Upptalning þriðja Jesaja á óréttlætinu sem mótar líf okkar er kunnugleg.
Enginn kærir vegna rétts málstaðar
og enginn fer í mál af heilindum,
menn treysta fánýti og fara með þvaður,
ganga með fals og fæða illgjörðir.
…
Vér höfum oft brotið gegn þér
og syndir vorar vitna gegn oss.
Þar sem afbrot vor eru stöðugt hjá oss
þekkjum vér syndir vorar.
Vér höfum risið gegn Drottni og afneitað honum,
snúið frá fylgd við Guð vorn,
hvatt til ofbeldis og svika,
alið á lygum í hjarta og boðað þær.
Þannig er rétturinn hrakinn burt
og réttlæti stendur víðs fjarri
því að sannleikurinn hrasaði á torginu,
hreinskilnin komst ekki að.
Sannleikann er hvergi að finna,
sá sem forðast illt verður rændur.
Guð mun þurfa að grípa inn í atburðarásina. Guð mun koma og takast á við óréttlætið. Það er mat þriðja Jesaja að við munum uppskera eins og við sáum. Að Guð muni gjalda okkur í samræmi við verk okkar. Iðrun er samt nauðsynleg. Við þurfum að hverfa frá syndum okkar.