tannálfinum: “Sko, vegir tannálfsins eru órannsakanlegir. Þó svo að hann hafi ekki gefið þér dollara þá gæti hann haft einhverja rosa góða ástæðu eða þá að tönnin sé ekki nógu góð, eða þá að……”, svona svipað og þegar bænir til guðs virka ekki, þá vantar ekki afsakanirnar 😉
Kostuleg innlegg hjá vantr+uarseggjum, ég segi nú bara ekki annað 🙂…jú kannski þetta: Birgir sýnir okkur hinum hvernig öfgi trúleysis verður til þess að maður fer að hegða sér úr öllu samhengi við tilefnið.ATH frá Ella: Athugasemdum sem bæta engu við umræðuna og er einvörðungu ætlað að gera lítið úr viðmælendum eiga ekki heima á annál Ella.Ég skil ekki upphróp Lalla – hvaða öfgi er það að vera trúlaus? Hvaða samhengi kallar tilefnið á? Munið þið eftir fárinu sem fór af stað þegar sr. Flóki á Hvanneyri sagði krökkum að jólasveinninn væri ekki til? Ég held að uppskrúfuð tánnálfa- og jólasveinarækni sé afsökun fyrir vanrækslu sumra foreldra við börn sín og sýnir vanhæfni þeirra að geta ekki sagt “nei” þegar komið er nóg af hinu góða. Krakkar sem taka ekki þátt í svona geta orðið fyrir einelti vegna afstöðu foreldra sinna, sem eru tilbúin að ganga langt til að verja lífstíl sinn.
Einn verulega góður og umdeildur sem gerir nákvæmlega þetta heitir John Shelby Spong, fyrrv. biskup í Newark, NJ.
Ég skil ekki hvers vegna menn eins og Spong kalla sig “kristna”, fyrst þeir virðast afneita öllum grundvallarkenningum þess sem hefur verið kallað “kristni” síðasta árþúsundið. Annars væri gaman að sjá hvað ykkur annálsmönnum finnst um lista Spongs á Wikipediu úr þessari grein (amk atriði 3 og 6).
Hugtakið kristinn á sér fleiri víddir en hina trúarlegu eins og ég hef bent á hér á vefnum. En ég myndi hins vegar ekki nota það hugtak um hugmyndir Spong. Ég hef ekki kynnt mér hann sérstaklega, frekar en fjölmarga aðra sem hafa skoðanir á trúmálum og ég verð reyndar að viðurkenna að hann er ekki efstur á verkefnalistanum mínum. Í mínum huga er t.d. vantrú.is mun áhugaverðari til skoðunar.
Tal um fórnardauða Jesú er óskiljanlegt nema í ljósi daglegrar friðþægingarfórnar í musterinu í Jerúsalem fyrir 70 e.Kr. Ég mundi nota svipuð orð um fórnardauðann eins og Spong um syndafallið (liður 3), mýta (helgisaga) á tímum frumkirkju, villimannleg vitleysa í ljósi hugmyndasögu nútímans. Málið er að tungutak trúar á sér stað í lifuðu lífi hinna trúuðu. Þegar umheimurinn og hugmyndaheimurinn breytist, breytist trúin.
Hvort Spong hefur leyfi til að kalla sig kristinn eða ekki helgast af því hvort hægt er að teygja trúargrunninn til nútímans eins og hann gerir og hvað það kostar, eins og þú bendir á Hjalti. Án manna eins og Spong eða forgöngumanna hans í kirkjusögunni er hætt við stöðnun eins og við sjáum þar sem bókstafstrú hefur fest sig í sessi.
Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Friðþægingarkenningin bara “villimannleg vitleysa”. Það væri skemmtilegt ef kirkjunnar menn væru að ræða svona hluti opinberlega, þeas hvernig í ósköpunum nútímafólk eigi að trúa á trúarkenningar sem gera ráð fyrir fornaldarheimsmynd (td friðþægingarkenningin og upprunalega syndin). En mér finnst skrýtið að trúin þurfi að breytast. Því að ef trúin byggist á rangri heimsmynd fornaldarmanna, hvers vegna bara ekki að leyfa henni að deyja? Hún er augljóslega vitleysa ef hún byggði á “villimannlegum vitleysum”.
