Ég sá athugasemd á Facebook áðan sem endurspeglaði gífurlegan guðfræðilegan misskilning á stöðu og hlutverki vígðra þjóna þjóðkirkjunnar á Íslandi. Um leið áttaði ég mig á að misskilningurinn sem kom fram í athugasemdinni byggðist fyrst og fremst á því hvernig hlutverk vígðra þjóna birtist í samfélaginu, en ekki á guðfræðilegum forsendum og hugmyndafræðilegu hlutverki.
Í kjölfarið á þessum hugsunum fór ég að velta fyrir mér þessu gjánni sem stundum virðist vera á milli lútherskra guðfræðihugmynda og atferlis þjóðkirkjunnar. Það kemur auðvitað skýrt fram í upphafinni stöðu prestsins og ekki síður biskupa, sem ég nenni svo sem ekki að ræða hér. Hins vegar er ekki síður áhugavert að velta fyrir sér skírnarathöfnum og þá sér í lagi þeirri hefð að skíra í heimahúsi eða í einkaathöfnum.
Mér flaug auðvitað í hug að einhver hefði skrifað eitthvað á netið svo ég gúgglaði “skírn í heimahúsum” og það stóð á heima, fjöldi færslna kom upp, langflestar á barnaland.is/er.is, þar sem ítarlega er rætt um ytri umgjörð, mikilvægi nándar og persónulegrar upplifunar. Ég sá einnig að guðfræðiprófessor hafði bloggað lítillega um málið og lagt þar áherslu á persónuleg tengsl, hátíðleika og hvernig presturinn skapaði helgidóm á heimilinu. Ég minnist líka orða góðs prests sem ég virði mikils um hversu frábært sé að prestinum sé boðið inn á heimilin í tengslum við fæðingu barna.
Allt er þetta mikilvægt, en ég velti fyrir mér hvort að skírnin snúist um persónulega upplifun foreldra og aðstandenda, mikilvægi þess að prestar tengist heimilum landsins með því að koma í heimsókn eða að fólk finni til nándar hvort við annað heima hjá sér. Hér er mikilvægt að taka fram að ekkert af þessu er slæmt í sjálfu sér. Reyndar eru þetta allt fremur jákvæðir þættir.
Það er samt líka mikilvægt að staldra við önnur skilaboð sem heimaskírnir/einkaathafnir senda. Hér eru nokkrar pælingar.
- Hvað segja einkaathafnir um stöðu og hlutverk prestsins?
- Hvað skilaboð senda einkaathafnir um innihald kristinnar trúar?
- Hvað kenna einkaathafnir okkur um hlutverk safnaðarins?
- Hvað felst í því að vera almenn (katólsk) kirkja þegar við bjóðum upp á lokaðar athafnir?
- Hvernig skiljum við skírnina?
- Hafa heimaskírnir áhrif á það hvernig við skiljum og glímum við spurningar um eilíft líf?
Spurningarnar gætu verið mun fleiri og svörin við þessum pælingum eru ekki einföld, skila ekki einföldu já-i eða nei-i. Markmið guðfræðilegrar hugsunar er enda ekki að steypa alla í sama mót. Guðfræðileg hugsun innan kirkjunnar á að sjálfsögðu fyrst og fremst að þjóna okkur þegar við leitum skilnings á hver Guð er og hvað Guð vill okkur. Guðfræðileg hugsun hjálpar til við að sjá hvernig atferli okkar mótar hugmyndir okkar og hvernig við getum látið hugmyndir okkar móta atferlið. Það er nefnilega stundum að “af því bara” atferli endurspeglar Guðsmynd sem er ekki endilega sá Guð sem við segjumst játa.