Umfjöllun um holdsveiki heldur áfram. Nú er áherslan á formlegt ritúal eftir að einstaklingur hefur læknast af veikinni. Eins og áður er gert ráð fyrir að fórnargjafir séu í samræmi við fjárhagslega burði þess sem læknast hefur. Það er líka mikilvægt að skilja að helgihaldinu sem er lýst hér er ekki ætlað að vera töfralækning, heldur einvörðungu formleg staðfesting á að viðkomandi einstaklingur sé orðinn hreinn.
Síðari hluti kaflans fjallar síðan um viðbrögð við myglu í húsum. Leiðbeiningarnar eru gildar enn í dag. Fyrst er skoðað hvar myglan er, því næst er beðið í sjö daga til að sjá hvort hún sé að breiðast út. Að sjö dögum loknum er myglusvæðið fjarlægt og bætt, síðan er kalkað og vandamálið leyst.
Myndist holdsveikiskella aftur og breiðist út um húsið eftir að steinarnir hafa verið rifnir burt og húsið hefur verið skafið og kalkað að nýju, skal presturinn koma aftur til að skoða það. Staðfesti hann að skellan hafi breiðst út um húsið er þetta illkynjuð holdsveiki á húsinu. Það er óhreint. Þá skal rífa húsið og flytja alla steina, við og kalk úr því út fyrir borgina á óhreinan stað.
Í öryggisskini þurfa þeir sem í húsið koma að þvo föt sín eftir heimsókn. Fyrir þá sem þekkja til myglu í húsum, þá er í sjálfu sér fátt sem kemur á óvart í þessum a.m.k. 2.500 ára gamla texta.
Að lokum er að sjálfsögðu gert ráð fyrir formlegu helgihaldi til að staðfesta, ef að húsið hefur verið dæmt hreint.