Fortíðarbiskuparnir, og svo…

Hér á iSpeculate hyggst ég velta fyrir mér biskupsmálum á næstu vikum. Ekki vegna þess að það skipti neinu máli, heldur vegna þess að það er hollt að hugsa upphátt. Fyrsta færslan horfir afturábak (rétt er að taka fram að það eru 15 ár síðan ég stúderaði íslenska kirkjusögu í kjölfar iðnbyltingar).

Íslenska þjóðkirkjan stendur svo sem ekki frammi fyrir meiri tímamótum núna en áður. Tími þróunar og breytinga er alltaf. Hallgrímur Sveinsson kom á aukinni formlegri aðkomu leikmanna með þróun sóknarnefnda og var síðan biskup þegar kirkjunni var bjargað fjárhagslega í upphafi 20. aldar. Fyrstu sunnudagaskólarnir byrjuðu í tíð Hallgríms og auk þess hófst kristilegt barna- og unglingastarf Dómkirkjunnar á vegum KFUM og KFUK.

Þórhallur Bjarnason tók við sem biskup um 1908 í nýju umhverfi þar sem laun presta komu beint úr ríkiskassanum og festi það í sessi. Jón Helgason sat sem biskup í gegnum heimskreppu og á milli tveggja heimstyrjalda. Í lok hans tíma var að styrkjast í sessi píetísk kirkja í kirkjunni, sem var örugglega ekki alltaf auðvelt. Sigurgeir Sigurðsson kom að mótun kirkjulegs félagsstarfs fyrir börn og unglinga án aðkomu KFUM og KFUK, kannski gerðist ekki margt á tíma Ásmundar Guðmundssonar (þekkingarleysi mitt) en tími Sigurbjörns var tími mikilla breytinga. Uppgjörið við pósítivismann og spiritismann í kirkjunni, innleiðing lúthersk rétttrúnaðar, vígsla fyrstu konunnar sem prests og þróun biskupsembættisins í átt til meiri valda og miðstýringar. Pétur Sigurgeirsson var e.t.v. ekki mjög áberandi en hann kom að þróun safnaðarstarfs, stóð að baki endurreisnar djáknaembættisins og í hans tíð efldist barna- og æskulýðsstarfið gífurlega, og kannski við hæfi þar sem faðir hans kom að mótun þess starfs án aðkomu KFUM og KFUK á sínum tíma. Ólafur Skúlason styrkti prestanna í sessi. Í hans tíð hækkuðu laun presta verulega og ljóst er að völd biskups jukust til muna í hans tíð. Miðstýringin virðist hafa aukist og biskupsstofa óx og dafnaði undir hans stjórn. Ný þjóðkirkjulög voru samþykkt í lok skipunartíma Ólafs sem færði mikil völd frá ríkinu til innri stofnanna kirkjunnar. Verkefnið í tíð Karls Sigurbjörnssonar hefur verið að fylgja eftir nýjum þjóðkirkjulögum, þróa skipurit og stjórnkerfi kirkjunnar til að mæta lögunum frá 1997. Þar hefur gífurlega margt áunnist.

Spurningin sem blasir við er hvaða verkefni bíða næsta biskups, sem mætir ferskur til leiks á árinu 2012. Það er erfitt að fullyrða en eitt veit ég samt. Verkefni næsta biskups verður EKKI að endurvekja traust á kirkjunni. Einfaldlega vegna þess að það að búa til, endurvekja eða smíða traust er ekki verkefni í sjálfu sér. Traust myndast. Traust er ekki heldur markmið í sjálfu sér. Traust er verkfæri til að gera og vera. Það er gífurlega mikilvægt að næsti biskup skilji muninn á verkfærum og verkefnum. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli.

Hvað verður raunverulegt verkefni næsta biskups? Hvað mun biskup þurfa að gera eða vera, sem annað tveggja ávinnur traust eða dregur úr því? Það er erfitt að segja, en ég hyggst halda áfram að velta fyrir mér biskupamálum í síðari færslum.

One thought on “Fortíðarbiskuparnir, og svo…”

Comments are closed.