Heimsendaspár

Uppkast að innleggi á kristilegu stúdentamóti í mars 2013.

Áður en við getum rætt tákn og fyrirboða um heimsendi í Biblíunni, er nauðsynlegt að tala aðeins um Biblíuna, Biblíulestur og Biblíuskilning.

Þið þekkið öll Sálm 121, við lesum hann oft og notum í tengslum við … hvað. – Lesa Sálm 121 – Hvað segir þessi texti okkur, af hverju horfir sálmaskáldið í fjöllin. Hvernig líður okkur?

Annað dæmi sem þið hafið sum heyrt mig taka er frásagan af Eyri ekkjunnar. – Lesa frásögnina tvisvar –

Þriðja dæmið sem áhugavert er að taka eru spádómar í Gamla testamentinu um Jesú Krist og samspil þeirra við guðspjöllin.

Þessi þrjú dæmi eru ágæt um hvernig textar geta haft margræðar merkingar. Stundum er talað um að textar hafi margar merkingar, margvíslegan tilgang. Það eru til margar leiðir til að flokka slíkar merkingar, sumar betri en aðrar, en þar sem ég er í sjálfu sér hvorki Biblíu- né bókmenntafræðingur vil ég nota fremur einfalt módel hér.

Við höfum hugmynd höfundarins um það sem hann skrifar.
Við getum velt fyrir okkur hvaða skilning þeir sem skrifað var fyrir hafa.
Við höfum túlkun hefðarinnar/hefðanna
Við höfum okkar eigin upplifun af textanum.

Í postmodernisma myndum við segja að allar þessar leiðir til að skilja textann séu jafngildar. Höfundur sem skrifar texta og leyfir öðrum að lesa, missi um leið réttinn til að segja hvað sé réttur skilningur á textanum. Textinn hafi eigið líf.

Þegar kemur að Biblíutextum verður þetta enn flóknara (eða hvað), þar sem nú spilast inn í pakkann einhverskonar Guðlegur kraftur, eða öllu heldur Heilagur Andi, Guð sjálfur. Textinn er ekki tilraun til að leita Sannleikans með stóru S-i, heldur vitnisburður um sannleikann eða að sumra mati sannleikurinn sjálfur. Hvað gerist þá ef textinn á eigið líf og margar mismunandi leshefðir?

—-

Opinberunarbókin er þekktasta „endatímaverk“ heimssögunnar. Bókin er líklega skrifuð af einstakling í Jóhannesarsöfnuði sem virðist í útlegð á eyjunni Pathos vegna trúar sinnar. Sumir fræðimenn telja um Jóhannes sjálfan að ræða, lærisveininn sem Jesú elskaði, ungan dreng sem eins og við munum hleypur mun hraðar en Pétur lærisveinn og er á allan hátt, yfirvegaðri og rólegri en Pétur alla vega að eigin sögn í Jóhannesarguðspjalli.

Fleiri fræðimenn telja þó að Jóhannes lærisveinn sé ekki ritari opinberunarbókarinnar og geta bent á fjölmargar ástæður fyrir því. Umræðurnar um höfundinn eru enda a.m.k. 1700 ára gamlar.

Segja má að nútímaskilningur á bókinni sem einhverskonar lykli að bókstaflegum skilningi á heimsendi, nái fyrst almennri fótfestu í BNA á 19. og í upphafi 20. aldar. Þó auðvitað hafi á mismunandi tímum miklu fyrr margt verið spáð og spekúlerað. En þessi endurnýjaða og aukna áhersla sem verður í BNA á sér helstar tvær skýringar.

Á þessum tíma eru hugmyndir upplýsingar í hámarki, hugmynd um að hægt sé að skilja og greina allt í eindir og ná fram endanlegum sannleika í öllum málum. Ef við bara lesum rétt, notum þekkingu okkar og gáfur, þá komumst við í öllum málum að réttu niðurstöðunni. Hin vísindalega aðferð um að leiðin til að borða fíl sé að skera hann í nógu litla bita, var talin algild í öllum hlutum, meira segja þegar kemur að Guði.

Við þetta var því að bæta að í óörygginu í nýja heiminum, voru ekki alltaf til staðar trúarlegar stofnanir til að marka og móta lífshlaup einstaklinga. Menntaðir prestar og guðfræðingar voru ekki þeir sem fluttu í óvissuna í nýja landinu, heldur þvert á móti þeir sem höfðu litlu að tapa. Af þessum sökum var guðfræðihefðin í BNA mótuð, sérstaklega er leið á 19. öldina, af markaðslögmálum afþreyingariðnaðarins. Það sem hljómar best og vekur mest viðbrögð vinnur.

