Örlítið fleiri orð um Vantrúarhópinn

Í færslu fyrir nokkrum dögum skrifaði ég m.a. annars “og það er ljóst að við sjáum færri greinar á síðunni” og var þar að vísa til Vantru.is. Færslan fékk nokkra umfjöllun m.a. á Vantrúarvefnum sjálfum og virtust flestir á því að umfjöllunin væri tiltölulega sanngjörn nema ef væri fyrir of mikla áherslu mína á hefðir.

Eitt megineinkenni Vantrúarhópsins felst í því að hópurinn telur sig vera að “bregðast við”, er það sem í BNA væri kallað “reactive.” Ég velti fyrir mér hvort að aukin kraftur í skrifum á síðuna í þessari viku séu viðbrögð við umfjöllun minni (tilraun til að afsanna orð mín um færri greinar) eða einfaldlega skemmtileg tilviljun. Það kitlar hégómagirnd mína augljóslega ef ég hefði áhrif á tíðni greinarskrifa á Vantrú.

Rétt er þó að taka fram að ég hef ekki nennt að taka saman tíðni greinarskrifa á vefnum til að sjá birtingarmynstur, þannig gæti einfaldlega verið að tíðni skrifa aukist í kjölfar prófatímabila, eða hér sé um tilviljun að ráða. Þess utan er vikutímabil í líftíma 7 ára gamals vefs ekki beint marktækt til að fullyrða eitt eða neitt um, um eitt eða neitt. Ég var samt að velta þessu fyrir mér.