U-ið

Ég vinn fyrir æskulýðshreyfingu, sem er viðeigandi enda á ég ennþá nokkra mánuði í fertugt. Á vettvangi vinnunnar minnar glími ég oft við hvað það merkir að vera hluti af KFUM og KFUK hreyfingunni, hvað skammstöfunin merki í raun.

Nálgun mín gagnvart U-inu er að það gefi skilaboð um að við séum enn að þroskast, við séum að læra og við gerum mistök. Ég hef þannig væntingar gagnvart umhverfinu sem ég vinn í að það sé vettvangur fyrir nýsköpun, tilraunir og klúður. Það er nefnilega trú mín að bara þannig lærum við og þroskumst, færumst nær því að verða fulllorðin, sem þó vonandi gerist aldrei.

Þegar ég vinn hjá félagasamtökum sem kenna sig við ungt fólk skil ég það sem yfirlýsingu um að við viljum vera öruggur staður, þar sem það er í lagi að gera mistök, þar sem nýsköpun og tilraunastarf er gert hátt undir höfði. Því aðeins með því að prófa nýja hluti og gera mistök getum við lært.

Um leið veit ég vel að íhaldssamasta fólk sem ég kemst í kynni við er unga fólkið. Engin(n) er jafnfljót(ur) að grípa til orðanna, „þetta hefur alltaf verið svona og á að vera svona“, og 18 ára starfsmaður í sumarbúðum, nema ef vera skyldi 11 ára barn á sama stað.

Það er e.t.v. þetta mótsagnakennda samspil hefða, þroska, tilraunastarfsemi, nýsköpunar og mistaka sem U-ið í starfi KFUM og KFUK á eða ætti að standa fyrir í mínum huga.

Og já, ég er ekki orðin fertugur, tel mig enn ungan og lofa því að gera að minnsta kosti 90 mistök í vinnunni á hverju ári. Hvernig ætti ég annars að læra að gera eitthvað nýtt og þróa flott ný verkefni. Ég er auðvitað líka fastur í vel ríflega 90 hefðum, þannig að …

One thought on “U-ið”

  1. Ég er að reyna að hafa þor og þroska til að gera tilraunir, breyta og takast á við hluti til að læra af þeim. Það var minna um það þegar maður var U-ngur. Kannski fleiri ár geri mann yngri 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.