Vangaveltum mínum um greinaskrif á Vantrúarvefnum í þessari viku var svarað vel og greinilega af góðum mönnum. Jafnframt fékk ég yfirlit yfir greinaskrif á Vantrúarvefnum frá upphafi ef ég hefði áhuga að skoða þetta nánar. Þessi gögn eru að sjálfsögðu náma áhugaverðs efnis en þar sem ég er ekki talnafræðingur þá veit ég ekki hvort ég mun hella mér í það á næstunni að greina upplýsingarnar frekar en ég geri hér á eftir.
Ofangreint súlurit sýnir fjölda greina sem birtust í vefritinu í hverjum mánuði frá ágúst 2003 (leiðrétt) og fram til maí 2011. Rétt er að vekja athygli á að árlega hefur mjög dregið úr skrifum á sumrin sem útskýrir dalina í grafinu. Samkvæmt þessari mynd virðist hafa dregið nokkuð úr reglulegum greinaskrifum síðan í maí 2008. Þó eru sérstaklega tvö frávik frá samdrættinum. Í febrúar-mars 2010 birti vefurinn gagnrýni sína á glærur háskólakennara sem fjallaði um hópinn í námskeiði um nýtrúarhreyfingar, en gagnrýnin var birt í 12 færslum á vefnum, sem útskýrir að mestu aukin greinarskrif á þeim tíma.
Á sama hátt má sjá annan topp í september eða október 2010, sem skýrist annars vegar af mikilli umfjöllun um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur um aðkomu trúfélaga að skólastarfi og hins vegar vegna mjög mikillar umfjöllunar í samfélaginu um kynferðisofbeldi innan trúfélaga.
Viðbótargögn: Hér fyrir neðan bendir Hjalti á að “tíðni hluta eins og (ó)fleygra orða, myndbanda, teiknimynda og vísana skekkir ef til vill eitthvað myndina.” Ég ákvað að kanna það og merkja sérstaklega myndbönd, vísanir, fleyg- og ófleyg orð og sjá hvort að myndin breyttist eitthvað. Rauði toppurinn á súlunum merkir færslur sem falla í ofangreinda flokka.