Eg man þegar mér var í fyrsta sinn bent á að hvalurinn sem gleypti Jónas væri ekki í sögunni, enda hefði Jónas verið gleyptur af risafisk og allir vita sem er að hvalir eru ekki fiskar. Þá var því og haldið fram að ástæða þessa ruglings væri að Gosi (e. Pinocchio) úr sögu Carlo Collodi hefði verið gleyptur af hval og þessar sögur hefðu runnið saman.
Nú þegar ég er eldri, þá er ég ekki lengur viss um að vitneskjan um muninn á hvölum og fiskum sé jafn algeng og haldið var fram. Eins hef ég ástæðu til að áætla að William Tyndale hafi ekki stuðst við ítölsku söguna um Gosa þegar hann þýddi Biblíuna á ensku 1534 og talaði um hval. Líklegra er að Carlo Collodi hafi einmitt notast við minni úr sögunni um Jónas þegar hann sagði frá spýtustráknum.
En þetta er svo sem ekki aðalatriði sögunnar, Jónas lendir í hyldýpinu og dvelur þar í þrjá daga og þrjár nætur. Tenging við orðin „reis á þriðja degi“ í trúarjátningunni og í upprisufrásögu Jesú er ekki tilviljun.
Í eymdinni og ömurleikanum, úr hyldýpinu er einungis ein leið fær. Jónas játar vanmátt sinn og horfist í augu við að geta ekki náð sér úr eymdinni á eigin spýtur. Tengingin við AA og æðruleysisbænina er heldur ekki tilviljun.
Í kjölfar játningarinnar, spýr fiskurinn Jónasi á land.