Undanfarin ár hef ég tekið þátt í þroskandi og áhugaverðum vangaveltum um stöðu starfsmanna kirkjunnar sem þiggja laun sín frá sóknarnefndum og eru ráðnar af þeim. Hvaða reglur gilda um kjör og almenn réttindi slíkra starfsmanna, þarf hver og ein sóknarnefnd að semja óháð öðrum og fleiri slíkar spurningar hafa vaknað.
Ég rakst á þessa setningu í lögum um stjórn og starfshætti kirkjunnar í dag.
Kirkjuþing skal setja ákvæði um stöðu og störf starfsmanna sókna, þar á meðal organista, í starfsreglur, sbr. 59. gr.
Hefur þetta verið gert með einhverjum þeim hætti að nýtist í ráðningarferli? Spyr sá sem þykist ekki vita. Má t.d. taka upptalninguna hér á eftir:
1. Að leiða söng safnaðarins í helgihaldinu.
2. Leika á hljóðfæri við guðsþjónustur og aðrar athafnir.
3. Sjá um forsöng, hljóðfæraleik og kórstjórn við kirkjulegar athafnir sé eftir því leitað af sóknarbörnum.
4. Sjá um þjálfum kirkjukórs og annarra kóra við kirkjuna í samráði við sóknarprest og sóknarnefnd.
5. Veita leiðsögn og fræðslu, til dæmis fermingarbörnum, um tónlist í helgihaldi í samráði við sóknarprest.
6. Önnur verkefni á sviði tónlistar sem áskilið er af sóknarnefnd.
Verksvið organista skal nánar skilgreint í erindisbréfi, sem sóknarnefnd setur organista, sbr. 7. gr.
og segja að organisti í 100% starfi eigi að annast öll þessi verkefni við kirkjuna. Getum við sagt að sóknarbörn geti gengið að slíkum organista án endurgjalds til að annast forsöng, hljóðfæraleik og kórstjórn við kirkjulegar athafnir. Á slíkur organisti að komast yfir að þjálfa kirkjukórinn, barnakórinn, unglingakórinn, bjöllukórinn og drengjakórinn ef einhver söfnuður kýs að bjóða upp á allt þetta starf.
Nei, slíkt er óraunhæft. Kirkjuþing ber samkvæmt lögum að setja ákvæði um stöðu starfsmanna. Ekki bara almennt snakk heldur pappíra sem nýtast við ráðningarferli og mynda grunnramma um störf kirkjulegra starfsmanna.