Kirkjunnar menn ræða svona hluti opinberlega. Í hverri viku í kirkjum landsins er leitast við að heimfæra boðskap Biblíunnar til samtímans. Guðsþjónusturnar eru öllum opnar. Hins vegar nálgast ekki allir kirkjunnar menn þetta vandamál á sama hátt. Þannig er ég ósammála því að hafna friðþægingarkenningunni og erfðasyndinni, enda grundvallandi til skilnings á lífi og starfi Krists. Vandinn er að heimfæra þennan veruleika til nútímans, þar sem friðþægingarfórnir tíðkast að jafnaði ekki, alla vega er hugtakið ekki notað. Við erum mishæf til þeirrar heimfærslu en það er verkefnið sem við glímum við.
Góð spurning, Hjalti, af hverju ekki leyfa trúnni að deyja Drottni sínum, fyrst einstaka trúarkreddur orka tvímælis? Kannski sami Drottinn leyfi manni ekki að jarðsyngja hana alveg strax, kannski hægt sé að finna verki Jesú á þessari jörð nýtt samhengi sem hæfir honum betur en það fórnartal, sem Mel Gibson sýndi okkur í milljónum lita á breiðu tjaldi þannig að manni blöskraði. Ég fyrir mitt leyti tek undir það sem Elli segir um verkefni heimfærslunnar. Ég get svosem líka játað það hér á þessum vettvangi að ég teygi mig á stundum langt á jaðra þess sem kallast má kristið … en erfðasynd og friðþægingin eru fyrirbæri sem ég hef átt erfitt með að kyngja í mörg ár.
Halldór, ég held nú að einræðu-predikanir séu ekki góður vettvangur fyrir opinbera umræðu um þessa kenningu kirkjunnar. Nú þegar netið er komið skil ég ekki hvers vegna prestar/kirkjan noti það ekki til þess að ræða svona hluti. Ég veit vel af trú.is, en ég sé ekki mikið af djúpri guðfræðilegri umræðu þar, td man ég ekki eftir því að þar hafi verið rætt um þessa galla við erfðasyndina og friðþæginguna. En ég er hjartanlega sammála þér að erfðasyndin og friðþægingarkenningin eru ekki “einstakar trúarkreddur”, heldur grundvallaratriði. Ég skil ekki hvers vegna “þarf” að finna dauða Jesú eitthvað nýtt hlutverk fyrst að “hið gamla góða” er vitleysa. Ég held að vandinn sé ekki sá að friðþægingarfórnir tíðkist ekki, heldur einfaldlega friðþægingarkenningin er byggð á fornaldarhugmyndum. Amk væri gaman að fá einhver rök fyrir því hvers vegna guð getur ekki bara fyrirgefið fólki án þess að þurfa að drepa eina persónu sína.
Best að gefa eina vísbendingu svona rétt fyrir svefninn, Hjalti. Þú skilur ekki af hverju “”þarf” að finna dauð Jesú eitthvað nýtt hlutverk fyrst að “hið gamla góða” er vitleysa”. Við erum allaf að túlka veruleika okkar upp á nýtt. Hver stóratburður fær okkur til að heimsækja gömul svör við staðalspurningum og endurskoða þau. Það var ekki vitleysa að skoða dauða Jesú í ljósi fórnar, þegar helsta nálgunarleið manna við Guð var fórnfæring dýra. Það væri hinsvegar algjör barbarismi ef ég dræpi lamb á altarinu í kirkjunni minni næsta sunnudag, steikti það og gæfi öllum sem synda- og samfélagsfórn til að blíðka Guð, ekki satt? Ef ég dreg upp hliðstæður dauða Jesú og leikarans í myndinni Jesu de Montreal, hvernig sá leikari lifði áfram í öðru fólki eftir að hann var dáinn … þá er komin nýr túlkunarlykill, sem hugsanlega gengur að trúararfinum … eða ekki.
Þráðarán, Hjalti: Erfðasyndin á netinu: Sigurjón Árni Eyjólfsson í Kistunni Sigurjón Björnsson í Kistunni. Undraheimar Google eru rannsakanlegir 😉
Áskorun Hjalta tekið.