2. Mósebók 35. kafli

Þessi texti er um margt eins og textinn í 25. kaflanum, enda er greinilega verið að fjalla um sama viðburðinn. Í 25. kaflanum er YHWH að tilkynna Móse hvers hann óskar, en að þessu sinni er Móse að flytja boðin áfram til Ísraelsþjóðarinnar.

Það var nefnt í 25. kaflanum, að afgjaldið þyrfti að vera af fúsum vilja, og sú áhersla er enn skýrari hér.

…Sérhver skal færa Drottni gjöf eftir því sem hjarta hans býður honum…

…Þá komu þeir aftur sem gefa vildu af fúsum hug og af frjálsum vilja…

…Allar konur, sem fúsar voru til og höfðu til þess kunnáttu,…

…Sérhver karl eða kona, sem fús var til, kom með það af frjálsum vilja sem þurfti til verksins…

Þannig fær textinn hér á sig annan blæ, en textinn í 25. kaflanum. Afgjald er annað en sjálfboðið framlag, jafnvel þó afgjaldið sé greitt af fúsum hug.

Það má því segja að við höfum a.m.k. þrjár mismunandi guðfræðilegar nálganir að því þegar Móse kemur með sáttmálann eða boðorðin til Ísraelsþjóðarinnar hér í 2. Mósebók.

  • Í 20. kaflanum er lögð áhersla á rétta breytni gagnvart náunganum, sjálfum sér og YHWH, helgihaldið skiptir ekki öllu máli.
  • Í 25. kaflanum og næstu köflum er áherslan á að einvörðungu með réttu helgihaldi og afgjaldi til helgihaldstæknanna sé YHWH sáttur og glaður.
  • Í 35. kaflanum sjáum við fyrst og fremst þakklæti til YHWH fyrir þann sáttmála sem hann hefur gefið fólki sínu. Þakklæti sem brýst út í glæsilegu helgihaldi og þátttöku safnaðarins.

Og þannig er þetta víst ennþá. Enn í dag sjáum við þessar mismunandi áherslur brjótast fram í trúfélögum samtímans, þó auðvitað breyturnar séu miklu fleiri.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.