Hvaða leið er fær út úr vandanum í kennaradeilunni? Allir eru sammála um að bæta þurfi kjör þeirra. Rannsóknir sýna að kennarar bera neikvæða arðsemi af menntun sinni. Á sama tíma er ljóst að sveitarfélögin hafa ekki efni á hækkunum. Kostnaðarsamar framkvæmdir víða, smáar og óhagkvæmar starfseiningar annars staðar valda því að sveitarfélögin geta ekki komið til móts við kröfur kennara. Ef kröfur kennara eiga að ná fram að ganga þarf einfaldlega að auka tekjur sveitarfélaganna og stækka starfseiningar.
Að ofansögðu er mikilvægt að áform Ríkisstjórnarinnar um 4% lækkun á tekjuskattsprósentu ríkisins verði keyrð í gegn. Á sama tíma verði Sveitarfélögum veitt heimild til að hækka útsvar sitt í allt að 13,03%. Með þessu móti lækka heildartekjuskattar almennings um tæplega 3% í stað 4%, sveitarfélögin fá í sinn hlut rúman 5 milljarða króna sem mætti eyrnamerkja skólamálum og með því móti mætti auðveldlega koma til móts við kröfur kennara. Ef einhver sveitarfélög teldu sig ekki þurfa slíkt viðbótarframlag þá gætu þau komið til móts við íbúa sína með því að hækka útsvarið ekki. Ég er EKKI kennari en væri til í að taka á mig minni skattalækkun en Davíð og Halldór boða, geti það leyst þessa deilu.
Á sama tíma og þessu aukna fjármagni yrði dælt í grunnskólakerfið þyrfti að sjálfsögðu að einfalda alla starfsstrúktúra kennara, gera launakerfi þeirra gagnsærra og eyða öllum vitleysislegum mínútuútreikningum. Hlutverk yfirmanna á vinnustað ætti að vera að skipuleggja vinnuumhverfi, en ekki aðeins að fylgja eftir fyrirskipunum úr kjarasamningum. Hámenntuðum skólastjórum ætti að vera treystandi til að skipuleggja störf á vinnustaðnum sínum á sama hátt og hverjum öðrum yfirmanni í hvaða öðru fyrirtæki sem er.
Ég tek undir pistils Hrafns Jökullsonar á dögunum þar sem hann lagði til að kennarar fengju laun samkvæmt kjaradómi. Reyndar finnst mér að fólk sem vinnur störf sem eru þess eðlis að verkfall bitnar ekki á launagreiðanda heldur á einhverjum lítilmargna, eigi alls ekki að hafa verkfallsrétt. Það væri mun einfaldara að mið laun kennara, heilbrigðisstarfsfólks o.fl. við laun þingmanna þannig að t.d. kennaralaun verði alltaf x% af launum þingmanna.