Upphaflega birt í Morgunblaðinu föstudaginn 2. maí 2014.
Ljósmóðirin spurði okkur hvort að læknanemi í starfsnámi mætti vera viðstaddur fæðingu sonar okkar. Okkur fannst það sjálfsagt og ljósmóðirin gekk fram á ganginn til að bjóða læknanemanum inn. Þegar hann gekk inn á stofuna kynnti hann sig og við kynntum okkur. Hann leit á mig og spurði: „Varst þú ekki foringi í Vatnaskógi þegar ég var strákur?“
Í ár verða liðin 23 ár* síðan ég vann fyrstu vikuna mína í Vatnaskógi. Ég hef staðið ótal vaktir við Eyrarvatn og fylgst með drengjum leika sér á vatninu, dæmt knattspyrnuleiki í hundraðatali, kennt og stýrt frjálsum íþróttum, annast Biblíulestra, huggað drengi með heimþrá, sagt sögur og brandara fyrir svefninn, séð um bænastundir, spilað körfubolta, leikið í leikritum, stjórnað kvöldvökum, leitt gönguferðir og tekið undir fjöldasöng. Á þessum tíma hafa þúsundir drengja og stúlkna verið í Vatnaskógi á sama tíma og ég, fyrst og fremst í sumarbúðum en einnig á fermingarnámskeiðum, æskulýðsmótum og kirkjuferðum.
Áður en ég varð starfsmaður, var ég drengur í sumarbúðunum. Ég fór árlega í fleiri ár. Ég tók þátt í hermannaleikjum, fór í ævintýraferðir um skóginn, lærði að fletta upp ritningarversum í Biblíunni, tók þátt í spurningakeppnum, lærði að kasta spjóti og kringlu og spilaði borðtennis. Dvöl mín í Vatnaskógi mótaði líf mitt, hjálpaði mér að skilja hver Guð er og opnaði augu mín fyrir sköpunarverki Guðs.
Ég er samt ekki einn um að hafa orðið fyrir áhrifum af dvölinni í Vatnaskógi. Þegar ég hitti einstaklinga sem hafa upplifað sumarbúðadvöl í Vatnaskógi, þegar ég er spurður af fullorðnum körlum, hvort sem er við sundlaugarbakka í Norður Karólínu, í Kringlunni eða á fæðingardeildinni: „Varst þú ekki foringi í Vatnaskógi þegar ég var strákur?“ Þá skynja ég gleði, þrá eftir ævintýrunum, minningar um frábæra viku á stórkostlegum stað.
Í sumar gefst mér enn á ný tækifæri til að dvelja að sumarlagi í Vatnaskógi. Að þessu sinni sem forstöðumaður í 6 vikur, með ábyrgð og yfirumsjón með starfinu á vettvangi. Þó er meira um vert að sonur minn fær í fyrsta sinn tækifæri til að upplifa það sem ég upplifði sem barn. Og það sem læknaneminn sem var viðstaddur fæðingu hans upplifði í sinni æsku. Í sumar fer sonur minn í fyrsta skipti í vikuflokk í sumarbúðunum.
Það að vera forstöðumaður í Vatnaskógi er mikill heiður sem og tækifæri til að móta starfið og staðinn sem mótaði mig. Það er líka heiður af því trausti sem foreldrar sína mér og öðru starfsfólki sumarbúðanna þegar þeir treysta okkur fyrir börnum sínum. Við sem komum að starfinu í sumar lofum því að vera traustsins verð, gera dvölina í sumar að lífsbreytandi ævintýri, með spennandi áskorunum, skemmtilegri og vandaðri dagskrá og faglegum vinnubrögðum.
* Þegar greinin birtist í Morgunblaðinu skrifaði ég ranglega að það væru liðin 24 ár síðan ég vann fyrst í Vatnaskógi.
Góður pistill!