Ég ákvað að eyða smá tíma í að skoða hvað kostar að fá nettengingu í kjallarann. Þar sem búið er að leggja ljósleiðara í götuna þá ákvað ég bara að skoða þann möguleika, enda sýndist mér verðmunurinn á ADSL og ljósleiðara ekki mjög mikill.
Ég skoðaði þjónustu Símans, Vodafone, Tals og Hringdu og ætlaði að miða við 80GB á mánuði og bera þetta saman.
Ég byrjaði á að skoða Símann og þar er talað um 6.190 krónur án nokkurra fyrirvara.
Vodafone auglýsir að verðið sé 4.840 krónur* fyrir 80GB þar sem stjarnan vísar á að við bætist aðgangsgjald gagnaveitu og hefur síðan hlekk á verðskrá Vodafone. Þar kemur fram að verðið sé 4.840 krónur (án stjörnu) en þegar ég skrolla í gegnum alla verðskrána finn ég loksins aðgangsgjaldið sem er 2.410 krónur. Í verðskránni má líka finna leiguverð fyrir beini 490 krónur, tryggingargjald fyrir beini annars vegar sem er 9.900 krónur, og straumbreyti hins vegar sem er 990 krónur ásamt einhverju fleiru. Einnig kemur fram í verðskránni upplýsingar um 6 mánaða riftunargjald, án þess að neins staðar annars staðar komi fram hversu langur samningurinn sé í upphafi.
Verðskráin frá Tal gerir ráð fyrir 6.000 krónum fyrir ljósnet, en 5.340 krónur fyrir ljósleiðara en síðan bætist við 2.410 krónur vegna ljósleiðarans. Eins kemur inn leiguverð á router fyrir 499 krónur og alskonar aðrir hlutir sem ég get ekki vitað hvort eiga við mig, eins og útskriftargjöld upp á 139 krónur á mánuði, opnunargjald upp á 660 krónur og svo framvegis.
Hringdu býður upp á 50GB gagnamagn sem er líklega of lítið en kostar 2.995 krónur eða 150GB sem kosta 4.495 krónur. Við það bætast 2.410 krónur vegna ljósleiðarans. Eins virðist vera upphafsgjald sem ekki er hægt að finna nánari upplýsingar um.
Það leit því út fyrir að ódýrast væri að leita til Símans svo ég hringdi. En nei, það bætist að “sjálfsögðu” við línugjald upp á 1.290 krónur. Það þarf að binda áskriftina í 6 mánuði og ekki má gleyma leigu á router upp á 490 krónur. Þegar upptalningunni lauk ekki á viðbótargjöldum varð ég dónalegur og lagði á. Ég bið þjónustufulltrúann hér með afsökunar á því.
Ég hringdi líka í Vodafone og þar var mér sagt að afgreiðslutíminn á ljósleiðaraþjónustu væri 3-5 vikur og þá gerðist ég aftur dónalegur og lagði á. Ég biðst líka afsökunar á því.
Ég eyddi sem sé tveimur klukkustundum í að fara yfir vefsíður helstu samkeppnisaðilanna á þessum markaði, hringdi þrjú símtöl og er engu nær um hvað það kostar mig að fá netþjónustu í kjallarann. Hvorki hver upphafskostnaðurinn sé, né hvað ég þarf að borga á mánuði.