Að endurheimta sjálfsmynd þjóðar

Dóttir mín sagði mér í morgun þegar ég keyrði hana í skólann, að Osama Bin Laden væri dáinn. Ég hafði að sjálfsögðu heyrt fréttirnar, sat yfir CBS News í nótt, fylgdist með fréttum á NPR og CNN og hafði hlustað á ávarp Barack Obama í gærkvöldi. Hins vegar hafði þetta ekki komið til tals fyrr um morguninn og ég vissi sem var að 12 ára dóttir mín hafði ekki hlustað á fréttir síðan í gærdag.

Ég sagði henni að ég hafði heyrt fréttirnar og spurði hvar hún hefði heyrt þær. Jú, vinkona hennar úr skólanum hafði sent henni SMS kl. 23:30 í gærkvöldi. Ég sagði dóttur minni að Osama hefði ekki dáið náttúrulegum dauðdaga og við hlustuðum síðan á fréttaflutning NPR í nokkrar mínútur þangað til við komum að skólanum. Þegar við kvöddumst, talaði hún um að dauði Osama yrði væntanlega aðalmálið í “Morning Meeting” í bekknum hennar. En kennarinn hennar gefur bekknum 10-15 mínútur í upphafi hvers dags til að ræða um atburði í heiminum síðustu 24 klst. Stundum er um að ræða íþróttafréttir eða nýjar kvikmyndir. Hún var þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að hlusta á fréttaumfjöllunina sem við heyrðum í bílnum þannig að hún hefði eitthvað til málanna að leggja.

Síðan ég sá fréttir í gær og nótt hef ég velt fyrir mér fagnaðarlátunum við Hvíta húsið, við Ground Zero og kannski ekki síður partýinu við Mirror Lake á Ohio State University Campus. Það er óþægilegt að heyra um fagnaðarlæti vegna dauða einhvers. Jafnvel þó sá hinn sami hafi borið ábyrgð á dauða þúsunda.

Það er samt líklega ekki alveg rétt að segja að fagnaðarlætin séu vegna dauða Osama. Osama Bin Laden var enda fyrst og fremst tákn og fyrir fjölmörgum Bandaríkjamönnum var hann tákn um vanmátt og getuleysi bandarískra stjórnvalda. Tilvera Osama gaf til kynna að Bandaríkjamönnum væru ekki allir vegir færir, Hann var stöðug áminning um að hugmyndin um “American Exceptionalism,” að Bandaríkin væru í raun fyrirheitna landið, útvörður tækifærana, frelsisins og hetjanna, væri e.t.v. lítið annað en blekking. Það að bandaríska þjóðin gæti ekki borið sigurorð af skítugum, klikkuðum kalli, sem líkast til bjó í helli, hefur haft mikil áhrif á sjálfsmynd heillar þjóðar.

Fagnaðarlætin í gærkvöldi og nótt og í minna mæli í dag, ásamt ræðu Barack Obama á miðnætti fjalla öðru fremur um endurreisn ameríska draumsins. Nú er aftur hægt að syngja af sannfæringu um að Bandaríkin séu “home of the brave.”

Hún hefur enda verið áberandi í bandarískri stjórnmálaumræðu síðustu misserin, þessi hugmynd um að Bandaríkin séu ekki lengur það sem þau voru. Ákallið eftir endurreisn fyrirheitna landsins er meginstef tepokahreyfingarinnar. “Birther”-hreyfingin hefur að hluta til verið af sama meiði. Þannig hefur því verið haldið á lofti nýlega að þar sem Barack bjó erlendis sem barn og sótti skóla í útlöndum, hafi hann ekki það til að bera sem þarf til að vera leiðtogi í fyrirheitna landinu. Hann hafi enda ekki alist upp í trúnni á fyrirheitin.

Það er alls óvíst hvort að aftakan á Osama Bin Laden muni breyta nokkru um hryðjuverkaárásir í heiminum. Það er ekki líklegt að veruleg breyting verði á stefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, eða að viðhorf fólks um allan heim muni breytast í garð bandarískra stjórnvalda.

Aftakan á Osama Bin Laden snýst fyrst og fremst um endurheimt sjálfsmyndar. Hún snýst um 12 ára stúlku í úthverfi Columbus, Ohio, sem er vakin af foreldrum sínum og tilkynnt að óvinurinn hafi verið tekin af lífi. Aftakan snýst um 12 ára stúlku sem tekur upp gemsann sinn og sendir vinkonu sinni SMS, “Osama Bin Laden is dead.”