Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“
Það glittir í von hjá Jeremía, þrátt fyrir að þjóðin hafi verið send í útlegð, þá er von. Drottinn hefur ekki yfirgefið sitt fólk. Það verður nýtt upphaf.
Enn á sama tíma varar Jeremía við svikulum spámönnum sem spá gegn greiðslu, spinna upp sögur, styðja við illvirkja með orðum sínum.
—
Er ég aðeins Guð í nánd? segir Drottinn,
en ekki Guð í fjarlægð?
Þessi texti Jeremía er stórkostlega mikilvægur, enda minnir hann á stórbrotna og fjölþætta Guðsmynd Ísraelsþjóðarinnar. Drottinn (YHWH) er ekki einvörðungu Guð sem gengur í kvöldsvalanum, heldur og sá sem svífur yfir vötnunum og skapar.