Um mótsagnakenndar “lausnir” í kirkjustarfi

Það þarf engin að efast um að íslenska þjóðkirkjan stendur á krossgötum. Á Prestastefnu virðist hafa verið stigið mikilvægt fyrsta skref, þ.e. vandinn var viðurkenndur. Það er samt áhugavert hvernig viðbrögðin eru mótsagnakennd. Í öðru orðinu er rætt um sjálfboðið starf, sem væntanlega merkir að auka ábyrgð og virkni leikmanna í kirkjunni. Í hinu er samþykkt ályktun um samræmingu reglna um útleigu kirkjuhúsnæðis.

Fyrir ykkur sem eruð of skynsöm til að eyða tug milljóna í nám í kenningum um safnaðarstarf, leikmannafræði og stjórnun skipulagsheilda þá eru þessir tveir hlutir andstæður, svona eins og svart og hvítt, en ekki eins og heilagur og syndari. Það er nefnilega þannig að annað getur einfaldlega útilokað hitt.

Miðstýring, samræming, viðmiðanir, heildarskipan og staðlar eru andstæður þess að virkja fólk til ábyrgðar og þátttöku í kirkjustarfi. Auðvitað er einhvers konar miðlæg stefna nauðsynleg til að kirkjan sé kirkja. En ég held að fáir bjóði sig fram til setu í sóknarnefndum til að geta notað frítíma sinn til að framfylgja ályktun Prestastefnu um viðmiðunarreglur um leigu á kirkjuhúsnæði.

Fólk er í sóknarnefndum til að hafa áhrif á samfélagið sitt. Þannig getur það verið mikilvægur þáttur í huga sóknarnefndar að bjóða upp á vettvang fyrir samverur án endurgjalds fyrir alla þá sem til þeirra leita. Slíkt getur jafnvel verið köllun þeirra sem í sóknarnefnd sitja. Aðrar sóknarnefndir geta séð fyrir sér að safnaðarheimili sé fyrst og fremst tekjulind til að byggja upp frábært starf fyrir eldri borgara eða til að styðja við starf með börnum.

Ef við viljum virkja sjálfboðaliða verðum við að vera tilbúin að gefa eftir völd. Miðlægar ákvarðanir um smáatriði eins og leigu á húsnæði færa völdin burtu úr söfnuðinum, en reyna að skilja ábyrgðina eftir. Það sem hins vegar gerist í raun er að með valdayfirtöku miðstýringarinnar færist ábyrgðin. Við getum ekki ætlast til að sóknarnefndarfólk sem fær skilaboð að ofan um að hvernig það á að rukka fyrir leigu á safnaðarheimilinu, muni taka á sig ábyrgðina á því hvort að reksturinn gangi upp.

Ef kirkjan vill í raun og sann halda áfram að byggja upp sjálfboðið starf, leitast við að virkja fólk til góðra verka, þá er nauðsynlegt að gefa fólki völd til að gera gott og leyfa þeim að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Ályktun Prestastefnu um samræmingu á leigureglum sókna á húsnæði sínu er ekki skref í þá átt.