Við höfum verið að horfa á Boardwalk Empire hér á heimilinu síðustu vikur og erum núna að nálgast lok annarrar þáttaraðar. Í henni gegnir James Darmody eða „Jimmy“ mikilvægu hlutverki og hefur þegar nú er komið sögu í áhorfi okkar náð öllum völdum í Atlantic City. Hans tími er kominn.
Þrátt fyrir að hafa verið við nám í virtum skóla (Princeton), reyndar án þess að ljúka prófum, þá er hann ungur og næsta reynslulaus. Hirðin í kringum hann fer sínu fram og þó Jimmy leitist við að halda sínum nánustu mönnum góðum, þá eru þeir ekki tilbúnir að verja hann.
Vandamálin raðast upp, Jimmy hefur ekki nauðsynlega yfirsýn, skortir reynslu og þekkingu. Við vitum að þetta fer illa, draumsýn um Jimmy um að verða leiðtoginn sem lagar allt sem miður fer, mun aldrei ganga upp. Hann hefur ekki stuðninginn sem hann þarf, samstarfsfólk hans er sundurleitt og virðing lykilmanna sem hann þarf á að halda er ekki til staðar. Ef til vill er Jimmy ekki nægilega gáfaður þrátt fyrir árin í Princeton.
Samtöl Jimmy við hirðina sína snúast um fullyrðingar um að ástandið sé öðruvísi en það er. Hann rembist eins og rjúpan við staurinn við að láta mistök líta út fyrir að vera hluti af áætlunum sínum.
Þrátt fyrir að Jimmy sé algjörlega óhæfur til að takast á við hlutverk sitt, þá finn ég til með honum, ég hef engar væntingar um árangur, en ég hef skilning á stöðu hans og mér líkar vel við hann.
Líklega líkar mér við hann og finn til meðaumkunar vegna þess að Jimmy er ekki í sífellu að benda á sökudólga og reyna að koma sökinni á vanmætti sínum á aðra. Vissulega reynir hann að endurskilgreina hugtök, orð og gjörðir, en við þurfum ekki að hlusta á vælið og barnalegar afsakanir um að hinir séu vondir líka.
Saga Jimmy Darmody er alltaf að endurtaka sig. Óhæft fólk kemst lengra, með og án prófgráða, en það ræður við. Út um allt eru óhæfir einstaklingar sem skortir reynslu, þekkingu, yfirsýn og virðingu þeirra sem í kringum þá eru.
Það sem skilur á milli þess hvort okkur geti líkað vel við viðkomandi felst í spurningunni um sökina. Ef stjórnmálamenn og leiðtogar telja að vandamálið felist í spurningum fjölmiðla en ekki í eigin svörum, þá er erfitt að líka við viðkomandi. Ef vandamálið er það að allir misskilji þig, en ekki það að útskýringar þínar séu óskiljanlegar, þá er erfitt að finna til með þér.
Jimmy Darmody kláraði ekki námið sitt, en ákvað að freista gæfunnar á annan hátt. Hann komst á toppinn, var um tíma sagður aldamesti maður Atlantic City. Hann hafði samt lítil raunveruleg völd, því hann hafði ekki yfirsýnina og gáfurnar sem þurfti til að taka ákvarðanir og ná árangri. En þrátt fyrir vanhæfnina þá líkaði mér vel við hann, líklega vegna þess að hann kenndi ekki öðrum um eigin vanhæfni.