Biskupsframtíð og tvíþætt köllun

Fyrir þremur árum sat ég með tveimur ungum guðfræðingum í Bandaríkjunum og við ræddum vítt og breytt um framtíðina í kirkjunni. Þegar talið barst að prestsembættinu nefndi annar þeirra hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður, talaði um “bivocational” presta og sagði framtíðina verða afturhvarf til fortíðar. Presta í ELCA (Evangelical Lutheran Church in America) biði það hlutskipti á næstu 30-40 árum að þurfa á ný að verða bivocational, hafa tvíþætta köllun. Fjárhagslegar forsendur yrðu einfaldlega ekki til staðar til að söfnuðir gætu greitt boðleg laun fyrir presta og þeir þyrftu því að sinna prestsskyldum sínum meðfram öðrum störfum.

Við vitum auðvitað vel að Páll postuli starfaði sem tjaldgerðarmaður meðfram boðunarstarfinu og langt fram á 20. öldina kenndu prestar eða voru í búskap á Íslandi. Á síðustu 50 árum hefur það breyst á þann veg að prestsþjónusta hefur verið skilgreind sem fullt starf víðast hvar og laun presta á Íslandi hafa hækkað verulega.

Þessi þróun sem gerðist m.a. í skjóli samningsins milli ríkis og kirkju um yfirtöku kirkjujarða nálgast endapunkt. Ef frekari breytingar verða á fjármálum íslensku kirkjunnar á næstu árum þá er ósennilegt að launastrúktúr prestanna lifi það af, sem gæti kallað á tvíþætta köllun þjóna kirkjunnar.

Slík þróun mun ekki eiga sér stað yfir nótt. Enda kallar hún á róttæka endurskoðun á menntun presta. Það er ekkert grín að ætla að fara í 5 ára háskólanám til þess eins að vinna hlutastarf um kvöld og helgar. Þessi þróun, ef af verður, mun líka gera gífurlegar kröfur um endurskilgreiningu og endurskipulag prestsstarfsins eins og það hefur þróast í seinni tíð, t.d. á Íslandi.

Það er ljóst að næsti biskup getur hummað þessa þróun fram af sér. Enda er ósennilegt að það reyni á þessa þróun á næstu 6-12 árum. Hins vegar mun biskupinn sem tekur við í kjölfar 500 ára afmælis siðaskiptanna í Evrópu, þurfa að horfast í augu við harkalegan veruleika ef ekki verður byrjað að hugsa um framtíðarfjármál kirkjunnar án ríkisins mjög fljótlega.

One thought on “Biskupsframtíð og tvíþætt köllun”

Comments are closed.