Markúsarguðspjall 5. kafli

Hér ágerist stefið um hættulegu breytingarnar. Þegar Jesús stígur úr bátnum mætir honum sinnisveikur maður (haldinn illum öndum). Veikindi hans eru vel þekkt. Hann ræður ekki við sig, hann hrópar og stundar sjálfsmeiðingar. Þegar veiki maðurinn sér Jesús óttast hann að nú séu breytingar framundan.

Veiki maðurinn fellur fram fyrir Jesú og biður hann um að kvelja sig ekki, senda sig ekki á braut. Jesús bregst við, rekur illu andana úr veika manninum og í svínahjörð sem er nærri. Svínin tryllast og hlaupa í nálæga á og drukkna. En svínin eru ekki veigamikill hluti af sögunni. Það er ekki vegna grísadráps sem þorpsbúar verða skelkaðir, nei.

Menn fóru þá að sjá hvað gerst hafði, komu til Jesú og sáu óða manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir.

Það er sú staðreynd að sinnisveiki maðurinn er klæddur og komin á ról, er orðin heilbrigður, sú staðreynd hræðir. Hvað þýðir að þessi veiki maður, sem við vorum búin að afgreiða sem vesen, er allt í einu einn af okkur. Allar breytingar eru hættulegar, óþægilegar og erfiðar.

Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.

Í tengslum við nokkur önnur kraftaverk í Markúsarguðspjalli, þá sér Jesús ástæðu til að segja lærisveinum sínum að tala ekki um það sem gerðist. Það er áhugavert að hér segir Jesús þeim sem áður var sinnisveikur að fara heim til síns fólks og

seg þeim hve mikið Drottinn hefur gert fyrir þig og verið þér miskunnsamur.

Þrátt fyrir að við óttumst flest breytingar, þá leitum við að von fyrir okkur sjálf, þó við séum e.t.v. drulluhrædd um að í voninni felist breytingar. Þannig flyktist að mikill mannfjöldi hvar sem Jesús fór.

Það er þó í einum aðstæðum þar sem við fögnum breytingum, þegar við skellum í botninn. Þegar við höfum enga aðra leið. Á fagmáli stjórnunarfræðanna er talað um mikilvægi þess að skapa (og afsakið enskuslettuna) „Urgency“ ef ætlunin er að fá fram breytingar í skipulagsheildum. Ef ekki er til staðar viðvarandi hættuástand (e. urgency), munu breytingar vart ná fram að ganga.

Samkundustjórinn Jaríus hefur náð botninum. Dóttir hans er að dauða kominn. Hann er tilbúin til að gera allt. Sömuleiðis konan sem hafði kostað aleigunni í að leita bata. Svar Jesú til þeirra beggja er

óttast ekki, trú þú aðeins.

Svar í anda Peter Gabriel og Kate Bush, „Don’t Give Up“.

Jesús kemur inn á heimili sorgar og gráturs. Heimilisgestir hlæja að honum, hann er of seinn. Jesús lætur ekki segjast gengur inn til látinnar dóttur

og sagði: „Talíþa kúm!“ Það þýðir: „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“

Þegar stúlkan rís upp verða allir frá sér numdir af undrun. En í breytingarferli, þegar allt virðist í uppnámi þá er mikilvægt að tapa sér ekki alveg. Þannig er sagt að Jesús hafi haldið „cool-inu“ og

bauð að gefa henni að eta.

One thought on “Markúsarguðspjall 5. kafli”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.