Spádómsbók Jesaja er eitt af lykilritum Gamla testamentisins, ekki síst fyrir kristna, enda fjölmargar vísanir til frelsarans sem hafa verið lesnar sem spádómar um líf og starf Jesú Krists. Almennt er talið að ritið sé a.m.k. þrískipt og í því samhengi talað um Jesaja, Deutero-Jesaja og Trito-Jesaja.
Þessir þrír spámenn eða samfélagsgagnrýnendur öllu heldur, því spámenn Gamla testamentisins eru fyrst og fremst samfélagsrýnar sem litu á það sem hlutverk sitt að kalla Ísraelsþjóðina til iðrunar og hlýðni við vilja Guðs, koma úr sömu guðfræðihefð, en skrifa spádóma sína á mismunandi tímabilum í sögu Ísraelsþjóðarinnar. Þannig er fyrsti Jesaja talinn hafa verið uppi á 8. öld fyrir Krist og skrifað á þeim tíma kafla 1-39. Annar Jesaja var líklega samtímamaður Jeremía og skrifar kafla 40-55 í tíð herleiðingarinnar til Babýlon. Textar þriðja Jesaja eru síðan nokkuð yngri og skrifaðir eftir herleiðinguna eða á síðustu áratugum 6. aldar fyrir Krist. Auðvitað er ekkert sem segir að þessir textar séu ekki enn fjölbreyttari og það má vel ímynda sér að annar og þriðji Jesaja séu skrifaðir af skólum frekar en einstaklingum.
Jesaja Amotsson sem bókin er kennd við, er í fyrsta versinu sagður hafa verið uppi í stjórnartíð Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía. Ússía er lést árið 738 fyrir Krist og Hiskía var konungur Júda á árunum 715-687 fyrir Krist, sem gefur nokkuð glögga mynd af því hvenær fyrsti Jesaja var á ferðinni.
Jesaja hefst á kalli til iðrunar. Stefi sem ég hef margoft nefnt. Guð er þreyttur á brennifórnum, hátíðum og reykelsum. Drottinn kallar þjóð sína til iðrunar og breyttrar hegðunar.
Þegar þér lyftið höndum yðar í átt til mín
loka ég augunum
og þótt þér biðjið margra bæna
heyri ég ekki.
Hendur yðar eru ataðar blóði.
Þvoið yður! Hreinsið yður!
Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum.
Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar.
Vandamál samfélagsins felst í mútuþægni og spillingu. Réttlætið hefur gleymst í keppni um fallega garða og vel snyrt tré. Þetta verður ekki alltaf svona skv. orðum Jesaja, réttlætið mun sigra.
Síon verður frelsuð með réttvísi
og með réttlæti þeir sem iðrast.
En lögbrjótar og syndarar verða upprættir
og þeim sem yfirgefa Drottin verður eytt.