Lítt menntaðir karísmatískir prédikarar ferðuðust um, sögðu sögur og túlkuðu texta til að vekja hughrif og stemmningu, sumar túlkanir náðu fótfestu, aðrar ekki. Þetta á auðvitað enn við í dag, en burthrifningarkenningar náðu t.d. ekki fótfestu í kristnum mainstream kirkjum svona almennt í BNA fyrr en með útgáfu „Left Behind“ skáldsagnaseríunnar.

Grunnur að starfi þessara prédikara byggði á mjög valkvæðri Biblíuþekkingu og túlkunum á textum sem byggðu fyrst á fremst á markaðslögmálinu, hafa skal það sem betur hljómar. Auðvitað erum við öll valkvæð í Biblíuskilningi, ekki síst þeir sem kalla sig bókstafstafstrúar.

Lífið í nýja landinu var erfitt og draumurinn um fyrirheitna landið, sem e.t.v. var ástæða þess að fólk flutti til Ameríku í upphafi, rættist ekki alltaf, kannski sjaldnast. Uppskerubrestur, barnadauði og veðravíti voru ekki síður til staðar í fyrirheitna landinu en áður og stuðningurinn af stórfjölskyldu eða ættinni var ekki til staðar. Að flytja til fyrirheitna landsins og hafa það áfram skítt, var gróðrarstía fyrir heimsendaspár, þar sem við loksins myndum fara til góða góða góða fyrirheitna landsins. Áherslan var, næst þegar við flytjum, þá verður allt gott. Einhvers konar Bróðir minn Ljónshjarta á sterum.

Opinberunarbók Jóhannesar er skrifuð inn í aðstæður kúgaðs samfélags sem sér fram á betri tíð með endurkomu Krists, hún er skrifuð á mýstískan hátt, full af flóknu myndmáli og hentaði gífurlega vel sem grunnur að nýjum sögum um endalokin. Henni til stuðnings var hægt að grípa í vers, hér og þar, til að túlka og teikna myndir af næstu ferð til fyrirheitna landsins og það var svo sannarlega gert.

Enda miklu þægilegri heimsmynd að trúa því að næsta bókstaflega ferðalag færi okkur inn í Guðsríkið, en að leitast við að láta réttlætið renna fram hér og nú, enda fundu sig væntanlega flestir á þessum tíma ósjálfbjarga og varnarlausa gagnvart þeim hættum og ógnum sem steðjuðu að.

Vandinn við þetta er hins vegar að opinberunarbókin var skrifuð inn í ákveðnar skilgreindar aðstæður, fyrir ákveðinn skilgreindan hóp. Táknmyndirnar sem koma fyrir voru þekktar af þeim sem hlustuðu á lestur hennar í upphafi. Gott dæmi er að tala Antikrists 616 eða 666 (eftir handritum), var hugsanlega dulkóðun eða tölugildið á nafni starfandi keisara, byggt á þekktri talnaleikfimi þess tíma.

Opinberunarbókinni er ekki ætlað að segja okkur hvað gerist við enda tímanna. Vísanir til eldsumbrota og jarðhræringa er vísun til þekktra atburða sem umbreyta stöðu og lífi þeirra sem það upplifa. Ástæða táknmyndanna var ekki krýptísk tilraun til að spá fyrir um atburði framtíðar, heldur leið til að gefa von um framtíð án ofsókna af hendi keisarans, í umhverfi þar sem gagnrýni á keisarann var dauðasök.

Auðvitað er þetta einföldun, en hún er mun nærri lagi en það sem við sækjum í misgóðar skáldsögur og túlkanir skemmtikrafta í BNA á 19. og 20. öld.

Eina raunverulega heimsendaspáin sem við getum horft til er í Mt 24-25, vonin um að réttlætið muni sigra.

Eina raunverulega táknið um endatímana hefur komið fram, Guðsríkið hefur brotið sér leið inn í hið veraldlega nú þegar. Táknið er fæðing, dauði og upprisa Jesú Krists, ákall til okkar um að láta Guðsríkið taka yfir hér og nú, hið fagra, góða og fullkomna.

One thought on “Heimsendaspár”

  1. “Opinberunarbókinni er ekki ætlað að segja okkur hvað gerist við enda tímanna. ”

    “Eina raunverulega heimsendaspáin sem við getum horft til er í Mt 24-25, vonin um að réttlætið muni sigra.”

    Það væri gaman af fá meiri útskýringar á þessu. Er Opinberunarbókin ekki einmitt að segja okkur hvað muni gerast við enda tímana (þó svo hún geri það í myndmáli)? Vissulega er hægt að sjá ýmsar félagslegar ástæður fyrir svona bókmenntum (kúgun og svo framvegis) og svona boðskap, en það breytir ekki boðskapnum sjálfum.

    Af hverju eru heimsendaspárnar utan Mt 24-25 ekki “raunverulegar heimsendaspár”?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.