Heimur karlveldisins er kynntur áfram. Eiginkonur eru metnar eftir fjölda barna. Okkur er sagt frá hvernig ambáttir systranna eru notaðar til að ala Jakobi börn, sem systurnar síðan eigna sér. Við sjáum tilraunir systranna til að hafa vægi í heimi þar sem karlar ráða. Óréttlætið og misréttið umlykja þessa sögu.
Við lesum hér líka um hvernig Jakob svíkur út úr Laban tengdaföður sínum helstu eigur hans. Blóðtengsl og fjölskyldumynstur koma ekki í veg fyrir svik og pretti. Ekki einu sinni í frásögnum Biblíunnar. Jakob hagnast gífurlega á svikum sínum. Það er nefnilega ekki samasemmerki á milli góðvildar og velgengni. Blessun Drottins í frásögnum af afkomendum Abrahams er ekki bundinn við góðmenni. Einhver myndi eiginlega segja þvert á móti. Skíthælarnir virðast oft hafa betur.