Ég sem sé var að koma til landsins rétt í þessu eftir að hafa átt góðar stundir með fjölskyldunni í Norður Karólínufylki. En alla vega.
Ég mætti á flugvöllinn í Raleigh rúmlega 12:00 á hádegi að staðartíma og til að “check-a” mig inn. Ég gerði reyndar tilraun til þess á netinu daginn áður en fékk villumeldingu um að hringja í US Airways sem ég og gerði. Þeir sögðu mér að tala við Icelandair og ég hringdi þangað líka. Þar var mér sagt að hætta þessari vitleysu, það væri lang auðveldast að bóka sig inn á flugvellinum.
US Airways er með sjálfvirkar bókunarvélar og þar fékk ég villumeldingu. Ég fór því að þjónustuborði og eftir að afgreiðslukonan hafði reynt hitt og þetta til að bóka mig komst hún að niðurstöðu. Icelandair hafði einfaldlega ekki gengið endanlega frá bókuninni minni og flugmiðinn minn væri ekki til. Konan hringdi því næst í einhvern þjónustufulltrúa US Airways, sem hringdi í Icelandair á Íslandi, en þar var búið að loka. Þá var mér einfaldlega tilkynnt að ef ekki næðist í Icelandair, þá væri ekkert hægt að gera. Ég benti þeim á það væri söluskrifstofa í BNA og ég hefði einhvern tíma fundið símanúmerið þeirra á icelandair.us í stað .is. Það tókst fyrir rest og eftir að starfsmaður Icelandair hafði loksins ýtt á “confirm” á skjánum sínum, gekk þetta í gegn eftir rúmar 30 mínútur. Þegar ég var að fara í gegnum öryggishliðið kom síðan tölvupóstur frá Icelandair um 10.000 króna breytingagjald. Ef starfsmaðurinn sem ég talaði við daginn áður hefði hlustað á mig, þegar ég sagði að eitthvað væri að, þá hefði þetta ekki gerst.
Jæja, hvað um það. Þessu næst fór ég að hliðinu fyrir 45 mínútna flugið mitt frá Raleigh til Charlotte, en þar átti ég að vera með 45 mínútna “stop-over” og fara síðan frá Charlotte til Washington-Dulles. Allt leit út eins og best var á kosið, vélin var á áætlun og allir farþegar komnir í sæti vel áður en flugvélin átti að fara frá hliðinu. Nema hvað, vélin fór ekki af stað. Flugstjórinn tilkynnti um vélarbilun sem tæki að minnsta kosti 30 mínútur að laga, flugfreyjan sagði að unnið væri að því að laga tengiflug allra farþega sem á þyrftu að halda og engin ástæða til annars en að bíða róleg, vélin kæmist í loftið og öllu yrði reddað í Charlotte. Nema hvað eftir rúmar 60 mínútur frá áætlaðri brottför og hálftíma áður en tengiflugið mitt átti að fara í loftið í Charlotte, komust flugvirkjarnir að því að vélin færi ekkert í loftið og við vorum öll send út úr vélinni og látin mynda raðir við þjónustuborð. Þar var ég bókaður með öðru flugfélagi, United, beint frá Raleigh til Washington-Dulles, þannig að flugferðum mínum var skyndilega fækkað um eina sem var svo sem ekki slæmt. Hins vegar var augljóst að þjónustufulltrúinn sem breytti fluginu mínu hafði ekki mikla trú á því að taskan mín sem ég hafði bókað myndi birtast. Þetta trúleysi var síðan staðfest af starfsmanni United þegar ég fór um borð í þá vél kl. 17:10 að staðartíma. En alla vega, ég komst til Washington-Dulles, einum og hálfum tíma áður en Icelandair vélin fór í loftið og er mættur til Íslands núna.
Það er líklega óþarfi að taka fram að taskan mín er týnd.