Kornið endist ekki endalaust og þegar fjölskylda Jakobs hefur étið upp birgðirnar, þarf að kaupa meira. Jakob lendir í rökræðum við syni sína um aðgerðir og finnur sig tilneyddan til að senda Benjamín með hópnum til Egyptalands.
Þegar hópurinn kemur aftur til Egyptalands, eru þeir leiddir beint í hús Jósefs þar sem þeim eru búnar sérstakar móttökur. Þeir bræður verða skelfdir, enda erfitt að sjá hvers vegna þeim er mætt á þennan hátt. Jósef spilar sína rullu sem fyrr, en þegar hann sér Benjamín bróður sinn, finnur hann sig tilneyddan að stíga afsíðis enda bera tilfinningarnar hann ofurliði. Jósef þvær tárin af andlitinu, gengur aftur út og spilar áfram rullu sína sem egypskur aðalsmaður, sem hann vissulega var. Það er sagt að Benjamín hafi verið veitt sérlega vel, fengið fimmfalt á við hina, og allir hafi þeir bræður orðið nokkuð hreifir.