1. Mósebók 41. kafli

Tveimur árum eftir draumaráðningu Jósefs fyrir yfirbyrlarann dregur til tíðinda. Konung Egyptalands, faraó, dreymir draum. Spásagnarmenn faraósins hafa enginn svör þegar kemur að merkingu draumanna og þá skyndilega rifjast upp fyrir byrlaranum, hebreinn ungi sem hafði spáð réttilega um framtíðina. Jósef er sóttur, klæddur upp og klipptur.

Jósef vísar til þess að draumaráðningar hans séu Guðs (El?) verk og hlustar á drauma faraós. Jósef túlkar draumana á þá leið að kreppa sé í nánd eftir mikið velsældarskeið og mikilvægt að faraó noti góðærið til að búa sig undir yfirvofandi kreppu. Í stað þess að hafna spá Jósef sem vitleysu, enda sé ekki séns á að útlendingar skilji egypskt efnahagslíf og spá Jósefs hljóti að byggja á öfund vegna þess að Egyptar hafi fundið nýjar aðferðir til að stunda viðskipti og byggja upp auð sem Jósef skilji einfaldlega ekki, þá hlustar faraó og bregst við viðvörunum. Það sem meira er, faraó leitar til Jósefs um að taka að sér starf efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar.

Við lesum að Jósef giftist dóttur trúarleiðtoga í Egyptalandi, ferðast um landið og reynir að draga úr bólumyndun í hagkerfinu, með því að setja á strangari reglugerðir um nauðsynlegt eigið fé banka (eða eitthvað svoleiðis, líklega korneign bænda). Við lesum hér um virkt fjármálaeftirlit (aka kornstöðueftirlit) og þegar efnahagskreppan leggst yfir hinn þekkta heim, þá er það Egyptaland sem er í hlutverki Noregs samtímans. Þangað sem menn streyma frá öllum löndum.