Fyrir næstum tveimur árum skrifaði ég færslu hér á vefinn um Hátíð vonar þar sem ég hélt uppi vörnum gegn því sem ég taldi ómálefnalega gagnrýni á verkefnið. Nú tveimur árum síðar sé ég að ákvörðun mín um að skrifa þessa færslu var röng og gaf röng skilaboð.
Þau okkar sem standa utan við og til hliðar við sorgina og höfnunina sem felst í orðum og hegðun manna eins og Franklin Graham, höfum ekkert með að gera lítið úr sársaukanum og sorginni sem orð hans valda. Franklin Graham er ekki aðeins maður haturs í garð þeirra sem ekki hugsa eins og hann. Franklin Graham leitast við að lítillækka og meiða þá sem deila ekki skoðunum hans. Þá hefur hann ítrekað á síðustu árum skrumskælt sannleikann um réttindabaráttu þeirra sem veikar standa í samfélaginu.
Um leið og ég fagna enn þeirri ákvörðun kristinna hópa á Íslandi að sameinast um verkefni eins og Hátíð vonar, þá var rangt af mér að halda uppi vörnum fyrir hátíðina í ljósi þess að Franklin Graham talaði þar.
Það er EKKI alltaf auðvelt að vera vitur eftir á, endurskoða og glíma við eldri skoðanir sínar, en það er stundum nauðsynlegt.