Er ekki verið að grínast. Nú þegar búið er að gera kröfu um tjaldbúðina, þegar búið er að setja upp kerfi þar sem prestarnir hafa aðgang að miklu magni af mat og kjöti, þá er aðeins eitt eftir, eða hvað:
Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun þeirra skal sérhver greiða lausnargjald til Drottins fyrir líf sitt þegar þeir verða kannaðir svo að ekki komi nein plága yfir þá vegna könnunarinnar. Hver sá sem gengur yfir til þeirra sem taldir hafa verið, skal greiða hálfan sikil miðað við þyngd helgidómssikilsins, það er tuttugu gerur í sikli, hálfan sikil til Drottins. Hver, tuttugu ára og eldri, sem gengur yfir til þeirra sem taldir hafa verið, skal greiða afgjaldið. Ríkur maður skal ekki greiða meira og fátækur ekki minna en hálfan sikil þegar þið friðþægið fyrir líf ykkar til Drottins. Þú skalt taka við lausnargjaldinu frá Ísraelsmönnum og nota það til að greiða fyrir þjónustuna í samfundatjaldinu. Það á að minna Ísraelsmenn á frammi fyrir augliti Drottins og friðþægja fyrir líf ykkar.“
Til að styrkja helgihaldsbransann er komið á árlegum nefskatti. Upphæðin virðist ekki gífurlega há, hálfur síkill er líklegast um 8 grömm silfurs, kannski 1.000 krónur að núvirði, en hins vegar er þarna komið á trúariðnaði sem ekki var til staðar áður, alla vega ekki á sama hátt.
Sérstakur aðgangur að rennandi vatni fyrir prestana fylgir trúariðnvæðingunni. Prestarnir þurfa sérstakar ilmolíur, sérstök reykelsi ætluð prestunum og svo má halda áfram.
Spurningin mín er sú sama og spámannanna sem við lesum um síðar. Hvernig dettur þeim í hug að þetta sé Guði þóknanlegt?
“Hvernig dettur þeim í hug að [kjör ríkiskirkjupresta] sé Guði þóknanlegt?”