Ég gleymdi víst að nefna það í tengslum við 32. kafla, að þegar Móse kom niður af fjallinu og sá Gullkálfinn varð honum svo mikið um að hann braut steintöflurnar sem YHWH hafði gefið honum með boðorðunum.
Móse fer því á ný til móts við YHWH að fá nýjar steintöflur. Samspilið milli YHWH og Móse er áfram óskýrt, hvar Móse hættir og YHWH tekur við. Við sáum skýrt í 32. kafla að fólkið átti erfitt með að greina á milli.
Móse fær YHWH til að gera formlegan sáttmála við þjóð sína. Um leið er þjóðinni bannað að gera sáttmála við aðrar þjóðir. Það er ekki hægt að mæta í Nike bol á fréttamannafund ef maður er samningsbundinn Adidas.
Þessi texti leggur áherslu á hreinleika Ísraelsþjóðarinnar, öll samskipti við aðra eru óhrein. Þeim er gert að rífa niður trúartákn annarra þjóða, hjónabönd eiga að vera innan hópsins. Hátíðir hópsins eru skilgreindar og krafa um hlýðni við hefðir er skýr.
Auglit Móse ljómar þegar hann segir frá sáttmálanum við YHWH, auglit Guðs eða manns?