Jesaja 41. kafli

Óttast eigi því að ég er með þér,
vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð.
Ég styrki þig, ég hjálpa þér,
ég styð þig með sigrandi hendi minni.

Í minningunni er síðasta línan önnur. „Ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ Stóð í Biblíuþýðingunni sem ég notaði sem unglingur. Í ensku NRSV þýðingunni er það „sigrandi hægri hönd minni“. 

Ég hélt mikið upp á þennan texta sem unglingur, þetta er eiginlega hinn textinn sem ég elskaði að vísa til. Báðir textarnir, þessi og Jeremía 29.11, eiga uppruna sinn í samfélagi sem hefur tapað, er í niðurlægingu, í útlegð.

Eina leiðin er upp á við, svartsýni og hræðsla er ekki lengur í boði. Ísraelsþjóðin í útlegð gat valið um að hverfa eða ganga fram í djörfung, ganga fram í krafti þess að þrátt fyrir allt þá væri Guð með.

Jafnvel þó þjóðin væri lítið meira en ormur eða maðkur, þá gat hún valið að treysta á Drottin, sem mörgum fannst sjálfsagt að bæri ábyrgð á ástandinu eða blandast þeim samfélagsstraumum sem komu og fóru á svæðinu.

Það er kraftur í fyrirheitunum sem spámennirnir gefa fyrir hönd Guðs. Kraftur sem er oft erfitt að sjá í samfélögum sem „hafa allt“, kraftur sem e.t.v. heyrist ekki þegar við búum við alsnægtir og teljum okkur ekki þurfa á fyrirheitum að halda, við eigum nefnilega allt.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.